Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 389/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 7. gr. C-liður 2. tl. 1. mgr., 14. gr., 21. gr. 1. mgr. 2. ml.   Lög nr. 6/1977   Lög nr. 24/1973   Lög nr. 11/1973  

Skattskyldar tekjur — Söluhagnaður ófyrnanlegra eigna — Náttúruauðæfi — Námaréttindi — Ófyrnanleg eign — Eignarnám — Eignarnámsbætur — Eignatekjur — Dreifing skattskylds söluhagnaðar — Skaðabætur — Arður af eignarréttindum — Atvinnurekstur — Landbúnaður — Bóndi — Búrekstur — Afnotaréttur

Kærandi hefur búrekstur með höndum. Með bréfi, dags. 13. desember 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri, að færa honum til tekna í skattframtali árið 1983 helming af malarsölu til Vegagerðar ríkisins 24.258 kr. sbr. launamiða frá Vegagerðinni alls að fjárhæð 48.516 kr. Sá miði væri á nafni F.K., en hann teldi, að fjárhæðin ætti að skiptast til helminga milli sín og kæranda. Skriflegar athugasemdir skyldu berast skattstjóra innan 8 daga frá dagsetningu bréfsins. Svar barst ekki og með bréfi, dags. 3. janúar 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda, að nefnd fjárhæð hefði verið færð honum til tekna og áður álögðum opinberum gjöldum gjaldárið 1983 breytt til samræmis við það til hækkunar.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var ákvörðun skattstjóra kærð með kæru, dags. 16. janúar 1984. Tók umboðsmaðurinn fram, að samkvæmt vegalögum væri landeigandi skyldur til þess að leyfa efnistöku í landi sínu og þola eignarnám á því. Fór hann því fram á, að með umræddar tekjur yrði farið samkvæmt 3. mgr. 14. gr. og 2. ml. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e.a.s. að heimilað yrði að telja helming söluverðs 12.159 kr. til skattskyldra tekna og jafnframt að dreifa fjárhæðinni til tekna á 5 árum eða 2.432 kr. í hvert sinn.

Með úrskurði, dags. 16. febrúar 1984, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda og ákvað, að álögð opinber gjöld gjaldárið 1983 skyldu óbreytt standa. Forsendur skattstjóra voru svohljóðandi:

„Litið er á tekjur af sölu efnis úr landi bónda sem atvinnurekstrartekjur þar sem það er hans atvinna að nytja land sitt á ýmsa vegu, m.a. með því að selja efni til mannvirkjagerðar. Þess vegna verður ekki fallist á það sjónarmið kæranda að hér hafi verið um að ræða söluhagnað af ófyrnanlegu landi, sem tekið hafi verið eignarnámi, sbr. ákvæði 14. og 21. gr. laga nr. 75/1981, enda heldur landeigandi óskoruðum eignarrétti yfir landi sínu og getur notað það til búrekstrar eftir sem áður.

Því er litið svo á að ekki hafi farið fram eignarnám á L landi og að umræddar tekjur af malarsölu falli undir ákvæði B-liðar 7. gr. nefndra laga. Beri því að telja greindar tekjur að fullu til tekna á því ári er sala efnisins fór fram.“

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. mars 1984, með vísan til krafna í kæru til skattstjóra, dags. 16. janúar 1984. Til viðbótar þargreindum rökstuðningi tekur umboðsmaðurinn fram, að tekjur kæranda af malarsölu séu háðar eftirspurn af hálfu Vegagerðar ríkisins og geti hann því ekki haft áhrif á, hvenær þessar tekjur verði til né hversu miklar þær verði hverju sinni. Þó landeigandi haldi eignarrétti yfir landi því, sem möl er seld úr, sé nýting á landinu til búrekstrar ómöguleg, þar sem landið er skilið eftir sundurtætt og grafið.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 7. maí 1984:

„Að kröfum kæranda verði hafnað.

Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram í málinu til staðfestingar því að um eignarnám hafi verið að ræða í landi kæranda.

Efnistaka í landi kæranda virðist þannig byggð á samningi kæranda við Vegagerð ríkisins. Í tilviki kæranda sýnist ekki óeðlilegt að líta á efnissöluna sem atvinnurekstur og er því tekið undir það sem fram kemur í úrskurði skattstjóra þar að lútandi.

Ekki verður það þó talið ótvírætt og er því til vara krafist skattlagningar með vísan til 9. tl. C-liðs 7. gr. skattalaga.

Ríkisskattstjóri hafnar því alfarið að efnissala kæranda geti fallið undir 8. tl. C-liðs 7. gr. skattalaga enda er hér ekki um að ræða afsal á tilteknum eignarréttindum skv. venjulegum skilningi þess orðs.“

Skattstjóri hefur á því byggt, að kærandi hagnýtti sér jarðefni bújarðar sinnar, sbr. lög nr. 24/1973, námulög, í atvinnuskyni, þannig að umrædd efnistaka Vegagerðar ríkisins og endurgjald fyrir hana væri liður í atvinnurekstri hans. Um aðra efnistöku var eigi að ræða, en nefnda malartöku Vegagerðar ríkisins. Hvorki var kærandi skyldaður til þess að láta af hendi land né námaréttindi heldur sýnist hér hafa verið um skyldu hans að ræða til þess að leyfa efnistöku samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 6/1977, vegalaga. Þar er svo kveðið á um, að landeigandi hver sé skyldur til þess að leyfa, að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur er grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Þá er og í sömu málsgrein þessarar greinar mælt fyrir um skyldur landeiganda til þess að láta af hendi land það, sem þarf undir vegi eða til breytingar, breikkunar eða viðhalds vega, enda komi fullar bætur fyrir. Í 60. gr. laganna segir, að bætur fyrir eignarnám, jarðrask og átroðning megi ákveða eftir samkomulagi milli landeigenda og umboðsmanns þeirra, er bætur eiga að greiða. Ef samkomulag náist ekki, skuli ákveða bætur með mati samkvæmt, lögum um framkvæmd eignarnáms. Verður að telja, að hin umdeilda greiðsla Vegagerðar ríkisins til kæranda hafi verið bætur inntar af hendi á grundvelli nefnds ákvæðis vegalaga. Verður eigi annað ráðið, en bætur þessar hafi verið ákveðnar með samkomulagi aðila og eigi hafi til þess komið, að þær væru ákveðnar samkvæmt lögum nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms. Af hálfu kæranda er því haldið fram, að hina umþrættu greiðslu Vegagerðarinnar beri að virða sem bætur vegna eignarnáms, sbr. 1. ml. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þannig að greiðslan teljist söluverð eignar og söluhagnaður reiknist og með hann fari eftir ákvæðum 10. — 27. gr. laganna, en í því sambandi telur kærandi, að í þessu tilfelli eigi 14. gr. við og vill nota ákvæði 3. mgr. þeirrar greinar. Þá vill kærandi nýta sér heimild 2. ml. 1. mgr. 21. gr. nefndra laga til að færa skattskyldan söluhagnað til tekna með jöfnum fjárhæðum á allt að fimm árum.

Eigi er á það fallist með skattstjóra, svo sem málavöxtum er hér háttað, að greiðslan til kæranda frá Vegagerð ríkisins, sem um er deilt í máli þessu, geti talist tekjur kæranda af atvinnurekstri. Eftir því, sem upplýst er í máli þessu, hefur Vegagerð ríkisins gengið í rétt kæranda til jarðefna á landi sínu á grundvelli fyrrnefndrar heimildar vegalaga og stofnað til afnotaréttinda að þessu leyti vegna þarfar Vegagerðarinnar. Engin aðilaskipti urðu á hinum arðgæfu námuréttindum sjálfum. Bætur sýnast hafa verið ákveðnar með samkomulagi aðila. Þegar þetta er virt, sem hér hefur verið rakið, verður eigi talið, að hér sé um að ræða slíkar bætur, sem um ræðir í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem telja beri söluverð eigna og fram fari uppgjör söluhagnaðar í þeim efnum. Hina umþrættu greiðslu þykir bera að telja kæranda til skattskyldra tekna á grundvelli 1. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eigi er upplýst um kostnað kæranda á móti tekjum þessum. Að því virtu, sem að framan segir og eins og mál þetta liggur fyrir verða kröfur kæranda eigi teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja