Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 444/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl., 30. gr. 1. mgr. A-liður 3. tl.  

Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Sölutap — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat — Frádráttarbærni — Torfærugjald

Málavextir eru þeir, að kærandi fékk greiddan ökutækjastyrk frá vinnuveitanda sínum, R, að fjárhæð kr. 73.148 sem hann færði sér til tekna í skattframtali sínu árið 1983. Sömu fjárhæð færði hann til frádráttar sem kostnað á móti ökutækjastyrk. Skattframtalinu fylgdu skýrslur kæranda um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1982. Kærandi starfaði á hálendinu í þágu fyrrnefndrar stofnunar og til akstursnota hafði hann jeppabifreiðar sínar, aðra, Landrover árgerð 1981, frá ársbyrjun 1982 til miðs októbermánaðar, en hina, MMC Pajero árgerð 1983, frá þeim tíma til ársloka. Akstur Landroverbifreiðarinnar var tilgreindur 26.500 km og þar af akstur í þágu stofnunarinnar 10.960 km. Heildarreksturskostnaður var tilfærður kr. 140.053, þ. á m. var tap vegna sölu bifreiðarinnar kr. 63.000 og viðbótarafskrift vegna torfærugjalds kr. 9.754. Kostnaður pr. ekinn kílómetra nam samkvæmt þessu kr. 5,285 og kostnaður vegna aksturs í þágu vinnuveitanda því kr. 57.929. Akstur Pajerobifreiðarinnar var talinn 5.740 km og þar af akstur í þágu vinnuveitanda 2.435 km. Heildarreksturskostnaður var tilfærður kr. 35.875, þ. á m. viðbótarafskrift vegna torfærugjalds kr. 2.167. Kostnaður pr. ekinn kílómetra nam samkvæmt þessu kr. 6,250 og kostnaður vegna aksturs í þágu vinnuveitanda því kr. 15.219. Kostnaður samtals vegna aksturs í þágu vinnuveitanda nam því samkvæmt þessum skýrslum kæranda kr. 73.148, er færður var til frádráttar á móti ökutækjastyrk, sbr. að framan. í yfirlýsingu R, dags. 10. febrúar 1983, kemur fram, að greiðsla ökutækjastyrks er vegna aksturs kæranda við landmælingastörf og fer greiðsla fram hverju sinni samkvæmt akstursdagbók og er grundvölluð á kílómetragjaldi fjármálaráðuneytisins eins og það er á hverjum tíma.

Skattstjóri taldi kostnað á móti ökutækjastyrk offærðan í skattframtalinu og taldi bera að lækka þennan frádráttarlið í kr. 50.839. Í bréfi, dags. 2. desember 1983, þar sem skattstjóri boðar kæranda breytingu þessa, koma fram forsendur skattstjóra fyrir henni. Þar segir svo:

„Hér með tilkynnist að fyrirhugað er að taka skattframtal yðar 1983 til endurálagningar og lækka frádrátt vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk í kr. 50.839.

Á skýrslur yðar yfir rekstur Landrover er fyrirhugað að fella niður tap vegna sölu bíls kr. 63.000 en það telst ekki til rekstrarkostnaðar ökutækis. Einnig er fyrirhugað að lækka afskrift um kr. 9.754, þar sem aukin afskrift vegna torfærugjalds á einungis að bætast við ekna km. í þágu vinnuveitanda. Kostnaður alls v/Landrovers verður því kr. 67.299 og kostnaður á ekinn km. kr. 2.54 + 0.89 = 3.43. Frádráttur vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk v/Landrover verður þá 10.960 km á kr. 3.43 eða kr. 37.593.

Samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra er hámarksfrádráttur vegna kostnaðar á km. þegar greitt er skv. torfærugjaldi kr. 3.70 + 1.74 eða kr. 5.44. Frádráttur vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk v/MMC Pajero verður þá 2.435 km á kr. 5.44 eða kr. 13.246.“

Veittur var 12 daga frestur til andsvara og athugasemda. Með bréfi, dags. 9. desember 1983, sendi kærandi skattstjóra ljósrit af bréfi frá Heklu h.f., dags. 8. desember 1983, viðvíkjandi tapi á sölu þeirrar Landroverbifreiðar, sem í málinu greinir, þar sem að því er vikið, að sölutap þetta megi rekja til þess, að bifreiðin hafi orðið fyrir óeðlilegu hnjaski og sliti í samanburði við aðrar bifreiðar vegna mikillar notkunar hennar á vegleysum í þágu R. Þá fylgdi bréfinu ljósrit af kæru til ríkisskattanefndar, dags. 9. desember 1983, út af ágreiningsefninu. Sú kæra var tekin til úrlausnar af hálfu ríkisskattanefndar með úrskurði nr. 142, dags. 14. mars 1984, og henni vísað frá ríkisskattanefnd með því að þá hefði eigi fallið úrskurður, sem kæranlegur væri til nefndarinnar.

Skattstjóri taldi svarbréf kæranda ekki gefa tilefni til breytinga á hinni boðuðu endurálagningu og með bréfi, dags. 6. janúar 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda um, að áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1983 hefðu verið endurákvörðuð vegna fyrrnefndrar lækkunar á frádrætti á móti ökutækjastyrk. Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 9. maí 1984, eru áréttuð þau sjónarmið, sem fram koma í bréfi hans, dags. 2. desember 1983, og ákveðið, að álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1983 skuli óbreytt standa.

Þessum úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. maí 1984. Vísar kærandi til þess, sem áður er fram komið í málinu af hans hálfu.

Með bréfi, dags. 25. júní 1984, er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Með því að eigi verður á það fallist, að tilfært sölutap bifreiðar teljist til gjalda á ökutækjaskýrslu og aðrar breytingar skattstjóra eru í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra, sbr. 3. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt og lið 3.1.0. í skattmati ríkisskattstjóra tekjuárið 1982 (framtalsárið 1983), útg. 4. janúar 1983, þykir bera að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja