Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 86/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 15. gr., 20. gr., 95. gr., 96. gr.  

Gróðaskyn — Bifreiðaviðskipti — Söluhagnaður — Lausafé — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Ákvörðun söluhagnaðar — Skattfrelsi söluhagnaðar lausafjár — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan

Málavextir eru þeir að kærandi taldi fram til skatts og skilaði skattstjóra undirrituðu og staðfestu skattframtali 1981 í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda nefnt gjaldár. Með bréfi dags. 28. júlí 1981, fyrir álagningu gjalda sama gjaldár, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 95. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú lög nr. 75/1981 um sama efni, að tekjur hans á framtali 1981 væru hækkaðar um 1 997 188 kr. „sem er hagnaður af bifreiðasölu.“ Þannig breytt var skattframtalið lagt til grundvallar ákvörðunar opinberra gjalda við álagningu þeirra 1981. Með bréfi dags. 4. ágúst 1981 kærði kærandi breytinguna til skattstjóra. Benti hann þar á að sala umræddra bifreiða hefði ekki verið framkvæmd með því hugarfari að hafa af því atvinnu eða hagnað og vísaði í því sambandi til ákvæða 2. mgr. 15, gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá bendir kærandi á að eigi hafi verið gætt réttra aðferða við framkvæmd breytingarinnar með því að honum hafi ekki verið veitt færi á að gera athugasemdir og hann ekki krafinn skýringa og gagna áður en skattstjóri réði hinni kærðu breytingu til lykta. I tilefni af kærunni kvað skattstjóri þann 15. desember 1981 upp kæruúrskurð og synjaði henni. Segir svo í forsendum þess úrskurðar:

„Gjaldandi kaupir á árinu 1980 fimm bifreiðar og hefur í lok þess árs selt þrjár þeirra og auk þess selt eina bifreið er hann keypti seint (í okt.) á árinu 1979. Hagnaður af þessum viðskiptum nam gkr. 1 997 188.

Með vísan til ofanritaðs og þegar litið er til umfangsmikilla bifreiðaviðskipta gjaldanda síðustu ár, þykir sýnt, að umrædd bílakaup og sala hafi verið í hagnaðarskyni, sbr. 20. gr. laga nr. 40/1978 sbr. lög nr. 75/1981.

Skattstjóri gætti réttra aðferða er gjaldanda var gert viðvart um þá breytingu á framtali hans árið 1981, að tekjur hefðu verið hækkaðar um 1 997 188 gkr. vegna hagnaðar af bifreiðasölu sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 40/1978, sbr. lög nr. 75/1981.“

Með bréfi dags. 8. febrúar 1982 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Umboðsmaður kæranda hefur krafist þess að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi þar sem málsmeðferð skattstjóra sé annmörkum háð.

Ríkisskattstjóri fellst eigi á kröfu kæranda. Breyting skattstjóra á framtali kæranda fullnægði skilyrðum 95. gr. laga nr. 75/1981 sem verður að telja nægjanlegt í tilviki því sem hér er til meðferðar.

Að virtu framangreindu er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.“

Við framkvæmd hinnar kærðu breytingar fór skattstjóri eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt en eigi eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga. Er á það að líta að í máli þessu var eigi einhlítt án þess að leita eftir skýringum kæranda að telja að við ákvörðun hagnaðar vegna sölu þeirra bifreiða, sem í máli þessu greinir, ætti 20. gr. nefndra laga við en eigi 2. mgr. 15. gr. Svo sem mál þetta liggur fyrir þykir eiga, við ákvörðun á söluhagnaði kæranda af sölu bifreiðar á árinu 1980, að fara eftir ákvæðum 1. mgr. 15. gr. sömu laga, enda verður eigi talið að kærandi geti notið skattfrelsis samkvæmt þeim ákvæðum sem hann ber fyrir sig. Við útreikning reynist ekki hafa verið hagnaður af sölunni á árinu 1980. Með vísan til alls þess, sem rakið er hér að framan, er fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja