Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 258/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 73/1980, 38. gr., 41. gr.  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstig — Landbúnaður — Sveitarstjórn — Aðstöðugjaldstilkynning — Gjaldstig

Í greinargerð um aðstöðugjaldsstofn, dags. þann 23. apríl 1982, sem fylgdi skattframtali kæranda árið 1982, tiltók kærandi aðstöðugjaldsstig 0,7%. Starfsemi kæranda var landbúnaður. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 miðaði skattstjóri álagningu aðstöðugjalds við 1% aðstöðugjaldsstig. Í kæru til skattstjóra, dags. þann 10. ágúst 1982, krafðist umboðsmaður kæranda þess, að aðstöðugjald yrði ákveðið 0,7% af aðstöðugjaldsstofni svo sem bæri að greiða af landbúnaðarstarfsemi. Kærandi ræki alifuglabú, sem teldist til slíkrar starfsemi. Með úrskurði, dags. þann 21. október 1982, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til þess, að aðstöðugjald hefði réttilega verið ákvarðað 1% við álagningu.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. nóvember 1982. Er þess krafist sem áður, að aðstöðugjald verði ákvarðað 0,7% af aðstöðugjaldsstofni, er sé aðstöðugjaldsstig landbúnaðar samkvæmt upplýsingum embættis skattstjórans í Reykjanesumdæmi. Alifuglabú kæranda teljist landbúnaðarstarfsemi.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 2. maí 1983:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Af auglýsingu skattstjórans í Reykjanesumdæmi, dags. 21. apríl 1982, um aðstöðugjöld í umdæminu verður eigi annað séð en að starfsemi kæranda falli undir 1% gjaldstig.“

Eigi verður annað séð, en hið kærða aðstöðugjald sé lagt á í samræmi við tilkynningu um aðstöðugjöld í Reykjanesumdæmi 1982, dags. 21. apríl 1982, þar sem gjaldstig eru tilgreind samkvæmt ákvörðun hlutaðeigandi sveitarstjórnar, þ. á m. í Kjalarneshreppi, Kjósarsýslu. Með skírskotun til þessa þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra. Rétt þykir að taka fram, að samkvæmt tilkynningu um aðstöðugjöld í Reykjanesumdæmi 1981, dags. þann 30. apríl, er landbúnaði skipað í aðstöðugjaldsstig 0,70% að því er Kjalarneshrepp varðar. Breyting hefur orðið á þessu árið 1982, sbr. tilkynningu fyrir það ár, sem fyrr er getið.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja