Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 708/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 15. gr., ákvæði til bráðabirgða IX   Lög nr. 68/1971, 11. mgr. E-liðar 7. gr.  

Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Ákvörðun söluhagnaðar — Tekjufærsla söluhagnaðar — Gildistaka skattalagabreytinga — Skattfrelsi — Bifreiðaviðskipti

Með bréfi skattstjóra, dags. 26. janúar 1982, til kæranda var boðað að opinber gjöld yrðu endurákvörðuð til hækkunar og segir m. a. í bréfinu:

„Á skattframtali yðar 1979 óskíð þér eftir frestun á söluhagnaði um tvenn áramót sbr. 11. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971. Þar sem þér hafið ekki fullnægt ofangreindri lagagrein, hækka tekjur yðar á skattframtali 1981 um 686 209 kr., sem er framreiknaður söluhagnaður sbr. 26. gr. laga nr. 75/1981.“

Skattstjóri gaf frest til að koma að andmælum eða skýringum, en þar eð svar barst ekki kom hin boðaða breyting til framkvæmda með bréfi dags. 11. maí 1982.

Umboðsmaður kæranda kærði þessa breytingu með bréfi dags. 7. júní 1982. Segir þar m. a. að þar sem hagnaður af sölu bifreiða sé ekki skattskyldur, sbr. 15. gr. laga nr. 75/1981, samrýmist skattlagning þessi ekki núgildandi lögum. Jafnframt er bent á, að í lögum nr. 68/ 1971, þar sem söluhagnaður bifreiða hafi verið skattskyldur, séu engin ákvæði um framreikning söluhagnaðar. Hins vegar séu ákvæði um slíkan framreikning í lögum nr. 75/ 1981, en í þeim lögum sé söluhagnaður bifreiða skattfrjáls. Hér sé því um ákveðið ósamræmi ''að ræða hjá skattstofu við hækkun tekna vegna fyrrgreinds söluhagnaðar.

Með úrskurði uppkveðnum 16. júní 1982 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að kærandi hafi ekki aflað sér fyrnanlegra eigna innan þeirra tímamarka er kveður á um í 11. mgr. E-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971, til fyrningar á móti áðurnefndum söluhagnaði. Þá sé ljóst, að skattlagningu greinds söluhagnaðar beri að haga samkvæmt skýrum reglum bráðabirgðaákvæðis IX í lögum nr. 75/1981, enda sé það ákvæði gagngert sett til úrlausnar um, hvernig skuli fara með söluhagnað þann, sem frestað hafi verið skattlagningu á samkvæmt ákvæðum eldri tekjuskattslaga.

Í kæru til ríkisskattanefndar er krafist niðurfellingar á hækkun skattstjóra með svofelldum rökstuðningi:

„Samkvæmt núgildandi lögum eru engin ákvæði um skattlagningu söluhagnaðar bifreiða. Engin ákvæði eru heldur um frestun slíks hagnaðar eða yfirfærslu hans á aðrar eignir.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði IX í lögum nr. 75/1981 er heimilt að fyrna eignir skv. 32. gr. sömu laga á móti skattskyldum söluhagnaði. I þeim tilvikum sem lögin heimila frestun söluhagnaðar er ýmist gert ráð fyrir heimild til fyrninga á móti söluhagnaði eða heimild til lækkunar á stofnverði.

Skattlagning söluhagnaðar einkabifreiða með þeim hætti sem úrskurður skattstjóra ákveður er ekki í samræmi við núgildandi skattalög sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Skattlagningin er einnig í algjörri andstöðu við meginefni og tilgang laganna, en með þeim er leitast við að skattleggja ekki „verðbólguhagnað“. Hér er hins vegar eingöngu um slíkan hagnað að ræða.“

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi dags. 25. ágúst 1982 lögð fram svohljóðandi kröfugerð í málinu:

„Í ákvæði til bráðabirgða nr. IX eru skýr fyrirmæli um hvernig fara skuli með söluhagnað skv. eldri skattalögum og ekki hefur verið tekjufærður í árslok 1978.

Eigi verður annað séð en að meðferð skattstjóra á téðum söluhagnaði sé í samræmi við fyrrgreint lagaákvæði.

Það er eigi á valdsviði skattyfirvalda að meta sanngirni lagasetninga á sviði skattamála, heldur ber aðila að leita til dómstóla landsins varðandi slík úrlausnarefni.

Að virtu framangreindu krefst ríkisskattstjóri staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til framangreinds lagaákvæðis.“

Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja