Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 123/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.  

Vaxtagjöld — Frádráttarbær vaxtagjöld — Sönnun — íbúðarlán — Vanreifun — Frávísun

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1982. Í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfum:

„Krafa umbjóðanda míns er að vextir að upphæð 35.313 kr. komi til frádráttar tekjum hans í stað 10% frádráttar.

Skattstjóri synjar kröfum umbjóðanda míns á þeirri forsendu að skv. skattframtali 1979 tilheyri skuldir við Stofnlánadeild landbúnaðarins og Búnaðarbanka Íslands (vaxtaaukalán) atvinnurekstri.

Lán frá Stofnlánasjóði íbúðarhúsnæðis (sic), og vaxtaaukalán frá Búnaðarbanka Íslands er tekið vegna byggingar sama íbúðarhúsnæðis.

Á skattframtali 1981 eru vextir vegna þessara lána dregnir frá tekjum umbjóðanda míns án athugasemda skattstjóra. Það er krafa umbjóðanda míns að vextir af þessum lánum, sem eru vegna byggingar íbúðarhúsnæðis, verði heimilaðir til frádráttar tekjum umbjóðanda míns á skattframtali 1982. Það skiptir ekki máli þó þessi lán hafi verið færð (ranglega) með skuldum rekstrar á skattframtali 1982.“

Með bréfi, dags. 3. janúar 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn er sanna að téðar skuldir tengist ekki atvinnurekstri hans eins og framtalsgögn kæranda þykja bera með sér.“

Eigi verður annað af gögnum málsins séð en að kærandi hafi staðið í byggingu hænsnahúss á árinu 1978-1981. Með hliðsjón af því þykir hann eigi hafa gert þá grein fyrir kröfum sínum að unnt sé að verða við þeim. Er kærunni því vísað frá sökum vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja