Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 540/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tl., 60. gr. 2. mgr.  

Rekstrarkostnaður — Slysabætur — Skaðabætur — Dómur í skaðabótamáli — Skaðabóta-mál — Tímaviðmiðun rekstrarútgjalda — Óviss rekstrarkostnaður — Bótakröfur — Frádráttarbærni

I

Í kærubréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar dags. 12. mars 1984, er gerð svofelld grein fyrir málavöxtum og kröfum:

„Með bréfi 25. ágúst 1983 sendum við inn framtal ofanritaðs firma 1983. Um miðjan október 1983 kom í ljós að láðst hafði við reikningsskil að gjaldfæra dóm er gekk á félagið þann 2. marz 1982 í Bæjarþingi Reykjavíkur, en þar er félaginu gert að greiða fyrrverandi starfsmanni sínum kr. 461.500 í slysabætur vegna alvarlegs slyss er hann varð fyrir á árinu 1979. Með bréfi 25. október sendum við nýtt uppgjör og skattframtal með þeim breytingum sem þessi dómur hafði í för með sér, þ.e. gjaldfærðar voru kr. 361.500 auk áfallinna vaxta frá 20/11 1979 — 31/12 1982 kr. 413.938. Tryggingafélag S. sf. greiddi strax 29. apríl 1982 kr. 100.000 af þessum dómi Bæjarþings. Með úrskurði sínum 13. febrúar s.l. hafnar Skattstofa Reykjavíkur þessum leiðréttu reikningsskilum og framtali en leggur til grundvallar álagningu áður innsent framtal frá 25. ágúst 1983.

Mál þetta snýst um það, hvort þessar slysabætur séu frádráttarbærar á árinu 1982 þ.e. með dómi Bæjarþings eða, eins og skattstofa heldur fram 1983 þ.e. með dómi Hæstaréttar 13.10.1983, en þá staðfestir Hæstiréttur dóm Bæjarþings Reykjavíkur. Það er skoðun okkar að krafa þessi verði til með dómi Bæjarþings Reykjavíkur 2. marz 1982. S. sf. hafa þá um tvo kosti að velja þ.e. að greiða dóminn (innan 15 daga eins og fram kemur í dómsorðum) eða að áfrýja dómnum til Hæstaréttar sem þeir og gera og leita þar staðfestingar eða synjunar á undirdómi.

Í úrskurði skattstofu er vísað til 2.mgr. 60. gr. laga um tekju- og eignarskatt að tekjur skuli jafnan telja til tekna á því ári er þær verða til, nema um óvissar tekjur sé að ræða. Telja þeir sömu reglu eiga við sbr. 31. gr. sömu laga. Einnig telur skattstofan að S. sf. hafi fallist á þessa reglu með því að áætla ekki bótakröfur á árunum 1979—1982.

Við teljum alveg ljóst að ekki var neinn grundvöllur fyrir því að áætla þessar bætur á fyrri árum. Krafa þessi verður ekki til fyrr en með dómi í marz 1982. Teljum við einnig, að hér sé ekki um óviss útgjöld á árinu 1982, þar sem fyrir liggur dómur á félagið.

Í úrskurði skattstjóra segir m.a. „Að mati skattstjóra verður óviss kostnaður ekki frádráttarbær frá tekjum fyrr en hann er sannaður svo sem með dómi eða greiðslu.“

Ef hér væri um óviss útgjöld að ræða 1982 þá eru þau sönnuð með dómi í marz 1982.

Réttarfarslega teljum við þessa áfrýjun S. sf. til Hæstaréttar ekki breyta því að krafan er til orðin, heldur því að fullnusta dóms í Bæjarþingi getur ekki farið fram fyrr en úrskurður Hæstaréttar liggur fyrir. Að þessu sögðu förum við þess á leit, að úrskurður skattstofu verði ógiltur og lagt verði til grundvallar álagningu 1983 innsent framtal dags. 26. október 1983, sbr. bréf til skattstofu dags. 25. október 1983.“

II

Eins og fram er komið í málinu hafnaði skattstjóri með úrskurði, dags. 13. febrúar 1984, þeim kröfum kæranda að leggja hin breyttu reikningsskil til grundvallar álagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1983. Í úrskurðinum segir m.a.:

„Ein af meginreglum skattalaga er sbr. 2. mgr. 60. gr. 1. nr. 75/1981, að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, nema um óvissar tekjur sé að ræða. Sama regla gildir um frádráttarbæran reksturskostnað, sbr. 31. gr. téðra laga, hann skal dragast frá tekjum á því skattári sem hann verður talinn verða til á. En óviss kostnaður heimilast ekki til frádráttar tekjum.

Ekki verður annað séð en að félagið hafi viðurkennt þessa reglu í framkvæmd, þar sem í framtölum þess 1980—1983 er ekki færður til frádráttar tekjum áætlaður kostnaður vegna bótakröfu.

Í 31. gr. laga nr. 75/1981 kemur fram að samband skal vera á milli frádráttarbærra gjalda og tekna. Hins vegar er það ekki skilyrði að gjöld og tekjur þær, sem gjöldin fara til að afla, verði til á sama rekstrarárinu. Þó svo þær tekjur sem umræddur starfsmaður aflaði félaginu hafi orðið til á árinu 1979 þá færist kostnaður vegna þessarar tekjuöflunar ekki til frádráttar tekjum fyrr en hann er sannaður. Þá hefur félagið þegar fært til frádráttar greidd laun starfsmannsins frá 3.9. til 20.11.1979 og frá 21.11. til 2.3.1980.

Með hliðsjón af kröfu félagsins fyrir Hæstarétti um sýknu eða verulega lækkun á tildæmdri fjárhæð er ljóst að í árslok 1982 er enn óvisst hvort félagið beri að greiða bætur og ef, þá hve miklar. Bótaskylda og upphæð bóta verður ekki endanleg fyrr en við dóm Hæstaréttar 13.10.1983.

Ekki verður séð með hvaða rökum félagið telur fébætur skv. dómi Hæstaréttar vera óaðskiljanlegan hluta rekstursársins 1982. Á árunum 1979 - 1982 er umræddur kostnaður óviss. Það að kæra félagsins vegna reksturs 1982 var óafgreidd af skattstjóra, þegar dómur Hæstaréttar féll skiptir ekki máli við ákvörðun á því hvaða ári dæmdar fébætur komi til frádráttar.

Að mati skattstóra verður óviss kostnaður ekki frádráttarbær frá tekjum fyrr en hann er sannaður svo sem með dómi eða við greiðslu. Þær fébætur sem Hæstiréttur dæmdi að félaginu bæri að greiða starfsmanni sínum tilheyra því rekstrarárinu 1983, þ.e. því ári þegar endanlegur dómur féll, og verður frádráttarbær á skattframtali 1984.

Leiðréttum reikningsskilum er því hafnað.“

III

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 25. júlí 1984, gert svofellda kröfu í málinu fyrir gjaldkrefjenda hönd:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

IV

Fallist er á kröfur kæranda í máli þessu. Rétt þykir að leiðrétta eignarskattsstofn kæranda þar eð honum hefur láðst að taka tillit til gjaldfærðs og skuldfærðs reiknaðs kirkjugarðsgjalds ársins.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja