Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 300/1983

Gjaldár 1980 og 1981

Lög nr. 75/1981, 32. gr., 38. gr.   Lög nr. 68/1971, 15. gr. E-liður  

Íbúðarhúsnæði — Fyrning — Fyrnanleg eign — Útleiga — Atvinnurekstur — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Lögskýring — Málsmeðferð skattstjóra — Dómsúrlausn

Með bréfi, dags. 25. september 1981, tilkynnti skattstjóri kæranda um eftirtaldar breytingar á skattframtali 1981:

„1. Sbr. bréf skattstofu 27. ágúst 1980 var rekstrartap á framtali 1980 lækkað í 1.145.551 gkr., vegna oftalinna fyrninga. Eftir færslu varasj. til lækkunar tapsins verður staða hans 31. desember 1980 2.300.693 gkr., í stað 366.333 gkr.

2. Fyrning íbúðarhúsnæðis er ekki heimil sbr. 32. gr. 1. nr. 40/1978. Gjaldfærð afskrift á rekstrarreikningi lækkar því um 2.996.517 gkr., í 2.043.541 gkr.

3. Frádráttur á framtalseyðublaði vegna taps ársins 1979 er rangur. Yfirfæranlegt tap er ekkert, þar sem það var fært til lækkunar varasjóðs sbr. lið 1. að framan.

4. Að gerðum framangreindum breytingum er tekjuskattsstofn 4.922.191 gkr., og aðstöðugjaldsstofn 18.362.346 gkr.“

Í kæru til skattstjóra mótmælir umboðsmaður kæranda ofangreindum breytingum. Segir þar m.a. að bréf skattstjóra frá 27. ágúst 1980 hafi ekki borist kæranda og dregið er í efa, að það hafi nokkurn tíma verið sent honum. Sé því öllum breytingum skattstjóra á skattframtali kæranda 1980 mótmælt svo og áhrifum þeirra breytinga á gjaldstofna samkvæmt skattframtali 1981.

Þá telur umboðsmaður kæranda, að með orðunum íbúðarhúsnæði í 32. og 38. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt sé átt við íbúðarhúsnæði í eigu manna eins og það er skilgreint í E-lið 15. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. íbúðarhúsnæði er eigandi notar fyrir sig og fjölskyldu sína. Kærandi sé sameignarfélag, sem eigi og leigi út samtals 8 íbúðir. Það sé ótvírætt að tekjur félagsins falli undir B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Ljóst sé því að frá tekjum kæranda megi draga kostnað skv. ákvæðum 31. gr. laga nr. 75/1981, þar á meðal vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna, sbr. og 2. mgr. 29. gr. sömu laga. Þá er aðferð skattstjóra við framkvæmd breytinganna mótmælt.

Með úrskurði, uppkveðnum 24. mars 1982, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda m.a. á þeim forsendum að íbúðarhúsnæði sé ekki fyrnanleg eign samkvæmt 32. og 38. gr. laga nr. 75/1981.

Umboðsmaður kæranda kærði breytingar skattstjóra með bráðabirgðakæru, dags. 20. apríl 1982. Frekari rökstuðningur barst með bréfi, dags. 15. júlí 1982. Eru þar ítrekuð fyrri mótmæli við breytingum skattstjóra og vísað til kæru til skattstjóra varðandi nánari rökstuðning.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 1. október 1982, gerð sú krafa, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til 32. og 38. gr. skattalaga. Úrskurður skattstjóra er staðfestur. (Sjá hér Hrd. 1984: 1043).

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja