Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 96/1983

Reglugerð nr. 169/1970, 34. gr. 2. mgr.   Lög nr. 75/1981, 100. gr.   Lög nr. 10/1960, 13. gr. 1. mgr., 14. gr  

Kæra — Kæruréttur — Kærufrestur — Kæruleið — Söluskattur — Kæranleiki ákvörðunar skattstjóra — Síðbúin kæra — Lögtaksúrskurður — Kærumeðferð

Með bréfi, dags. 30. júlí 1981, barst ríkisskattanefnd svohljóðandi kæra frá umboðsmanni kæranda:

„Með úrskurði bæjarfógetans í Garðakaupstað 17. júlí s.l. var heimilað að lögtak færi fram hjá X. Í Garðakaupstað til tryggingar söluskattsskuld að fjárhæð 1.042.038 gkr. ásamt viðurlögum og dráttarvöxtum.

Söluskattsskuld þessi er tilkomin vegna áætlunar skattstjóra er byggð var á rannsókn hans á bókhaldi kæranda. Niðurstöðu rannsóknarinnar var strax mótmælt og úrskurður skattstjóra kærður með bréfi 30. október 1980, en sú kæra hefur aldrei verið úrskurðuð af skattstjóra, en fulltrúi skattstjóra hefur staðfest fyrir dómi að bréf dags. 12. nóvember 1980 sé ekki úrskurður.

Þess er því krafist að ríkisskattanefnd taki álagninguna til efnislegrar meðferðar eða geri skattstjóra að úrskurða kæruna svo að unnt sé að skjóta málinu til ríkisskattanefndar, en eins og sjá má af úrskurði fógeta er það forsenda fyrir efnisúrskurði að málið hafi hlotið umfjöllun ríkisskattanefndar.

Tekur fógeti fram að þessi frávísunarástæða leiði til þess að ekki sé unnt að svo stöddu að synja um framgang hins umbeðna lögtaks.“

Afrit af kæru þessari sendi ríkisskattanefnd ríkisskattstjóra, sem með bréfi, dags. 17. mars 1982, gerir svofelldar athugasemdir:

„Ríkisskattanefnd virðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að hér sé um að ræða söluskattskæru, sbr. 2. mgr. 13. gr. söluskattslaga nr. 10/1960 og 2. mgr. 34. gr. reglugerðar um söluskatt nr. 169/1970.

Ríkisskattstjóri getur ekki séð að efni séu fyrir hendi að mál þetta fari eftir kæruleiðum söluskattslaga skv. ofangreindum ákvæðum, sbr. og 100. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.

Með úrskurði, dags. 3. október 1980, ákvarðaði skattstjórinn í Reykjanesumdæmi framangreindu félagi viðbótarsölugjald fyrir árið 1978. Skv. 1. mgr. 13. gr. laga um söluskatt geta þeir er ekki sætta sig við ákvörðun skattstjóra kært þá ákvörðun til skattstjóra innan 10 daga. Félagið notfærði sér eigi hinn lögbundna kærurétt og verður því að telja skv. áðurnefndu lagaákvæði að ákvörðun skattstjóra, dags. 3. október 1980, sé endanleg varðandi söluskattsmál félagsins árið 1978.

Með bréfi, dags. 30. október 1980, að liðnum hinum lögboðna kærufresti kærði félagið ákvörðun skattstjóra. Skattstjóri tilkynnti félaginu með bréfi, dags. 12. nóvember 1980, að þar sem félagið hafi látið hjá líða að notfæra sér kærurétt sinn skv. 1. mgr. 13. gr. söluskattslaga yrði að líta svo á að ákvörðun skattstjóra, dags. 3. október væri endanleg.

Að virtu framangreindu verður eigi séð að ofangreind beiðni umboðsmanns téðs félags sé kæra er heyri undir úrskurðarvald ríkisskattanefndar og er því gerð sú krafa að ofangreind beiðni verði lögð upp í bókum ríkisskattanefndar.

Telji ríkisskattanefnd að taka eigi ofangreinda beiðni til úrskurðar þrátt fyrir áður nefndan meintan annmarka er gerð krafa um frávísun kærunnar frá ríkisskattanefnd þar eð félagið lét hjá líða að kæra til skattstjóra innan lögbundins kærufrests skv. 1. mgr. 13. gr. söluskattslaga og því hefur eigi fallið kæranlegur úrskurður.“

Með bréfi ríkisskattanefndar, dags. 23. mars 1982, var kæranda veitt tækifæri til að gera athugasemdir við kröfugerð ríkisskattstjóra teldi hann ástæðu til. Gerði umboðsmaður hans það með bréfi, dags. 30. júní 1982, og tekur hann þar m.a. eftirfarandi fram:

„Í máli þessu liggur fyrir úrskurður fógetaréttar þar sem fram kemur að ekki sé unnt að bera mál sem þessi undir dómstóla fyrr en ríkisskattanefnd hefur úrskurðað í málinu. Eins og fram kemur í gögnum málsins var hin úrskurðaða sölugjaldshækkun skattstjóra skv. bréfi dags. 3. október 1980 kærð til skattstjóra með bréfi dags. 30. október 1980. Bréfi þessu svaraði skattstjóri með bréfi dags. 12. nóvember 1980 (fskj. nr. 10), en eins og fram kemur í vitnisburði skrifstofustjóra skattstjóra fyrir dómi sbr. endurrit dags. 26. júní 1981 bls. 3, bar ekki að líta á bréf þetta sem úrskurð á kæru kæranda. Var því ekki unnt á þessum tíma að skjóta máli þessu til ríkisskattanefndar til úrskurðar. Skattyfirvöld hafa því sjálf komið í veg fyrir að farið sé eftir kæruleiðum söluskattslaga og hlýtur því að þurfa að ómerkja alla meðferð skattstjóra á málinu þegar af þeirri ástæðu eða vísa því til löglegrar meðferðar og úrskurðar skattstjóra að nýju.

Eins og mál þetta liggur fyrir teljum við eðlilegast að ríkisskattanefnd taki mál þetta til efnislegrar meðferðar. Verði hins vegar krafa ríkisskattstjóra um að málið verði lagt upp í bækur ríkisskattanefndar tekin til greina er ljóst að kæranda, sem enga sök ber á hvernig máli þessu er komið, er ekki unnt að taka til varnar um mál sín og væri slíkt brot gegn grundvallarreglum réttarfars í landinu.

Krafa skv. hinum umdeilda úrskurði er enn til innheimtu og hefur lögtak verið gert í eignum kæranda og er uppboð á eignum kæranda fyrirhugað, en því hefur verið frestað nokkrum sinnum. Er því von okkar að máli þessu verði hraðað eins og kostur er.“

Þann 3. október 1980 endurúrskurðaði skattstjóri söluskatt kæranda fyrir öll söluskattstímabil ársins 1978. Þessari ákvörðun skaut umboðsmaður kæranda til skattstjóra með bréfi, dags. 30. október 1980, og eru engin efni til annars en líta á bréf þetta sem kæru í skilningi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt.

Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins hefur skattstjóri enn eigi kveðið upp kæruúrskurð í tilefni af kæru þessari. Hefur því engin sú ákvörðun verið tekin í málinu, sem kæranleg sé til ríkisskattanefndar og er því kærunni til hennar vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja