Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 297/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 51. gr. 1. mgr. 1. tl. og 2. mgr.  

Vaxtagjöld — Frádráttarbær vaxtagjöld — Íbúðarhúsnæði — íbúðarhús — Sönnun — Kærumeðferð — Verðbætur

Málsatvik eru þau að á árinu 1981 keypti kærandi ásamt tveimur öðrum eignina X í Glæsibæjarhreppi, Eyjafjarðarsýslu, sem var nánar tiltekið íbúðarhús, verksmiðjuhús, mjölhús, verkstæðishús, bogaskemma, „símstöð“ og steyptur tankur svo og tilheyrandi land. Kærandi gat um eignakaup þessi í skattframtali sínu 1982 að sínum hluta. Íbúðarhúsið færði hann til eignar á persónuframtal sitt ásamt lóð, en annarra eigna er getið í efnahagsreikningi. Sem skuld vegna kaupa á íbúðarhúsinu færði kærandi 80.000 kr. til skuldar og til frádráttar reiknaða vexti af henni 49.120 kr. Að undangengnum bréfaskriftum lækkaði skattstjóri þá fjárhæð í 2.340 kr., þar sem áfallnar verðbætur á höfuðstól væru því aðeins frádráttarbærar, að um atvinnurekstur væri að ræða. Vísaði skattstjóri í þessu sambandi til lokamálsliðar 2. mgr. 51. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í kæru sinni til skattstjóra benti umboðsmaður kæranda á að á innheimtukvittunum kæmi fram að vísitölubætur frá undirskrift skuldabréfa, dags. 25. janúar 1981, er út voru gefin í tilefni af framangreindum eignakaupum, til greiðsludags 24. júlí 1982 séu allar til greiðslu á gjalddaga en bætist ekki við lánið og dreifðist því ekki yfir lengra tímabil. Yrði því að telja, með vísun til 51. gr. nefndra laga, að hlutfall verðbóta frá 28. janúar 1981 til 31. desember 1981 sé gjaldfallið, eins og beint sé orðað í niðurlagi lagagreinarinnar og með verðbætur eigi ekki að fara á annan hátt en gjaldfallna vexti. Síðan gerir umboðsmaður kæranda grein fyrir útreikningi sínum á gjaldföllnum vöxtum og verðbótum á árinu 1981 vegna skuldar kæranda af eignarhluta hans í umræddu íbúðarhúsnæði. Telur hann að fjárhæðin eigi að nema 50.488 kr. Rétt þykir að skilja kæru umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar svo að hann haldi fram sömu kröfum og hann hafði uppi í kærunni til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 10. mars 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Að kröfu kæranda verði hafnað.

Skv. skýlausu ákvæði 2. mgr. 51. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt heimilast þeim aðilum er ekki stunda atvinnurekstur einungis, að telja til frádráttar skattskyldum tekjum gjaldfallnar verðbætur.

Meðal gagna málsins er kaupsamningur kæranda o.fl. varðandi eignina X og kemur þar fram að fyrstu afborgun af téðri skuld skuli greiða þann 15. júní 1982. Er því ljóst að á árinu 1981 greiddi kærandi engar verðbætur í skilningi ofangreinds lagaákvæðis.

Krafa kæranda þykir því ekki hafa lagastoð.“

Ekkert er fram komið í máli þessu sem bendir til þess að kærandi hafi keypt hluta í íbúðarhúsnæði því, sem í máli þessu greinir, til eigin nota í skilningi 1. tl. E-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að svo vöxnu er honum eigi heimilt að færa til frádráttar launatekjum sínum vaxtagjöld sem stafa af skuldum vegna kaupa hans á eignarhluta í umræddu íbúðarhúsnæði. Eru kröfur kæranda því ekki teknar til greina og vaxtagjöldin felld úr frádráttarhlið framtalsins, þ.á m. vaxtagjöld þau sem skattstjóri hafði heimilað honum til frádráttar. Þá verður ekki séð á hvern hátt skuld við Landsbanka Íslands 39.368 kr., sem tilgreind er á persónuframtali kæranda, tengist öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota og eru því vaxtagjöld 10.715 kr. felld úr frádráttarhlið framtalsins.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja