Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 555/1983

Gjaldár 1980 og 1981

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl, 30. gr. 1. mgr. A-liður 3. tl.  

Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Læknir — Aksturskostnaður — Frádráttarheimild — Bakvaktir — Ferðakostnaður

Málavextir eru þeir, að skattstjóri felldi niður sem frádrátt á skattframtölum kæranda tilfærðan kostnað á móti ökutækjastyrk 1.126.615 gkr. á skattframtali 1980 og 1.843.831 gkr. á skattframtali 1981. Forsendur umræddra breytinga voru að mati skattstjóra þær, að kærandi hefði ekki fengið greiddan ökutækjastyrk.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar. Kærandi segir, að árin 1979 og 1980 hafi hann unnið sem sérfræðingur á E-deild spítalans. Hann hefði haft bakvaktarskyldu að jafnaði þriðja hvern dag án aðstoðarlæknis á forvakt. Við slíkar aðstæður hafi hann skilað fullri 40 stunda vinnuviku innan dagvinnutímamarka. Hann hafi að jafnaði verið bundinn af vinnu þriðja hvern sólarhring eða vel yfir 100 daga hvort þessara ára. Bar honum þá að koma á vinnustað væri rannsókn framkvæmd utan dagvinnutíma og voru slík útköll greidd sem yfirvinna. Ferðir lækna voru á þessum árum ekki greiddar af vinnuveitanda (sjúkrahúsi) hvorki í formi bílastyrks né leigubílakostnaðar. Aftur á móti höfðu sjúkrahúslæknar fram að þessu getað dregið aksturskostnað frá á skattskýrslu í formi hlutfalls af rekstrarkostnaði bifreiða sinna. Í gamalli bókun frá ríkisskattanefnd sé gefin 25% frádráttarheimild fyrir sjúkrahúslækni með bakvaktarskyldu. Jafnframt segir kærandi, að þar sem akstur sinn á vöktum og vegna yfirvinnu sem ekki var unnt að inna af hendi í framhaldi af dagvinnu hafi verið það mikil, að 25% reksturskostnaðar hafi verið langt undir marki og þar sem hann hafi auk þess unnið utan dagvinnutíma á K-spítala og að X, hefði hann hækkað þennan frádráttarlið. Skýringar þar að lútandi og nótur vegna reksturs bifreiðar hefðu verið sendar skattstjóra.

Með bréfi dags. 12. nóvember 1982 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur fyrir hönd gjaldkrefjenda: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda verður ekki talin vera fyrir hendi lagaheimild fyrir umkröfðum frádrætti.“

Tekjur kæranda eru einvörðungu launatekjur. Eigi hefur kærandi fengið greiddan ökutækjastyrk úr hendi vinnuveitanda. Verður því eigi talin vera fyrir hendi heimild til þess frádráttar bifreiðakostnaðar, sem kærandi krefst. Þykir því verða að synja kröfu hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja