Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 464/1982

Gjaldár 1980

Lög nr. 55/1980   Lög nr. 75/1981, 1. tl. B-liðs 1. mgr. 30. gr., 1. tl. 1. mgr. 31. gr.  

Lífeyrisiðgjald — Frádráttarheimild — Rekstrarkostnaður — Eigin atvinnurekstur — Lífeyrissjóður — Skylduaðild að lífeyrissjóði — Sératkvæði — Lögskýring — Reiknað endurgjald

Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að fella niður gjaldfærðar iðgjaldagreiðslur á rekstrarreikningi fyrir árið 1980 að fjárhæð 323 355 kr. í tiltekinn lífeyrissjóð vegna eigin lífeyristryggingar og færa fjárhæðina til frádráttar tekjum í persónuframtali kæranda 1981. Kærandi, sem rak sjálfstæða atvinnustarfsemi og greiddi nefnd iðgjöld að öllu leyti sjálfur, krefst þess að því verði skipt þannig að 60% af því teljist tilheyra rekstrinum og sé frádráttarbært sem rekstrarkostnaður og 40% flytjist á persónuframtalið sem frádráttarbær liður skv. 1. tl. D-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi dags. 15. febrúar 1982 krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Atkvœði meirihluta. Kærandi innti umræddar iðgjaldagreiðslur af höndum að öllu leyti vegna sjálfs sín. Með vísan til þess er ákvörðun skattstjóra staðfest.

Sératkvœði. Með lögum nr. 40/1978 um tekju- og eignarskatt, en lög þau gilda um hina kærðu álagningu opinberra gjalda, var skýrari greinarmunur gerður á frádrætti manna frá tekjum utan atvinnurekstrar og frádrætti frá tekjum af atvinnurekstri. Meðal annars var sú skylda lögð á aðila með eigin atvinnurekstur að reikna sér endurgjald af honum, sbr. 59. gr. laganna, og kemur það til frádráttar rekstrartekjum, sbr. 2. mgr. 1. tl. 31. gr. laganna. Hefur kærandi reiknað sér endurgjald af atvinnurekstri sínum í samræmi við framangreind lagaákvæði. Þá er þeim er stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skylt samkvæmt lögum nr. 55/1980 að greiða í lífeyrissjóð að minnsta kosti 10% af reiknuðu endurgjaldi fyrir starf við eigin rekstur. í framkvæmd hefur aldrei verið dregið í efa að frá atvinnurekstrartekjum lögaðila beri að draga hlut þeirra í lífeyrisgjöldum starfsmanna, hvort sem viðkomandi starfsmenn eru eigendur eða ekki. Höfnun frádráttar á reiknuðum hluta atvinnurekstrar í lífeyrissjóðsgjöldum einstaklinga, sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skapar misrétti milli rekstrarforma að þessu leyti. Samkvæmt þessu tel ég að heimila beri frádrátt á þeim hluta iðgjalda sem svarar hlut atvinnurekenda í Íðgjöldum af hinum frádráttarbæru launum kæranda sem nemur skylduhlut atvinnurekstrar kæranda. Ber því að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja