Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 173/1983

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.  

Vaxtagjöld — Frádráttarbær vaxtagjöld — Íbúðarlán — Dráttarvextir — Innistæðulausar ávísanir — Lántaki — Sönnun — Byggingarframkvæmdir — Skuldabreyting — Vaxtaframtal ófullnægjandi

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1981 að lækka vaxtafrádrátt vegna öflunar íbúðarhúsnæðis úr 3.961.084 kr. í 2.213.076 kr. Byggði skattstjóri ákvörðun sína á því að þær kvittanir fyrir vaxtagreiðslum, sem fram voru lagðar að kröfu skattstjóra, væru af ýmsum ástæðum ófullnægjandi, svo sem þeim að kvittanir væru ekki á nafni kæranda og að ógreitt vísitöluálag og dráttarvextir og kostnaður vegna innstæðulausra ávísana teldust ekki til frádráttarbærra vaxta. Kærandi krefst þess að framtaldir vextir verði viðurkenndir til frádráttar tekjum og breytingum skattstjóra hnekkt. Því til stuðnings bendir hann á eftirfarandi í kæru sinni til ríkisskattanefndar:

„Varðandi innheimtutékka, sendi ég hér með ljósrit af einum slíkum, sem var gefinn út til að greiða af kaupsamningi húsbyggingarinnar. Kostnaður af tékkum þeim er á eftir fylgdu er bein afleiðing af útgáfu fyrsta tékkans vegna byggingarinnar.

Varðandi lán ekki á mínu nafni, upplýsist, eins og kemur fram í kaupsamningi, að þrír eigendur byggja þrjú raðhús í félagi og eru lánin á nöfnum einhvers okkar. Ég taldi fram einn þriðja af vöxtum vegna þessara lána.

Einnig er ég með lán í Búnaðarbanka á nafni móður minnar. Mun bankinn senda staðfestingu á þessu til ríkisskattanefndar.“ Yfirlýsing móður kæranda og staðfesting Búnaðarbanka Íslands, um áminnsta lántöku fylgdi í bréfi til ríkisskattanefndar, dags. 6. júlí 1982.

Með bréfi, dags. 3. janúar 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Vextir af innstæðulausum tékka verða ekki taldir falla undir skilgreiningu vaxta skv. 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981.

Ríkisskattstjóri fellst á að skuld við Búnaðarbanka tilheyri kæranda. Hins vegar þykir kærandi ekki hafa gert nægilega grein fyrir færslu vaxtagreiðslu til frádráttar.

Að virtu framangreindu þykir ekki tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Svo sem fram kemur í gögnum málsins keypti kærandi þann 12. júní 1980 raðhúsgrunn ásamt lóðarréttindum. Hluta af kaupverðinu greiddi kærandi með yfirtöku lána sem seljandi hafði tekið vegna byggingarframkvæmdanna. Vaxtauppgjör vegna yfirtöku skulda þessara liggur ekki fyrir en ljóst er af gögnum málsins að kærandi hafi fært meðal vaxtagjalda til frádráttar vexti af skuldum seljanda, sem greiddir voru af seljanda fyrir kaupdag. Er á það fallist með skattstjóra að vaxtatal kæranda sé m.a. að þessu leyti ófullnægjandi. Fallist er á að kæranda beri vaxtafrádráttur vegna skuldar við útibú Búnaðarbanka Íslands og er á nafni móður kæranda. Vextir af innstæðulausum ávísunum teljast hins vegar ekki til frádráttarbærra vaxta í skilningi 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja