Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 156/1983

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 2. gr. 1. mgr. 3. tl. og 2. mgr.   Lög nr. 73/1980, 36. gr.  

Sameignarfélag — Lögaðili — Sjálfstæður skattaðili — Sjálfstæð skattskylda sameignarfélags — Félagssamningur — Firmaskráning — Skattframtal, ófullnægjandi — Skattaleg meðferð tekna og eigna sameignarfélags, sem ekki er sjálfstæður skattaðili — Aðstöðugjaldsskylda sameignarfélags

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu gjalda 1981. Áætlaði því skattstjóri kæranda gjaldstofna og lagði gjöld á í samræmi við það. Þann 24. september 1981 móttók skattstjóri skattframtal kæranda árið 1981 og tók hann það sem skattkæru. Með kæruúrskurði, dags. 18. desember 1981, hafnaði skattstjóri að leggja framtalið til grundvallar gjaldaákvörðun og áætluð gjöld skyldu óbreytt standa. Byggði skattstjóri þá ákvörðun sína á svofelldum forsendum:

„1. Skv. 3. tl. 2. gr. laga nr. 75/1981 skal sameignarsamningur nýs sameignarfélags fylgja með fyrsta framtali félags eftir stofnun, svo og sbr. vottorð um skráningu félagsins. Engin gögn hafa borist eins og boðið er.

1. Kærandi hefur keypt hús og tæki og færir upp til fyrninga á ákveðnu verði. Engin greinargerð fylgir um kaup eigna, né kaupsamningur er skýrt geti stofnverð eignanna, né af hverjum er keypt.

2. Vinnulaun eru tilgreind í framtali 15.889.525 gkr. en skv. innsendum launamiðum eru þau 7.985.151 gkr. Laun eru ekki gerð upp á fylgiskjali R 5.

3. Engar sundurliðanir eða skýringar fylgja ársreikningi og verður því ekki fengin glögg mynd af stofnun og rekstri fyrirtækisins.“

Með bréfi, dags. 18. október 1982, gerir ríkisskattstjóri þær kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að framtali kæranda verði hafnað sem lögmæltum álagningargrundvelli með vísan til þeirra forsendna sem fram komi í hinum kærða úrskurði.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði fullnægir kærandi ekki skilyrðum ákvæða 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt til þess að teljast sjálfstæður skattaðili samkvæmt þeim lögum, sbr. og 2. mgr. 2. gr. laganna. Er því álagður tekjuskattur og eignarskattur felldur niður. Hins vegar þykir rétt að ákvarða aðstöðugjald með hliðsjón af framlögðum gögnum, sbr. 36. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja