Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 757/1983

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 95. gr., 99. gr., 106. gr.  

Áætlun — Skattframtal síðbúið — Skattkæra — Kærumeðferð — Álag — Óhófleg áætlun skattstjóra — Ákvörðun skattstjóra, efnislegur annmarki — Kæranleiki álags — Rökstuðningur úrskurðar — Álagsheimild — Málsmeðferð áfátt

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1983. Skattstjóri áætlaði kæranda því skattstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Með kæru, dags. 14. ágúst 1983, til skattstjóra, fylgdi skattframtal kæranda árið 1983. Bárust skattstjóra gögn þessi 17. ágúst 1983 samkvæmt áritun hans á þau. Í kærunni greinir umboðsmaður kæranda frá því, að mistök hefðu valdið því, að skattframtal kæranda hefði ekki borist í tæka tíð. Hann hefði verið fjarverandi, þegar skila hefði átt skattframtölum, en gert ráðstafanir til þess að frá skattframtali kæranda yrði gengið og því skilað á réttum tíma. Við álagningu hefði hins vegar komið í ljós, að vegna misskilnings hefðu framtalsskilin farist fyrir.

Skattstjóri tók kæruna til úrskurðar þann 6. október 1983. Féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1983 í stað hinna áætluðu skattstofna. Hins vegar bætti skattstjóri 25% álagi við skattstofna samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna hinna síðbúnu framtalsskila með þeim rökum, að ekki væri á það fallist, að fyrir hendi væru þau atvik, sem lýst væri í 3. mgr. 106. gr. nefndra laga.

Þessum úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 3. nóvember 1983. Er þess krafist af hálfu umboðsmanns kæranda, að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna, verði fellt niður. Gerir umboðsmaðurinn grein fyrir því, að atvik, er hann varði, s.s. fjarvera úr borginni, hafi valdið því, að hann hafi þurft að gera ráðstafanir til þess, að annar aðili lyki framtalsgerð kæranda og annaðist skil þess. Þetta hefði hins vegar misfarist. Með vísan til þessa og aðstæðna kæranda er þess farið á leit, að álagið verði niður fellt.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 2. desember 1983, fallist á kröfur kæranda.

Kærandi taldi ekki fram innan tilskilins framtalsfrests árið 1983 og bar skattstjóra því að áætla tekjur og eign hans samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Við þá meðferð skattstjóra þykir verða að gera þá athugasemd, að áætlun eignarskattsstofns getur eigi talist málefnisleg, þegar litið er til þeirra upplýsinga, sem legið hafa fyrir skattstjóra um eignastöðu og aðstöðu kæranda. Umboðsmaður kæranda kærði álagninguna, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og rökstuddi kæruna með skattframtali 1983. Verður að telja, að í kærunni felist ennfremur rökstudd beiðni um að álagi yrði eigi beitt vegna síðbúinna framtalsskila. Skattstjóri tekur fram í hinum kærða úrskurði, að hann geti ekki fallist á að fyrir hendi hafi verið þau atvik, sem um ræðir í 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e.a.s. atvik, sem leiða til þess, að skylt er að fella niður álag. Hins vegar rökstyður skattstjóri eigi sérstaklega, hvers vegna álagi samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 106. gr. nefndra laga er beitt í tilviki kæranda. Telja verður að sú ákvörðun hafi krafist sérstaks rökstuðnings, enda kom eigi fram, að álagi hefði áður verið beitt og ákvæði nefndrar 106. gr. skattalaganna eru nú heimildarákvæði sem þýðir að álagsbeiting er eigi skyldubundin og óhjákvæmileg afleiðing ákveðinna atvika svo sem áður var. Þá ber að hafa í huga ákvæði 4. mgr. nefndrar lagagreinar. Einnig er að hyggja að því í máli þessu, að upplýsingar um tekjur kæranda lágu fyrir skattstjóra í tæka tíð. Að virtri málsmeðferð skattstjóra og með vísan til þess, að engin efni þykja hafa verið til þess að beita hinu kærða álagi eru kröfur kæranda teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja