Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 262/1983

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 7. gr. B-liður, 16. gr., 20. gr., 100. gr.  

Atvinnurekstur — Byggingarstarfsemi — Fasteignaviðskipti — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Meginregla — íbúðarhúsnæði

Málavextir eru þeir, að með kæru, dags. 28. desember 1981, skaut kærandi úrskurði skattstjóra, dags. 3. desember 1981, varðandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1980 til ríkisskattanefndar og boðaði, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með úrskurði nr. 425, dags. 1. júlí 1982, vísaði ríkisskattanefnd kærunni frá að svo stöddu sökum vanreifunar, þar sem boðaður rökstuðningur hefði ekki borist.

Með fyrrgreindu bréfi, ódags. en mótteknu þann 5. október 1982, fer umboðsmaður fram á, að nefndur frávísunarúrskurður verði endurupptekinn og kæran fái efnismeðferð. Í því sambandi leggur hann fram rökstuðning í bréfi þessu. Af hálfu ríkisskattstjóra er endurupptaka athugasemdalaus, sbr. bréf hans, dags. 14. febrúar 1983, í tilefni af beiðninni.

Á það er fallist, að úrskurður nr. 425, dags. 1. júlí 1982, verði endurupptekinn og kæran sæti efnislegri umfjöllun. Verður gerð grein fyrir forsögu málsins og málavöxtum í meginatriðum.

Samkvæmt skattframtali kæranda árið 1980 keypti hann íbúða að U-götu, Reykjavík, þann 11. júní 1979 og seldi aftur þann 7. desember 1979. Þá keypti hann íbúð að D-götu, Reykjavík, þann 28. febrúar 1979 og seldi aftur þann 6. apríl 1979. Dagsetningar eru kaupsamningsdagar. Þá seldi kærandi þann 28. febrúar 1979 eignarhluta sinn í B-götu, Reykjavík. Þann 31. ágúst 1979, keypti kærandi eignina X við Vesturlandsveg. Kærandi átti fyrir íbúðarhúsnæði að L-götu, Reykjavík. f fylgiskjali með skattframtalinu gerði kærandi svofellda grein fyrir hagnaði og tapi á þessum fasteignaviðskiptum og meðferð söluhagnaðar í því sambandi:

„Hagnaður / (Tap) af sölu fasteigna:

B-gata Kr. (387.474)
U-gata Kr. 9.230.000
D-gata Kr. 100.000

Kr. 8.992.506

Óskað er eftir frestun á skattlagningu söluhagnaðar en til vara að hann verði fyrndur af kostnaðarverði X við Vesturlandsveg.“

Næst gerðist það í málinu, að skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 21. júlí 1980, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1980, að ofangreindur söluhagnaður hefði verið færður honum til tekna á söluári samkvæmt 20. gr. laga nr. 40/ 1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Þessi breyting var kærð af hálfu kæranda með bréfi, dags. 1. ágúst 1980, og þess farið á leit, að leyft yrði að fyrna eignina X við Vesturlandsveg um fjárhæð söluhagnaðarins. Með úrskurði, dags. 3. desember 1981, hafnaði skattstjóri kröfunni á þeim forsendum, að hann liti svo á, að byggingarstarfsemi og fasteignaviðskipti kæranda féllu undir ákvæði 20. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e.a.s. eignanna hefði verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði. Hagnaður af sölu slíkra eigna teldist ávallt að fullu til skattskyldra tekna á söluári án tillits til verðbreytinga, sbr. 26. gr. laganna.

Rétt þykir að geta þess, að fyrir liggur og í málinu endurákvörðun skattstjóra, dags. 30. desember 1981, sbr. og skattbreytingarseðil, dags. sama dag, þar sem tekjur til skatts eru enn frekar hækkaðar á þeim grundvelli, að kæranda hefði verið óheimilt að endurmeta byggingarkostnað á eigninni B-götu, Reykjavík. Er endurákvörðun þessi gerð í framhaldi af bréfi skattstjóra, dags. 10. desember 1981, sbr. og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 28. desember 1981, þar sem fyrirhugaðri breytingu er mótmælt. Skattstjóri byggði á því, að eignarinnar hefði verið aflað í því skyni að selja hana aftur með hagnaði, en hagnaður af sölu eignarinnar teldist til skattskyldra tekna án tillits til verðbreytinga. Viðskipti þessi féllu undir ákvæði 20. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt að því er skattstjóri taldi. Eigi verður séð, að þessi endurákvörðun hafi verið kærð sérstaklega til skattstjóra og að fyrir liggi kæranlegur úrskurður af hans hendi um þennan þátt út af fyrir sig.

Í rökstuðningi umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar mótteknum þann 5. október 1982 segir svo m.a.:

„Mótmælt er tekjufærslu á umbj.m. vegna söluhagnaðar á íbúðarhúsnæði. Umbj.m. gerir þá kröfu að söluhagnaðurinn verði færður til lækkunar á stofnverði á eign hans að L-götu, Reykjavík, en til vara á eign hans að F v/Vesturlandsveg. Þeirri ákvörðun skattstofunnar að telja kaup og sölu umræddrar eignar gerða í atvinnuskyni er alfarið mótmælt. Umbj.m. er ekki iðnlærður og bygging og kaup og sala eigna hefur einungis verið í því augnamiði að koma þaki yfir höfuð fjölskyldunnar. Umrædd íbúð var keypt og endursöluverð hennar var einungis eðlileg vísitöluhækkun á eignartímabilinu þegar tekið er tillit til þess að í endursölunni var íbúðin seld að mun stærri hluta á skuldabréfi en þegar hún var keypt. Þá skal einnig á það bent að stærðarmörk á íbúðarhúsnæði umbj.m. og eiginkonu hans eru langt innan við 1200 m3, sbr. 16. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981.

Er því skattlagningu söluhagnaðar alfarið mótmælt.“

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 14. febrúar 1983:

„Með skattframtali ofangreinds kæranda fylgdi yfirlit yfir hagnað vegna sölu á þar tilgreindum fasteignum og nam hagnaðurinn samtals gkr. 8.992.506. Fyrir álagningu gjalda tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 21. júlí 1980, að téður söluhagnaður hefði verið færður í reit 62 á skattframtali hans. Kærandi mótmælti fyrrgreindri breytingu skattstjóra með kæru, dags. 1. ágúst 1980.

Með úrskurði, dags. 3. des. 1981, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að viðkomandi eignir hafi kærandi keypt eða byggt í þeim tilgangi að selja aftur með hagnaði.

Þennan úrskurð skattstjóra hefur kærandi kært til ríkisskattanefndar skv. heimild í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981.

Með bréfi, dags. 10. des. 1981, boðaði skattstjóri kæranda endurupptöku á framtali hans árið 1980 og í framhaldi af því endurákvarðaði skattstjóri honum gjöld árið 1980, sbr. tilkynningu, dags. 31/12 1981. Eigi er sjáanlegt að kærandi hafi kært þessa gjaldahækkun skattstjóra. Verður því eigi fjallað um þá breytingu.

Ríkisskattstjóri gerir þá kröfu í málinu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda verður að telja byggingarstarfsemi og fasteignaviðskipti kæranda með þeim hætti að tilgangur hans hafi fyrst og fremst verið sá að hagnast af téðum viðskiptum.

Hvað varðar varakröfu kæranda sýnist hún ekki eiga lagastoð og fellst því ríkisskattstjóri eigi á að hún verði tekin til greina.

Athygli er vakin á því að nokkuð sýnast dagsetningar í bréfum og úrsk. skattstjóra vera á reiki. Ljóst má þó vera að um er að ræða gjaldárið 1980.“

Sú breyting, sem skattstjóri ákvað í bréfi sínu, dags. 30. desember 1981, er í órofa tengslum við kæruefnið og raunar einn þáttur þess. Eins og á stendur þykir því mega fjalla um þessa síðari breytingu skattstjóra jafnhliða hinni fyrri, enda þótt þessir þættir hafi eigi fylgst að við meðferð skattstjóra á málinu svo sem rétt hefði verið. Út af þeirri breytingu, sem skattstjóri ákvað þann 30. desember 1981, skal tekið fram, að eigi verður 20. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, skilin eða skýrð svo, að til þess geti komið, að horft verði fram hjá þeim áhrifum, sem almennar verðbreytingar hafa, enda er slík meðferð alveg andstæð meginstefnu laganna. Í máli þessu þykir álitaefnið vera það, hvort þau fasteignaviðskipti, sem í málinu greinir, séu þess eðlis og í þeim mæli að kærandi geti eigi nýtt sér þær reglur um meðferð skattskylds söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði, sem greinir í 16. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Í málinu liggja fyrir skattframtöl kæranda árin 1977 - 1982 að báðum árum meðtöldum. Í gögnum þessum kemur fram, að kærandi hefur haft með höndum íbúðarhúsabyggingar sem atvinnurekstur. Þá hefur kærandi, svo sem fram kemur hér að ofan og að hluta til er gerð þar grein fyrir, haft með höndum kaup og sölu fasteigna. Þegar nefnd byggingarstarfsemi og fasteignaviðskipti kæranda er virt í heild sinni, svo sem þessir þættir liggja fyrir í málsgögnum, og litið er til umfangs þeirra og annarra þeirra atriða, sem máli þykja skipta, verður eigi talið, að af hálfu kæranda hafi komið fram þau rök, að efni séu til þess að líta öðruvísi á þau fasteignaviðskipti hans á árinu 1979, sem um er deilt í málinu, en sem lið í atvinnurekstri hans. Ákvæði 16. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt þykja því eigi geta tekið til söluhagnaðar af þessum tilteknu viðskiptum kæranda. Verður því að hafna kröfu kæranda um þá meðferð söluhagnaðarins. Með tilvísun til þess, sem segir hér að framan um ákvörðun fjárhæðar hins skattskylda söluhagnaðar, fær endurákvörðun skattstjóra, dags. 30. desember 1981, sem reifuð er í málinu, eigi staðist. Verður byggt á þeirri fjárhæð, sem kærandi hefur sjálfur tilfært og gert upp sem skattskyldan söluhagnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja