Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 704/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 96. gr. 2. mgr., 106. gr.  

Skattframtal, ófullnægjandi — Bókhaldsóreiða — Áætlun skattstofna — Vanreifun — Frávísun

Málavextir eru þeir, að kærendur skiluðu staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1983, sem lagt var til grundvallar álagningu opinberra gjalda þeirra við frumálagningu það ár. Með bréfi, dags. 20. desember 1983, krafði skattstjóri kærendur um „öll gögn er tilgreind sala í rekstursreikningi er byggð á þ.m.t. sjóðbók.“ Þá var í bréfinu einnig óskað eftir því, að fram yrðu lagðir reikningar fyrir gjaldfærðum veitingum. Kærendur ráku nudd- og gufubaðstofu og hafði ársreikningur vegna þess rekstrar fylgt skattframtali þeirra árið 1983. Með bréfi, dags. 10. janúar 1984, sendi umboðsmaður kærenda umbeðin gögn. Í svarbréfinu sagði svo um færslu sjóðbókar: „Varðandi sjóðbók þá verður að taka fram að sú var á svo vanþróuðu stigi að hún verður ekki fram lögð. Skráningin á sölunni er á líkan máta og meðfylgjandi bækur sýna allt til í marz 1983 en þá tók Nuddstofan í notkun tölvubúðarkassa, þannig að frá í apríl er salan skráð jafnóðum á kassastrimil og önnur pappírsumgengni bætt.“ Með bréfi, dags. 17. janúar 1984, lagði skattstjóri fyrir kærendur að leggja fram allt bókhald ásamt fylgiskjölum og öllum gögnum varðandi rekstur árið 1982 vegna söluskattsendurskoðunar. Var það sent með bréfi, dags. 24. janúar 1984, og jafnframt af hálfu umboðsmanns kærenda gerð grein fyrir uppgjörstilhögun. Með bréfum, dags. 5. mars 1984, tilkynnti skattstjóri kærendum, að fyrirhugað væri að áætla tekjuviðbót, þar sem við endurskoðun á bókhaldi virtist það vera mjög ófullnægjandi af þeim sökum, að engin sjóðbók væri færð, viðskiptamannabók og dagbók vantaði, upplýsingar um úttekt eigenda vantaði og skráning sölu væri ófullnægjandi. Veittur var 7 daga frestur til þess að gera athugasemdir. Ekki barst svar innan frestsins og með bréfum, dags. 14. mars 1984, tilkynnti skattstjóri kærendum, að þeim hefði verið áætluð tekjuviðbót að fjárhæð kr. 60.000, hvoru um sig að viðbættu 25% álagi samkvæmt 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með bréfum, dags. 26. apríl 1984, var kærendum tilkynnt um þær breytingar á áður álögðum opinberum gjöldum gjaldárið 1983, sem af nefndum tekjuviðbótum leiddu.

Með bréfum, dags. 15. mars og 22. maí 1984, mótmælti umboðsmaður kærenda tekjuviðbótum skattstjóra. Viðurkennt var, að ekki hefði verið fylgt bókhaldslögum í hvívetna. Hins vegar var viðbótarfjárhæðum mótmælt sem of háum enda væri til þess að líta, að aðfinnslur beindust að forminu og meðferð og frágangi á fylgiskjölum, en því ekki haldið fram, að ranglega væri fram talið. Kærendur hefðu lagt fram gögn og skýringar, sem ekki hefðu verið vefengdar. Með úrskurðum, dags. 13. júlí 1984, ákvað skattstjóri, að álögð opinber gjöld gjaldárið 1983 skyldu óbreytt standa með skírskotun til þess, sem áður hefði komið fram um annmarka bókhalds, og engin töluleg rök eða gögn hefðu verið lögð fram til stuðnings hækkunarkröfu tekjuviðbótar.

Úrskurðum skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. júlí 1984, og er þess krafist sem áður, að hin áætlaða tekjuviðbót verði lækkuð verulega með þeim rökum, sem fyrr eru nefnd og fram koma í bréfum til skattstjóra. Í kærunni segir m.a. svo: „Við könnun er skattstjóri gerði á bókhaldi 1982 vegna þessa, kom í ljós að bókhaldið var ófullkomið og gerði þá þar við athugasemdir, óskaði eftir frekari gögnum o.fl. Á fylgiskjölum stóð ekki né heldur sölubók, ófullkomin að vísu en sýndi daglega skráningu tekna. Ekki gerði skattstjóri athugsemd við einstök fylgiskjöl né heldur að sig skorti upplýsingar um eitt eða annað.“

Með bréfi, dags. 6. desember 1984, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að undangenginni athugun á bókhaldi þess rekstrar, sem í málinu greinir, taldi skattstjóri það eigi nægilega örugga heimild um reksturinn sökum annmarka þeirra, sem lýst er í málinu, og áætlaði því tekjur af rekstrinum að teknu tilliti til álags, sbr. 1. ml. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu kærenda er viðurkennt, að bókhaldi hafi verið áfátt, en krafist lækkunar á áætlun skattstjóra. Eins og málið er vaxið þykja kærendur verða að færa fram rökstudda kröfu um lækkun þessa, enda verður eigi séð af gögnum málsins, að áætlun skattstjóra sé úr hófi fram. Að svo vöxnu þykir því verða að vísa kærunni frá sökum vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja