Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 233/1982

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 53. gr.  

Verðbreytingarfærsla — Rekstrarlok — Stofn til verðbreytingarfærslu — Niðurfelling tekjufærslu vegna verðbreytingar — Lögskýring

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali í framtalsfresti árið 1980 er lagt var til grundvallar við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Samkvæmt fylgiskjali fyrir verðbreytingarfærslu nam stofn til tekjufærslu 86 621 177 kr. og reiknuð tekjufærsla 39 421 297 kr. Kærandi færði til tekna 14 676 696 kr. sem tekjufærslu í rekstrarreikningi með vísan til 5. mgr. 53. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, þ. e. a. s. felldi niður þann hluta reiknaðrar tekjufærslu sem umfram var skattalegt tap ársins með því að svo stæði á, að skuldir samkvæmt 4. mgr. nefndrar lagagreinar væru hærri en eignir samkvæmt 73. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi dags. 26. febrúar 1981 boðaði skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að færa honum til tekna þann hluta tekjufærslu sem niður hefði verið felldur, enda ætti ákvæði 5. mgr. 53. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt ekki við um kæranda svo sem á stæði. Miða bæri við allar eignir skattaðila samkvæmt 73. gr. laganna án tillits til þess hvort eignirnar væru tengdar rekstri hans eða væru einkaeignir. Með bréfi dags. 5. maí 1981 tilkynnti skattstjóri kæranda, að áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1980 hefðu verið endurákvörðuð í samræmi við boðaða breytingu. Með bréfi dags. 21. maí 1981 var ákvörðun skattstjóra kærð af hálfu umboðsmanns kæranda. Taldi umboðsmaðurinn, að ekki ætti að vera neinum vafa undirorpið að með heildareignum í 5. mgr. 53. gr. nefndra laga væri átt við eignir tengdar atvinnurekstri. Studdi umboðsmaðurinn skilning sinn á ákvæðinu m. a. við orðalag 4. mgr. nefndrar lagagreinar. Krafðist hann niðurfellingar á tekjuhækkun skattstjóra. Til vara var þess krafist að skuldir til verðbreytingarfærslu yrðu lækkaðar um 2 000 000 kr.

Með úrskurði dags. 1. september 1981 hafnaði skattstjóri aðalkröfu kæranda, en tók varakröfuna til greina. Forsendur synjunar skattstjóra á aðalkröfu voru þessar:

„1. Í 5. mgr. 53. gr. laga nr. 40/1978, sbr. 27. gr. laga nr. 7/1980 segir, að þegar skuldir skattaðila skv. 4. mgr. 53. gr. séu hærri en heildareignir hans, sbr. 73. gr. sömu laga skuli sá hluti reiknaðrar tekjufærslu sem umfram er skattalegt tap ársins eða ójöfnuð töp fyrri ára falla niður. Samkvæmt 73. gr. eru eignir allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur verðmæt eignarréttindi með takmörkum 75. gr. sömu laga. Skiptir hér eigi máli hvort eignirnar gefa af sér arð eða ekki.

Kærandi telur að skoða beri 5. mgr. 53. gr. með sérstakri hliðsjón af 4. málslið 4. mgr. sömu greinar og að álykta beri að orðið „heildareignir“ í 5. mgr. greinarinnar nái aðeins yfir eignir tengdar rekstri. Eigi verður fallist á þessa ályktun kæranda af eftirgreindum ástæðum:

Uppbygging 53. gr. laga nr. 40/1978, sbr. lög nr. 7/1980, er með þeim hætti að í 1. og 2. mgr. greinarinnar er gerð grein fyrir verðbreytingarfærslu og með hvaða hætti hún skuli reiknuð. í 3. og 4. mgr. eru stofnar til útreiknings ákvarðaðir, eignir eftir 3. mgr. og skuldir eftir 4. mgr. í 5. mgr. 53. gr. er hið umdeilda atriði hvenær tekjufærsla skuli falla niður, að fullnægjandi tilteknum forsendum. Má því vera ljóst að 5. mgr. 53. gr. er óháð 4. mgr. sömu greinar, hvað varðar umdeild atriði þar sem 4. mgr. ákvarðar stofn til færslu, en 5. mgr. hvenær tekjufærsla megi niður falla. Skýra verður orðalag 5. mgr. 53. gr. eftir orðanna hljóðan, þannig að með „heildareignum“ sé átt við allar eignir kæranda, sbr. 73. gr. laga nr. 40/1978.

Í kæru sinni segir kærandi að hvergi komi fram í lögum nr. 40/1978 við hvaða eigna- og skuldastöðu skuli miða. Hér hefur kæranda yfirsést 7. mgr. 53. gr. laganna, þar sem fram kemur að miða átti við stöðu eigna og skulda í byrjun reikningsárs.“

Með bréfi dags. 18. september 1981 fór umboðsmaður kæranda þess á leit við ríkisskattstjóra, að felld yrði niður tekjufærsla með öllu, þar sem kærandi hefði selt bát sinn á miðju ári 1979 og hætt atvinnurekstri. Þrætuefni það, er hefði verið til meðferðar á skattstjórastigi, þ. e. um eignastöðu, skipti ekki máli, því að samkvæmt fyrirmælum ríkisskattstjóra til allra skattstjóra í bréfi dags. 27. október 1980 skyldi ekki reikna verðbreytingarfærslu hjá þeim skattaðilum sem hætt hefðu rekstri á tekjuárinu. Með bréfi dags. 9. október 1981 sendi ríkisskattstjóri ríkisskattanefnd erindið.

Með bréfi dags. 17. nóvember 1981 gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í málinu: „Fram kemur í málinu að kærandi hafði ekki rekstur með höndum eftir 30. júní 1979. í ljósi þess og með vísan til tilvitnaðs,bréfs ríkisskattstjóra frá 27. október 1980 um skýringar á 53. gr. skattalaga er fallist á að tekjufærsla skv. þeirri grein verði ekki færð í tilviki kæranda.“

Skýra verður svo ákvæði 53. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og þeirri grein var breytt með 27. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum, að þar umrædda verðbreytingarfærslu beri að reikna út við skattskil kæranda vegna gjaldársins 1980 og skiptir í því sambandi ekki máli, þó að hann hafi hætt rekstri á árinu 1979. Samkvæmt ársreikningi 1979 eru eignir hærri en skuldir. Af framangreindum ástæðum er ekki fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja