Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 176/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 7, gr., 92. gr., 94. gr., 96. gr., 1. mgr. 101. gr.  

Skattskyldar tekjur — Hlunnindi — Sveitarsjóðsstyrkur — Dagheimili — Dagvistun barns — Upplýsingarskylda — Eftirlitsheimild — Hlunnindamiði — Sveitarfélag — Foreldri — Barn — Dagmamma — Starfsreglur ríkisskattstjóra — Ólögmætt þvingunarúrræði — Sveitarstjórnarmál — Launamiði — Dagvist

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1981.

Með bréfi dags. 13. ágúst 1981 fór kærandi þess á leit við skattstjóra, að inn á skattframtal árið 1981 yrðu færðar 375 459 kr., sem væri niðurgreiðsla á daggjaldi vegna dagvistunar barns á einkaheimili samkvæmt launamiða borgarsjóðs Reykjavíkur. Með úrskurði dags. 27. október 1981 hækkaði skattstjóri tekjur kæranda um ofangreinda fjárhæð.


Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 25. nóvember 1981. Þar segir svo:

„1. Umræddar tekjur 375 459 kr. eru niðurgreiðslur Borgarsjóðs Reykjavíkur á daggjöldum vegna dagvistunar barns á einkaheimili. Nú er alkunnugt að Borgarsjóður niðurgreiðir dagvistunarkostnað vegna barna á opinberum dagvistunarheimilum Reykjavíkurborgar. Mér er ekki kunnugt um að þeim sem koma börnum sínum á slík heimili sé gert að greiða skatt af þeim hlunnindum sem niðurgreiðslur Borgarsjóðs ótvírætt eru.

2. Eins er mér kunnugt um að önnur sveitarfélög telja hlunnindi þessi ekki skattskyldar tekjur.

3. Umræddar niðurgreiðslur hafa tíðkast um alllangt skeið en hafa ekki verið taldar til skattskyldra tekna fyrr en nú. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem Borgarsjóður sendir út launamiða vegna þessara hlunninda og munu það einu sinni ekki vera allir sem fá þetta á launamiða.

Á ofangreindum forsendum óska ég eftir því að hækkun álagningar vegna mín sé felld niður.“

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar athugasemdir með bréfi dags. 8, febrúar 1982:

„Í samræmi við bréf ríkisskattstjóra til allra skattstjóra, dags. 15. desember 1981, er fallist á að umrædd greiðsla sé eigi skattskyld.

Af gögnum málsins er eigi sjáanlegt að kærandi hafi gefið upp hver sé endanlegur móttakandi greiðslunnar og meðan svo er gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, sbr. framangreint bréf ríkisskattstjóra, II. 2.“

Í tilvitnuðu bréfi kemur fram, að „niðurgreiðslur“ þær, sem í málinu greinir, séu þáttur í jöfnun aðstöðu til vistunar barna á dagheimilum og með greiðslunum sé verið að taka tillit til foreldris, sem eigi fær aðgang að dagheimili sveitarfélags fyrir barn sitt. Um sé að ræða vistun hjá einkaaðila er hafi hlotið viðurkenningu sveitarfélags. Fallast ber á það með ríkisskattstjóra, að greiðsla þessi geti eigi skapað skattskyldar tekjur hjá foreldri. Þar af leiðir, að skortur á upplýsingagjöf foreldris um viðtakanda greiðslu fellir eigi að heldur skattskyldu á foreldri vegna greiðslna slíkra sem hér um ræðir. Verður því eigi fallist á það, að afleiðingar þess, að þær upplýsingar liggi eigi fyrir, geti orðið þær sem ríkisskattstjóri telur og reifað er í nefndu bréfi hans frá 15. desember 1981. Til þess að knýja fram upplýsingar af því tagi, ef þörf er á því talin, er í lögum gert ráð fyrir öðrum úrræðum, sbr. 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og ennfremur 94. gr. sömu laga og í því sambandi þykir rétt að benda á, að hér er um að ræða þátt í rækslu félagsmála af hendi sveitarfélaga undir eftirliti þeirra með þeim upplýsingum um starfsemina sem slíkt eftirlit krefst. Með þessum athugasemdum þykir bera að fallast á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja