Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 723/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 53. gr., 96. gr.  

Fyrirspurn skattstjóra — Fyrirspurnarbréf skattstjóra — Útistandandi skuldir — Verðbreytingarfærsla — Breytingarheimild skattstjóra — Lagaheimild — Kærumeðferð — Verksvið skattstjóra — Ákvörðun skattstjóra, efnislegur annmarki

Kærður er úrskurður skattstjóra dags. 22. ágúst 1983 og boðað að nánari grein verði gerð fyrir kærunni síðar. Með bréfi, dags. 8. nóvember 1983, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að kærunni verði vísað frá sökum vanreifunar þar sem eigi verði séð að boðaður rökstuðningur hafi borist.

Með bréfi, dags. 4. mars 1983, fór skattstjóri fram á að kærandi léti í té gögn er sýni og sanni eignfærðar útistandandi skuldir kr. 580.529 í efnahagsreikningi pr. 31. desember 1981 er fylgdi skattframtali kæranda 1982. Jafnframt var þess óskað að kærandi gerði „grein fyrir afborgunarskilmálum ásamt vaxta- og/eða verðbótakjörum“. Ekki svaraði kærandi bréfi þessu og með bréfi, dags. 6. maí 1983, tilkynnti skattstjóri um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1982 af svohljóðandi ástæðum:

„Fyrirspurnarbréfi dags. 4. mars 1983 hefur ekki verið svarað. Vegna ósvaraðs fyrirspurnarbréfs hefur skattstjóri ákveðið að strika út eignfærðar útistandandi skuldir kr. 580.529. Gjaldfærsla skv. 53. gr. kr. 295.896, breytist í tekjufærslu skv. 53. gr. kr. 1.772.

Rekstrarhalli f.f. ári kr. 754.386, strikast út enda myndaður að mestu með verðbreytingargjaldfærslu af eignfærðum útistandandi skuldum.

Eignarskattsstofn breytist í samræmi við ofanritað.“

Endurákvörðuninni var skotið til skattstjóra, sem vísaði kærunni frá sökum vanreifunar.

Breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1982 styðst augljóslega ekki við lagaheimildir, sbr. 53. gr. og 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er hún þegar af þeirri ástæðu felld niður og skiptir í því sambandi engu máli þó að kæra til ríkisskattanefndar sé vanreifuð.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja