Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 263/1984

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 11. gr., 13. gr., 18. gr., 106. gr.   Lög nr. 68/1971, 7. gr. 1. mgr. E-liður 1. mgr.  

Söluhagnaður fyrnanlegs lausafjár — Sameignarfélag — Söluhagnaður eignarhluta í sameignarfélagi — Ákvörðun söluhagnaðar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Lagaheimild — Lögskýring — Sjálfstæður skattaðili — Fyrning söluhagnaðar — Álag

Með úrskurði sínum nr. 380, dags. 23. júní 1982, vísaði ríkisskattanefnd frá að svo stöddu bráðabirgðakæru kæranda, dags. 12. febrúar 1982, út af álagningu opinberra gjalda á hann gjaldárið 1981 þar eð boðuð kröfugerð hefði ekki borist.

Með bréfi dags. 25. júní 1982 en mótteknu hjá ríkisskattanefnd þann 28. júní 1982 sendi kærandi kröfugerð sína í tilefni af kæru sinni frá 12. febrúar 1982 og fer fram á að ríkisskattanefnd endurupptaki fyrrnefndan frávísunarúrskurð sinn og kveði upp nýjan úrskurð þess efnis að fallist verði á kröfur hans í málinu. Af gögnum málsins verðu helst ráðið að kröfur kæranda séu þessar: Að úrskurðað verði að hann „hafi selt sinn hluta af vélum og áhöldum M s.f. og að fyrning söluhagnaðar verði leyfð sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 75/1981.“; Að fyrirliggjandi skattframtal verði lagt til grundvallar ákvörðunar gjalda án álags, en þó með tilliti til leiðréttinga þeirra sem fram komi í bréfi til skattstjóra dags. 7. desember 1981; Að verði bifreið kæranda eigi talin hæf til fyrningar á móti söluhagnaði er þess krafist að skattlagningu söluhagnaðar verði frestað svo að kæranda gefist kostur á að afla sér annarra fyrnanlegra eigna samkvæmt heimild í lögum. Í bréfum til skattstjóra dags. 7. desember 1981 og 9. febrúar 1982 og til ríkisskattanefndar dags. 25. júní 1982 og 9. nóvember 1983 er gerð grein fyrir kröfum þessum.

Með bréfi dags. 21. október 1983 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur en fallist er á lækkun á fjárhæð þar tilgreinds söluhagnaðar vegna sölu á eignarhluta í félagi með tilliti til þess að varasjóður umrædds félags var skattlagður við álagningu gjalda 1980 er félagið var skattlagt hjá eigendum. Fjárhæð söluhagnaðar verður samkvæmt því gkr. 24.877.367.

Rökstuðningur:

Með samningi, dags. 13. feb. 1980, seldi kærandi eignarhluta sinn í sameignarfélaginu M sf. meðeiganda sínum að 90% en öðrum 10% af hlut sínum. Félagið hafði verið sjálfstæður skattaðili en fullnægði ekki lengur skilyrðum sem slíkur og reksturinn skattlagður hjá eigendum við álagningu gjalda 1980.

Í úrskurði skattstjóra er að finna ítarlegan rökstuðning fyrir því að um sölu á eignarhluta í félagi hafi verið að ræða en ekki sölu á eignarhlut kæranda í einstöku vélum og tækjum félagsins. Þá er í úrskurði skattstjóra að finna greinargóða sundurliðun á ákvörðun fjárhæðar söluhagnaðarins.

Í 3. gr. áminnst kaupsamnings kemur fram að kaupendur skuldbinda sig til að yfirtaka skuldir félagsins á undirskriftardegi og fylgdi samningnum sérstök skrá yfir skuldir félagsins. Í 12. gr. samningsins var ákvæði um að kaupverð geti hækkað eða lækkað í samræmi við endurskoðun á skuldalista, en engar upplýsingar liggja fyrir um leiðréttingu skuldalistans.

Að áliti ríkisskattstjóra er hér tvímælalaust um að ræða sölu á eignarhluta í félagi samkvæmt beinu orðalagi kaupsamnings eins og hann er undirritaður. Um ákvörðun söluhagnaðar fer því eftir 18. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og við þá ákvörðun ber að taka tillit til þess að varasjóður félagsins var skattlagður hjá eigendum við álagningu gjalda 1980 og lækkar því fjárhæð ákvarðaðs söluhagnaðar sem því nemur.

Ríkisskattstjóri ítrekar gerðar kröfur í málinu og vísar til rökstuðnings hér að framan, svo og ítarlegs rökstuðnings skattstjóra.“

Áminnst sameignarfélag var eigi sjálfstæður skattaðili og eiga þá ákvæði 18. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt ekki við hvorki samkvæmt orðum sínum, lagasamræmingu, tilgangi né forsögu, sbr. í þeim efnum 1. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/ 1971 um tekjuskatt og eignarskatt, svo og greinargerð í frumvarpi fyrir nefndri 18. gr. Er því fallist á það með kæranda að um hafi verið að ræða sölu á hlutdeild hans í eignum félagsins og fer því um ákvörðun og meðferð söluhagnaðar eftir ákvæðum laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt um hagnað af sölu lausafjár. Svo sem gögn málsins liggja fyrir verður nákvæm fjárhæð skattskylds söluhagnaðar ekki fundin með fullri vissu. Þykir því eftir atvikum verða að áætla þá fjárhæð. Eftir því sem helst má ráða af gögnum málsins og upplýsingum kæranda þykir skattskyldur söluhagnaður hæfilega ákvarðaður með gkr. 18.000.000. Að frádregnu rekstrartapi og sérstakri fyrningu hlutdeildar kæranda í fyrnanlegum eignum K s.f. verður fjárhæð þess hluta söluhagnaðar, sem frestað er skattlagningu á gkr. 13.362.030. Af gögnum málsins verður eigi annað ráðið en kærandi hafi í árslok átt útistandandi af söluverði hinna seldu eigna gkr. 6.500.000 og þykir bera að færa þá fjárhæð til eignar í efnahagsreikningi. Eftir atvikum er álagsbeiting skattstjóra felld niður. Að öðru leyti er hinn kærði úrskurður staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja