Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 480/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 78. gr.  

Eignarskattsstofn — Innstæður í erlendum bönkum — Eignarskattsskylda — Eignarskattsundanþága — Innlánsstofnanir

Málavextir eru þeir, að skattstjóri færði kæranda til eignar innistæðu í Privatbanken í Danmörku að fjárhæð kr. 65.490. Ekki féllst skattstjóri á, að sparifé erlendis nyti skattfrelsis samkvæmt 78. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar eð um undanþágu frá skattskyldu væri að ræða, sem skýra bæri þröngt, sbr. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 330 frá 8. mars 1977.

Af hálfu kæranda er ákvörðun skattstjóra mótmælt og krefst kærandi þess, að nefnd innstæða verði felld undan eignarskattsálagningu. Telur kærandi engin efni til þess að skýra 78. gr. laga nr. 75/1981 með þeim hætti, sem skattstjóri geri. Í lögum þessum sé skýrt tekið fram, ef greinarmunur sé gerður á a) innlendum bönkum (1. tl. 1. mgr. 8. gr.) b) innlendum og erlendum aðilum (3. tl. 1. mgr. 8. gr.) c) skuldum í erlendum verðmæli (1. mgr. 76. gr.). Feli þetta í sér, að tekið sé fram, ef um takmörkun er að ræða og þar sem orka kunni tvímælis. Annars staðar beri að fara eftir orðanna hljóðan. Túlkun skattstjóra eigi því ekki við rök að styðjast. Þá sé ekki um það deilt, að vaxtatekjur og gengishagnaður sé frádráttarbær samkvæmt 1. tl. B-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki verði vitnað til úrskurða, sem byggist á eldri lögum á annan hátt en þann, að skattskyldan til eignarskatts og tekjuskatts fylgdist að. Það hafi hún gert samkvæmt eldri lögum og skuli gera það eftir þeim nýju nema annað komi ótvírætt fram. Slíkt komi ekki fram. Þá sé ekki um undanþágu að ræða heldur frádráttarheimild.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 9. júlí 1984, gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Hvergi í skattalögum er mælt fyrir um að innstæður í erlendum bönkum séu undanþegnar eignarskattskyldu. Ber því að hafna kröfu kæranda.“

Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja