Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 167/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. og B-liður — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 31. gr. 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 116. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.  

Skattskyldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Ökutækjaskýrsla — Rekstraryfirlit fólksbifreiðar — Rekstrarkostnaður — Bifreiðakostnaður — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Atvinnurekstrartekjur — Akstursdagbók — Ökutækjastyrkur, uppgjörsaðferðir til skatts — Ökutækjakostnaður, raunverulegur kostnaður — Fylgigögn skattframtals — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Framtalsháttur — Skattframtal, vefenging — Jafnræðisreglur — Sjónarmið, sem stjórnvaldsákvörðun er byggð á — Ólögmæt sjónarmið

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi færði sér til tekna 114.491 kr. sem ökutækjastyrk frá vinnuveitanda sínum, A. Sömu fjárhæð færði kærandi í reit 32 í skattframtali sínu árið 1989 sem kostnað á móti ökutækjastyrknum. Skattframtali kæranda árið 1989 fylgdi greinargerð um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1988 (RSK 3.04). Samkvæmt skýrslunni nam heildarakstur kæranda 19.400 km. Þar af taldi hann akstur í þágu vinnuveitanda 9.400 km. Kostnaður pr. ekinn kílómetra nam 10,07 kr. samkvæmt skýrslunni. Kærandi greindi akstur í þágu vinnuveitanda svo sundur í skýrslu þessari, að hann taldi 6.982 km vera akstur í þágu launagreiðanda vegna ökutækjastyrks 114.491 kr. samkvæmt akstursdagbók eða akstursskýrslu, sbr. yfirlýsingu þar um á eyðublaðinu. Kærandi taldi í greinargerð sinni 2.418 km vera vegna aksturs í sjálfstæðri starfsemi og reiknað aksturskostnað af þeim þætti 10,07 kr. pr. km eða alls 24.349 kr. Gjaldfærði kærandi kostnað þennan á rekstraryfirliti v/sölu, en tekjur skv. rekstraryfirliti þessu voru greiðslur frá A og B.

Með bréfi, dags. 15. mars 1990, boðaði skattstjóri kæranda lækkun frádráttar í reit 32 úr 114.491 kr. í 70.309 kr. á þeim forsendum, að skv. rekstraryfirliti fólksbifreiðar væri kostnaður á km 10,07 kr. og kílómetrafjöldi 6.982. Með bréfi, dags. 4. maí 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda um lækkun frádráttar í reit 32 í 70.309 kr. og endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1989 af þeim sökum. Í bréfi, dags. 1. júní 1990, vísaði umboðsmaður kæranda til yfirlýsingar kæranda á RSK 3.04, þar sem hann lýsti sig reiðubúinn að leggja fram akstursbækur varðandi ökutækjastyrkinn, er væri vegna utanbæjaraksturs. Kæmi fram á eyðublaðinu, að slíkur ökutækjastyrkur og um ræddi væri óháður rekstrarkostnaði. Skattstjóri tók bréf þetta sem kæru og kvað upp kæruúrskurð hinn 30. ágúst 1990, þar sem hann synjaði kröfu kæranda á svofelldum forsendum:

„Þér gjaldfærið bifreiðakostnað að hluta á framtali sem móttekna endurgreiðslu án tillits til raunverulegs kostnaðar en að hluta á rekstrarreikning samkvæmt raunverulegum kostnaði. Telja verður að heimild til að færa sömu fjárhæð til gjalda og nemur mótteknum greiðslum takmarkist við þá sem ekki gjaldfæra bifreiðakostnað að öðru leyti. Því verður að ætlast til að þér gerið annað tveggja, þ.e. að færa kr. 114.491 til tekna og gjalda í framtali án þess að hirða um annan aksturskostnað ellegar að nota útreiknaðan kostnað kr. 10.07 pr. km við alla gjaldfærslu bifreiðakostnaðar.

Samkvæmt þessu er kröfum yðar hafnað.“

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. september 1990. Segir svo í kærunni:

„Áréttað er að X fékk greiðslur fyrir akstur utanbæjar frá A samkvæmt akstursbókum og ennfremur að slíkar greiðslur má færa til frádráttar án tillits til rekstrarkostnaðar.

Auk þess notaði X bifreiðina sem sölumaður innanbæjar en fékk engar greiðslur frá félaginu fyrir þann hluta starfsemi sinnar. Mótmælt er þeim rökum skattstjóra að X sé óheimilt að gjaldfæra hluta af rekstrarkostnaði bifreiðar sinnar vegna þessarar starfsemi, sem er óháð utanbæjarferðum hans. – Í þessu sambandi hlýtur að gilda hið almenna ákvæði 1. tl. 31. gr. skattalaga.

Til vara verður að benda á misræmi í úrskurði skattstjóra annars vegar og hins hagstæðari valkosts, sem hann bendir á í lokaúrskurði dags. 30.08.90 sem er X talsvert hagstæðari.“

III.

Með bréfi, dags. 28. janúar 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Óvefengt er, að kærandi hafi fengið umræddan bifreiðastyrk 114.491 kr. frá vinnuveitanda sínum, A. Þá hefur skattstjóri út af fyrir sig á engan hátt vefengt, að kæranda hafi verið heimill sá háttur, sem hann viðhafði í skattskilum sínum varðandi ökutækjastyrk þennan og frádrátt á móti honum, sbr. yfirlýsingu kæranda í greinargerð sinni (RSK 3.04) og reglur þar að lútandi. Verður ekki séð, að færsla bifreiðakostnaðar á rekstraryfirlit vegna sjálfstæðrar starfsemi fái breytt neinu um fyrrgreindan framtalshátt kæranda og þykir skattstjóri ekki hafa sýnt fram á það. Að svo vöxnu er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja