Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 265/1984

Reglugerð nr. 486/1982   Reglugerð nr. 417/1982   Lög nr. 51/1968   Lög nr. 10/1960, 25. gr.   Lög nr. 19/1940, 262. gr.  

Söluskattsskyld starfsemi — Bókhald — Bókhaldsathugun — Skattrannsóknarstjóri — Bókhaldseftirlit — Bókhaldslagabrot — Tilhögun bókhalds — Hegningarlagabrot — Opinbert mál — Valdsvið ríkisskattanefndar — Sektarvald — Refsing — Sektarheimild — Frávísun — Sektarkrafa — Bókhaldsskyldur aðili

Með bréfi dags. 23. september 1983 hefur skattrannsóknarstjóri sent ríkisskattanefnd til sektarmeðferðar skv. 26. gr., sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt með áorðnum breytingum mál X. Er bréf skattrannsóknarstjóra svohljóðandi:

„Hér með sendist yður til meðferðar mál hárgreiðslustofunnar A, þar sem tilskilið bókhald lögum samkvæmt hefur ekki verið fært rekstri fyrirtækisins til grundvallar. Af hálfu skattrannsóknarstjóra verður máli þessu ekki vísað til opinberrar rannsóknar.

Hárgreiðslustofan A er einkafyrirtæki X. Starfsemin hófst þann 13. september 1982. Starfsemin er fólgin hársnyrtingu og sölu gjafa- og snyrtivara. Starfsmenn fyrirtækisins eru fjórir auk eiganda.

Með framtali X, gjaldárið 1983, fylgir ársreikningur vegna reksturs hárgreiðslustofunnar fyrir árið 1982. Ársreikningurinn er unninn af endurskoðunarskrifstofu H, „samkvæmt gögnum yðar og upplýsingum, án endurskoðunar“, eins og segir í ársreikningum. Ársreikningurinn hefur ekki verið undirritaður af eiganda hárgreiðslustofunnar eins og lög gera ráð fyrir.

Söluskattsskýrslum fyrir hárgreiðslustofuna A hefur verið skilað eins og lög gera ráð fyrir og ýmist undirritaður af X eða Y, sambýlismanni hennar. Heildarsöluskattsskyld velta fyrir tímabilið september til og með desember 1982 var samtals kr. 73.799.00 og fyrir tímabilið janúar til og með maí 1983, kr. 171.723.00.

Málavextir:

Þann 11. apríl 1983 gerði rannsóknardeild ríkisskattstjóra athugun á bókhaldi og söluskattsskilum hárgreiðslustofunnar A. Athugunin er fram fór á starfstöð fyrirtækisins, beindist einkum að skráningu á staðgreiðslusölu hárgreiðslustofunnar og hvort sjóðbók væri færð í samræmi við ákvæði laga og reglna.

Í ljós kom að fyrirmæli laga nr. 51/1968 um bókhald og laga nr. 10/1960 um söluskatt, með síðari breytingum, sbr. og reglugerðir settar með stoð í þeim, höfðu verið virt að vettugi, sbr. fylgiskjal I, með skýrslu rannsóknardeildarinnar nr. 5768/2420.

Staðgreiðslusalan var hvorki skráð með sjóðvél né voru staðgreiðslusölulistar færðir. Þá var engin sjóðbók færð.

Eiganda hárgreiðslustofunnar, X, voru gefin fyrirmæli um að færa staðgreiðslusölubók og sjóðbók daglega. Móttöku þessara fyrirmæla staðfesti hún með undirskrift sinni þann 11. apríl s.l., sbr. fylgiskjal I með skýrslu rannsóknardeildarinnar nr. 5768/2420.

Þann 10. júní s.l. gerði svo rannsóknardeild ríkisskattstjóra athugun á hvort áðurgreindum fyrirmælum, frá 11. apríl s.l., hafi verið framfylgt, jafnframt því að enn á ný fór fram athugun á bókhaldi og söluskattsskilum hárgreiðslustofunnar.

Niðurstöður þessarar athugunar eru greindar í meðfylgjandi skýrslu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra, merktri Rd. nr. 5768/2420 og dags. 30. júní 1983. Þar kemur m.a. fram, að á skoðunardegi hafði staðgreiðslusölulisti einungis verið færður frá 11.04. 1983 til 20.05.1982. Engin skrásetning hafði átt sér stað á vörusölu hárgreiðslustofunnar og sjóðbók einungis færð til 06.05.1983.

Að öðru leyti hafði ekkert bókhald verið fært rekstri hárgreiðslustofunnar til grundvallar. Í skýrslutöku hjá rannsóknardeild ríkisskattstjóra er fram fór þann 22. júlí s.l. kom fram hjá X að pantanir hafa verið skráðar á sérstök pöntunareyðublöð. Hún hafi hins vegar ekki gætt þess að um bókhaldsgögn var að ræða, sem bar að varðveita og henti þessum gögnum, sbr. svar við sp. 11. á fylgiskjali II.

Lagarök:

Samkvæmt 1. og 19. tl. B-liðar 2. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 51/1968 sbr. lög nr. 47/1978 um bókhald, er eigandi hárgreiðslustofunnar A bókhaldsskyldur. Honum bar að halda tvíhliða bókhald í samræmi við ákvæði 1. mgr. 3. gr. bókhaldslaga, þar sem skilyrði 2. mgr. 3. gr. sömu laga um undanþágu frá því, voru ekki uppfyllt.

Ofangreindir annmarkar á bókhaldi fyrirtækisins brjóta í bága við eftirfarandi ákvæði II. kafla laga nr. 51/1968, sbr. lög nr. 47/1978 um bókhald og ákvæði reglugerðar nr. 417/ 1982 með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 4. gr. bókhaldslaga:

1. tl. 3. mgr. 5. gr. sbr. 7. gr. og 10. gr. bókhaldslaga, þar sem sjóðbókarfærslum er ábótavant.

5. gr. sbr. 8. gr., 9. gr, 10. gr., 11. gr. og 14. gr. bókhaldslaga, þar sem lögskipaðar bókhaldsbækur voru að öðru leyti ekki færðar og engin bókhaldslokun átt sér stað.

1. mgr. 10. gr. rg. 417/1982, þar sem frumskráning tekna, í samræmi við þetta ákvæði, átti sér einungis stað á tímabilinu 11.04. — 20.05. s.l.

Þá brjóta ofangreinir annmarkar á bókhaldi fyrirtækisins ennfremur í bága við eftirtalin ákvæði IV. kafla rg. 486/1982 um söluskatt, með áorðnum breytingum, sbr. og áður rg. 169/1970, sem stoð á í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt með áorðnum breytingum:

15. gr. þar sem bókhaldi fyrirtækisins er ekki hagað í samræmi við lög 51/1968 um bókhald og þar sem frumskráning tekna er þannig úr garði gerð að ekki er hægt að ganga úr skugga um réttmæti söluskattsskýrslna.

17. gr. þar sem söluskattsskil eru ekki byggð á bókhaldi.

22. gr., sbr. 17. gr. laga nr. 10/1960 með síðari breytingum, þar sem frumskráning sölu er ekki í samræmi við lög og reglur.

Hér með er þess farið á leit við ríkisskattanefnd að hún geri X, fyrir hönd hárgreiðslustofunnar A, að greiða sekt vegna ofangreindrar vanrækslu á færslu bókhalds lögum samkvæmt á grundvelli 2. mgr. 25. gr. sbr. 26. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt með áorðnum breytingum með lögum nr. 10/1974 og lögum nr. 10/1974 og lögum nr. 33/1982.“

Með bréfi ríkisskattanefndar dags. 17. október 1983 var X veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindu bréfi skattrannsóknarstjóra. Af hennar hálfu var það gert með bréfi dags. 7. nóvember 1983. Er vörnin svohljóðandi:

„Umbjóðandi minn gerir sér grein fyrir því að ekki hafi verið farið að settum reglum hvað varðar meðhöndlun og skráningu bókhaldsgagna þeirra sem til lögðust við rekstur einkafyrirtækis hennar, hárgreiðslustofunnar A.

Handvömm þessi og lagabrot voru ekki framin í þeim tilgangi að komast hjá lögboðnum opinberum greiðslum af rekstri fyrirtækisins heldur er hér fyrst og fremst um að ræða allt of miklar annir hjá umbjóðanda mínum. Þann 22. september 1982 eignaðist X dóttur. Við komu dótturinnar þá hefur hún nánast engan tíma til að sinna rekstri hárgreiðslustofunnar og við það verður rekstur stofunnar mjög bágborinn.

Það er að sjálfsögðu lagalega séð ótækt að ekki sé farið að lögum þeim sem marka lágmarkskröfur löggjafans hvað varðar færslu bókhalds. En það er nú því miður þannig að sum verk móður geta alls ekki beðið en ýmis önnur verk eru látin bíða, þó svo það sé lagalega ekki rétt, þar sem það virðist allt í lagi úr því sem komið er að geyma þau til „morguns“. Þetta er að líkindum aðalástæðan fyrir því að X hafði ekki komið því í verk að færa tilskildar bækur tilheyrandi rekstri hárgreiðslunnar. Einnig viðurkennir hún að hafa ekki gert sér fullkomlega grein fyrir skyldum sínum.

Í dag veit hún hvað henni ber að gera eða láta gera hvað varðar skráningu og bókhald hárgreiðslustofunnar og er ákveðin í því að hafa þetta í lagi hér eftir. 

Fyrir hönd X fer ég þess hér með á leit við yður að þér hlífið henni við sektum vegna brots hennar eða stillið þeim eins mikið í hóf og þér teljið yður mögulegt þar sem augljóst er að hér er ekki um auðgunarbrot að ásettu ráði að ræða heldur ókunnugleiki og miklar annir ásamt byrjunarörðugleikum.“

Í 25. gr. laga nr. 51/1968 um bókhald er það ákvæði að fyrir brot gegn þeim lögum skuli refsað samkvæmt ákvæðum í almennum hegningarlögum. Í 16. gr. reglugerðar nr. 417/1982 um bókhald er þess og getið að fyrir brot á þeirri reglugerð skuli refsað samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga. Brot á ofannefndum lögum og reglugerð varðar við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það á eigi undir sektarvald ríkisskattanefndar að ákvarða sektir fyrir bókhaldslagabrot, sem varða við nefnda 262. gr.

Svo sem mál þetta er lagt fyrir verður ekki annað séð en að það varði sektarbeitingu vegna meintra brota á lögum og reglugerð um bókhald. Er máli þessu því vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja