Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 42/1983

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 1. gr., 70. gr., 96. gr.  

Skattframtal, tortryggilegt — Vefenging skattframtals — Framfærslueyrir — Brottför — Brottflutningur — Dvalartími — Gengi — Meðalgengi — Útreikningsaðferð tekjuskatts

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts árið 1981. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Kæru, dags. 12. ágúst 1981, fylgdi skattframtal kæranda, dags. 31. júlí s.á. í kæru var tekið fram, að kærandi hefði engar tekjur haft hér á landi frá því í ársbyrjun 1980 fram til þess tíma, er hann hefði flust til Noregs í marsmánuði 1980. Kærandi hefði selt íbúð sína, keypt og selt bifreiðir, en lítið hagnast. Vinna hafi ekki verið stunduð frá áramótum til brottfarar. Þess var óskað, að skattálagningu yrði hagað í samræmi við innsent skattframtal. Með úrskurði, dags. 15. desember 1981, hafnaði skattstjóri skattframtalinu á þeim forsendum, að fram kæmi, þegar tekið hefði verið tillit til gjalda og eignabreytinga, að lífeyrir væri neikvæður um a.m.k. 1.150.000 kr. Væri þá að fullu reiknað með tekjum í Noregi án tillits til opinberra gjalda þar.

Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 29. desember 1981. Í bréfi, dags. 22. mars 1982, barst rökstuðningur umboðsmanns kæranda í málinu. Þess er krafist, að álögð opinber gjöld gjaldárið 1981 verði niður felld, þar sem kærandi hafi flust af landi brott í mars 1980 og engar tekjur haft hér á landi á því ári. Lífeyrisútreikningi skattstjóra er mótmælt. Samkvæmt innsendu skattframtali sé lífeyrir neikvæður um 252.858 kr., en hins vegar séu skuldir á skattframtali 1980 oftaldar um 2.000.000 kr. þ.e. um skuld við J. Skuld þessi hafi verið tilkomin vegna bifreiðakaupa á árinu 1979. Bifreiðin hafi verið seld aftur sama ár og kaupandi þá yfirtekið áhvílandi skuldir á bifreiðinni, þ.á m. nefnda skuld. Gögn fylgdu um viðskipti þessi.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur og athugasemdir með bréfi, dags. 11. ágúst 1982:

„Þrátt fyrir framkomnar skýringar verður að telja framtal kæranda ótækan álagningargrundvöll. Hins vegar þykir með hliðsjón af atvikum mega fallast á nokkra lækkun á áætlun skattstjóra.“

Í kæru er því haldið fram af hálfu umboðsmanns kæranda, að sú skekkja hafi verið í skattframtali árið 1980, að oftalin hafi verið fyrrnefnd skuld vegna bifreiðakaupa. Skuld þessi hafi verið yfirtekin af kaupanda bifreiðarinnar við sölu kæranda á bifreiðinni á sama ári. Leggur umboðsmaðurinn fram afsöl þessari fullyrðingu til stuðnings. Að virtum nú framkomnum gögnum og skýringum umboðsmannsins er á það fallist, að leiðrétta beri útreikning framfærslueyris jákvætt um nefnda skekkju í skuldastöðu pr. 1/1 1980. Að öðru leyti ber umboðsmanni kæranda og skattstjóra eigi saman um fjárhæð framfærslueyris samkvæmt innsendu skattframtali. Af málsgögnum er ljóst, að skattstjóri hefur reiknað laun kæranda í Noregi til íslenskra króna miðað við meðalgengi allt árið 1980. Þessi útreikningsaðferð fær eigi staðist, þar sem kærandi flyst eigi búferlum, fyrr en í marsmánuði 1980 og launatekjur því eigi fallið til þar í landi fyrstu mánuði ársins. Þrátt fyrir ofangreind atriði má á það fallast, að framfærslueyrir kæranda árið 1980 sé afbrigðilega lágur. Með tilliti til þess, að dvalartíma kæranda hér á landi á árinu 1980 lýkur í marsmánuði og eigi þykja efni til þess að vefengja, að gerð hafi verið full grein fyrir tekjum hans hér á landi á þeim tíma, en samkvæmt framtalsgögnum er eigi um skattskyldar tekjur að ræða, þá þykir mega fallast á kröfu kæranda. Eru álögð opinber gjöld gjaldári 1981 því niður felld.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja