Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 40/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 73/1980, 23. gr., 27. gr.   Lög nr. 75/1981, 16. gr.2. mgr., 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 66. gr.  

Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Íbúðarhúsnæði — Vaxtagjöld — íbúðarlán — Hámarksfjárhæð vaxtafrádráttar — Frádráttarbærni vaxtagjalda frá söluhagnaði — Tekjufærsla söluhagnaðar — ívilnun — Valdsvið ríkisskattanefndar

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1982. Skattstjóri áætlaði þeim því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Með bréfi, dags. 28. júní 1982, sendi umboðsmaður kærenda skattstjóra skattframtal kærenda árið 1982 og gerði þar grein fyrir örðugum fjárhagsástæðum svo og því, að framtalsskil drógust. Í skattframtali kærenda var þess óskað, að hluti vaxtagjalda vegna kaupa á íbúðarhúsnæði að B-götu í Hafnarfirði, yrði leyfður til frádráttar reiknuðum söluhagnaði vegna sölu íbúðar þessarar. Samkvæmt framtalsgögnum keypti eiginkona íbúð þessa með kaupsamningi, dags. 30. apríl 1980. Íbúðin var seld þann 26. október 1981 samkvæmt upplýsingum í yfirliti um kaup og sölu eigna, sem fylgdi skattframtali árið 1982. Reiknaðist hagnaður af sölunni samkvæmt uppgjöri kærenda að fjárhæð 148.785 kr. Varðandi skattalega meðferð söluhagnaðarins var óskað eftir ofangreindum frádrætti hluta vaxtagjalda. Vaxtagjöld höfðu af hálfu kærenda verið færð til frádráttar í skattframtali að því hámarki, sem leyft er í 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eða 108.750 kr., sem gilti sem hámark fyrir vaxtafrádrátt hjóna gjaldárið 1982. Laut ósk kærenda því að því, að vaxtagjöld sem næmu fjárhæð nefnds söluhagnaðar yrðu veitt til frádráttar til viðbótar.

Með úrskurði, dags. 14. október 1982, hafnaði skattstjóri kröfu kærenda um uppgjör vaxtagjalda og söluhagnaðar. Tók skattstjóri fram, að óheimilt væri að færa til frádráttar vaxtagjöld umfram hámark það, sem að ofan greinir. Yrði söluhagnaður því færður til tekna, enda lægi ekki fyrir krafa um aðra meðferð hans. Að öðru leyti var skattframtal kærenda lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 í stað áætlunar án álags.

Af hálfu kærenda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. nóvember 1982. Er þess krafist, að úrskurður skattstjóra verði úr gildi felldur og þess krafist aðallega, að innsent skattframtal verði óbreytt lagt til grundvallar álagningu. Til vara er þess krafist, að veitt verði ívilnun með tilliti til fjárhagsástæðna og vaxtabyrðar, sem nemur meintum söluhagnaði fasteignar. Til þrautavara er þess krafist, að skattlagningu meints söluhagnaðar verði frestað um þann árafjölda sem skattalög heimila.

Með bréfi, dags. 14. desember 1982, er af hálfu ríkisskattstjóra eigi fallist á kröfu kærenda um meðferð vaxtagjalda og söluhagnaðar. Vísar ríkisskattstjóri til 1. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um skattskyldu söluhagnaðar þess, sem í málinu greinir. Hins vegar fellst ríkisskattstjóri á þrautavarakröfu kærenda með vísan til 2. mgr. 16. gr. nefndra laga, þ.e.a.s. frestun söluhagnaðar um tvenn áramót frá söludegi. Ríkisskattstjóri krefst frávísunar á varakröfu kærenda. Krafan eigi ekki lagastoð og ekki sé það á valdsviði ríkisskattanefndar að ákvarða um ívilnanir.

Lagaheimild skortir til þess að veita frekari frádrátt vegna vaxtagjalda en skattstjóri hefur þegar ákvarðað. Verður því að hafna aðalkröfu kærenda. Fallist er á þrautavarakröfu kærenda með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ákvarðanir um ívilnanir, sem um er fjallað í 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 23. og 27. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, eru á verksviði skattstjóra og ríkisskattstjóra og eftir atvikum hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Á ríkisskattanefnd eigi úrlausn um þau efni. Með tilvísan til þessa þykir bera að vísa varakröfu kærenda frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja