Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 465/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 11. gr., 13. gr., 23. gr. 2. mgr.   Lög nr. 73/1980, 37. gr.  

Fyrnanleg eign — Söluhagnaður — Gjaldfærsla — Atvinnurekstur — Sölutap — Frestur skattlagningar söluhagnaðar — Gjaldfærsla sölutaps — Yfirfæranleg rekstrartöp — Lögskýring — Aðstöðugjaldsstofn — Umboðssala — Sönnun — Vanreifun — Frávísun

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1982 og sætti því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum. Skattframtal kæranda árið 1982 barst skattstjóra þann 29. júlí 1982. Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með úrskurði, dags. þann 15. mars 1983, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 með nokkrum breytingum, sem tilgreindar eru í úrskurðinum. Þær breytingar, sem ágreiningur er um og sætt hafa kæru til ríkisskattanefndar eru sem hér segir samkvæmt úrskurði skattstjóra:

„2. Umboðsvörur 820.918 kr., leyfast ekki til frádráttar aðstöðugjaldsstofni. Þessar vörur virðast vera keyptar af svokölluðum umboðsaðilum og kostnaðarverð þeirra gjaldfært á rekstrarreikningi. Skv. meðhöndlun í ársreikningi voru þessar vörur í yðar eigu, en ekki í eign umboðsaðila. Þær leyfast því ekki til frádráttar frá aðstöðugjaldsstofni.

3. Meginreglan um meðferð söluhagnaðar af eignum sem heimilt er að fyrna skv. 32. gr. er að finna í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 75/1981. Þar segir að söluhagnaður framangreindra eigna teljist að fullu til skattskyldra tekna á söluári án tillits til eignarhaldstíma. Telja verður að 13. gr. um frestun söluhagnaðar um 2 ár sé undanþáguákvæði frá ofannefndri meginreglu.

Sú aðferð yðar að gjaldfæra tap þeirra eigna sem seldar voru undir bókfærðu verði, en fresta söluhagnaði þeirra eigna, sem seldar voru með hagnaði, þykir óeðlileg og stangast á við þá grundvallarhugsun sem fram kemur í 11. gr. Þykir því verða að líta á sölu framangreindra eigna, sem eina heild, og leyfa frestun á nettó hagnaði 65.277 kr.“

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. apríl 1983. Í kærunni segir svo:

„1. Umboðsvörur 820.918.00 kr. eru vörur sem N. hf. (kærandi) fékk umboðslaun fyrir frá S. hf. Um er að ræða heildsölu S. hf. sem öll fer í gegnum N. hf. (kæranda) þar sem S. hf. hefur ekki aðstöðu til að annast söluna sjálfur. Af þessu leiðir að umræddar 820.918.00 kr. hefðu ekki átt að gjaldfærast hjá N. hf. (kæranda) né tekjufærast.

2. Um er að ræða annarsvegar söluhagnað af vélum 116.320.24 kr., og hinsvegar sölutap af bifreiðum 50.254.09 kr. Skattstjóri telur að það að gjaldfæra sölutapið á söluári en fresta söluhagnaði um tvenn áramót, stangist á við þá grundvallarhugsun sem fram kemur í 11. grein gildandi skattalaga. Undirritaður telur að þar sem ekki er tekið á þessu í gildandi lögum um tekju- og eignarskatt, sé þetta heimilt.

Þessu til stuðnings er 23. gr. laganna þar sem rætt er um eignir utan atvinnurekstrar.

Þar sem þar er óbeint tekið á þessu hvað varðar aðrar eignir en þær sem notaðar eru í atvinnurekstri tel ég að hér megi beita gagnályktun þ.e. að þetta eigi ekki við um eignir sem notaðar eru við atvinnurekstur.

Hér er um tvær sjálfstæðar eignir að ræða og tel ég að líta beri á hverja sölu fyrir sig.

Þessu til stuðnings nefni ég að ef önnur salan hefði átt sér stað 31. desember 1981, en hin salan 1. janúar 1982 hefði skattstjóri aldrei látið sér detta í hug að jafna söluhagnað og sölutap eignanna saman.“

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi, dags. 25. júlí 1983, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Skýringar kæranda varðandi umboðsvörur geti ekki talist fullnægjandi, enda verði ekkert ráðið um viðskiptasamband aðila. Þá sé meðferð skattstjóra á söluhagnaði og sölutapi í ársreikningi í samræmi við tilgang laganna. Sjónarmið kæranda um gagnályktun geti ekki átt við í þessu sambandi.

Í ársreikningi kæranda fyrir árið 1981 eru tekjufærð umboðslaun frá S. hf. Kveður kærandi umboðslaun þessi vera vegna fyrrnefndra umboðsvara, sem ranglega hafi verið færðar í reikningsskilum kæranda. Krafa kæranda er ekki nægum rökum studd og er kæruatriði þessu því vísað frá.

Kærandi gjaldfærði tap á sölu bifreiða, er hann seldi árið 1981, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi hafði hagnað af sölu blýteinsvéla, sem hann seldi á árinu 1981, sbr. 11. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Krefst hann þess að fá að nýta sér þá heimild, sem greinir í 13. gr. nefndra laga til frestunar á skattlagningu hins skattskylda söluhagnaðar. Kærandi uppfyllir skilyrði til þeirrar frestunar og í því sambandi hafa yfirfæranleg rekstrartöp verið jöfnuð. Sú uppgjörsaðferð sölutaps og söluhagnaðar, sem skattstjóri og ríkisskattstjóri vilja byggja á í þessum efnum, er eigi áskilin við notkun fyrrnefndrar frestunarheimildar hvorki samkvæmt 13. gr. laganna né öðrum ákvæðum þeirra. Fyrir því þykir bera að taka kröfu kæranda til greina varðandi þetta kæruatriði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja