Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 175/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. C-liður 4. tl. og 2. mgr., 63. gr. 3. mgr., 64. gr. 1. mgr., 69. gr. 5. mgr.   Lög nr. 73/1980, 26. gr.  

Gifting — Heimilisstofnun, frádráttur — Tímaviðmiðun frádráttar vegna stofnunar heimilis — Hjúskapur — Hjón — Framfærandi — Framfærsluskylda — Barnabætur — Einstætt foreldri — Sköttun hjóna — Fastur frádráttur, lágmarksfjárhæð — Sambýlisfólk — Sköttun sambýlisfólks — Framfærsluskylda, tímaviðmiðun — Sönnun — Barnabætur, skipting — Útsvarslækkun vegna fjölskyldu

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði undirrituðu og staðfestu skattframtali í framtalsfresti árið 1982. Í skattframtalinu gat kærandi þess, að hann hefði gengið í hjúskap þann 18. desember 1981. Kærandi taldi fram sem einstaklingur allt árið 1981. Færður var til frádráttar kostnaður við stofnun heimilis samkvæmt 4. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með bréfi, dags. 2. júní 1982, krafði skattstjóri kæranda um hjúskaparvottorð. Með því að það barst ekki tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 19. júní 1982, að tilfærður kostnaður vegna heimilisstofnunar hefði verið felldur niður.

Ákvörðun skattstjóra var kærð með bréfi, dags. 16. ágúst 1982. Því fylgdi hjúskaparvottorð, dags. 18. desember 1981. Með úrskurði, dags. 3. janúar 1983, féllst skattstjóri á kröfu kæranda. Allt að einu hækkuðu opinber gjöld kæranda samkvæmt skattbreytingaseðli, dags. 3. janúar 1983, þar sem skattstjóri hafði ákvarðað kæranda fastan frádrátt sem einstæðu foreldri við frumálagningu opinberra gjalda samkvæmt 3. ml. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er hann felldi niður og ákvað frádráttinn án tillits til lágmarksfjárhæðar þeirrar, sem gildir varðandi aðra en þá, sem skattlagðir eru sem hjón, þ.e.a.s. einstaklingar eða einstæð foreldri. Þá ákvarðaði skattstjóri kæranda helming barnabóta vegna I.J. f. 17. september 1979, en hafði við frumálagningu ákvarðað kæranda barnabætur vegna barns þessa að fullu og eftir þeim reglum, sem gilda um ákvörðun barnabóta með börnum einstæðra foreldra, sbr. 3. ml. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá var lækkun útsvars vegna barna samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, sem reiknuð hafi verið kæranda til frádráttar að öllu leyti við frumálagningu skert um helming, sbr. 3. mgr. 26. gr. nefndra laga að því er best verður séð.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. janúar 1983. Er farið fram á niðurfellingu á hækkun álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1982 og gerð er grein fyrir aðstæðum kæranda nú.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 10. mars 1983:

„Samkvæmt upplýsingum í gögnum málsins gekk kærandi í hjúskap þann 18. desember 1981. Eftir atvikum þykir mega fallast á að kæranda verði endurákvörðuð gjöld sem einstæðu foreldri.“

Kærandi gekk í hjúskap þann 18. desember 1981. Eigi var valin heimild 4. ml. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til að telja fram til skatts sem hjón allt árið 1981 samkvæmt 63. gr. nefndra laga, en af því sem liggur fyrir af gögnum í málinu sýnist það eigi hafa verið hagstæðara. Eigi ræðst það af uppgjörsaðferðum 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 hversu barnabótum samkvæmt 69. gr. laganna skuli skipt, þegar þær breytingar verða á sifjaréttarlegri stöðu, sem um getur í fyrrnefndu lagagreininni, en samkvæmt henni skal miðað við tímabil framfærsluskyldu. Kærandi var framfærsluskyld til giftingardags þann 18. desember 1981 vegna barns þess, sem í málinu greinir, sem eigi var barn eiginmanns, og verður eigi séð að til framfærsluskyldu eiginmanns hafi komið, fyrr en þá. Eigi verður séð, að þau skilyrði hafi verið uppfyllt, sem greinir í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, þannig að barnabótum verði skipt frá og með fyrra tímamarki en giftingardegi, sbr. 5. mgr. 69. gr. sömu laga. Bera kæranda því barnabætur með téðu barni að öllu leyti til giftingardags. Þá þykir bera að ákvarða kæranda barnabætur fyrir þetta tímabil sem einstæðu foreldri, sbr. 1. mgr. 69. gr. laganna, enda er ekkert fyrirliggjandi um að um aðrar aðstæður hafi verið að ræða fyrir það tímamark. Barnabætur frá giftingardegi og til ársloka 1981 skiptast til helminga milli kæranda og eiginmanns, sbr. 5. mgr. 69. gr. og fjárhæð ákveðst eftir reglum 2. ml. 1. mgr. greinar þessarar. Þá þykir með skírskotun til lokamálsliðs 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 bera að ákvarða kæranda fastan frádrátt sem einstæðu foreldri til giftingardags. Ennfremur ber kæranda frádráttur til útsvarslækkunar vegna barnsins óskertur til giftingar-dags, sbr. 2. og 3. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, en skiptist frá þeim degi til ársloka 1981 til helminga milli hjónanna.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja