Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 50/1981

Gjaldár 1979

Reglugerð nr. 245/1963, C-liður 35. gr.   Lög nr. 68/1971, E-liður 12. gr., 15. gr.  

Fyrnanleg eign — Jarðfræðingur — Vísindatæki — Frádráttur vegna vísinda- og sérfræðistarfa — Fyrning

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.

Málavextir eru þeir, að kærandi hafði fært til frádráttar í skattframtali sínu árið 1979 fyrningu tækja og áhalda, 50 000 kr. Með bréfi dags. 26. júlí 1979 tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrningarfrádráttur þessi hefði verið felldur niður, þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að hin fyrndu áhöld og tæki væru þáttur í öflun tekna. Þessari breytingu mótmælti kærandi með bréfi dags. 21. ágúst 1979. Kvað hann tæki þau og áhöld, er um væri að ræða, vera nauðsynleg við ýmsa þætti starfs síns sem jarðfræðings við X. Hér væri um að ræða m. a. hæðarmæli, áttavita, sjónauka, myndavél, ýmiss konar hlífðarfatnað, bakpoka, gönguskó, tjald o. fl. Munir þessir væru í persónulegri eigu hans og þægi hann ekki þóknun eða leigu fyrir afnot þeirra í þágu vinnuveitanda. Með úrskurði dags. 10. október 1979 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á svofelldum forsendum:

„Þar sem kærandi er launamaður og engin gögn fylgja með kæru, um skyldur hans um framlag sértækja við vinnu, annarra en bifreiðar sem aukalega er greitt fyrir, verður svo að álfta að hlutir svo sem bakpoki, gönguskór, hlífðarfatnaður og fl. sem talið er upp í kæru séu venjulegir hlutir við störf, sem gefi ekki tilefni til afskrifta.“

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 30. október 1979 og krefst hann þess að ákvörðun skattstjóra verði hrundið og hinn umdeildi liður verði leyfður til frádráttar að fullu, Vísar kærandi kröfu sinni til stuðnings til skýringa og röksemda í bréfi til skattstjóra.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu með bréfi dags. 29. desember 1980 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Á það er fallist með skattstjóra að eigi sé hér um að ræða fyrnanlegar eignir skv. ákvæðum skattalaga. Svo sem starfi kæranda er háttað þykir hann á hinn bóginn eiga rétt á nokkrum frádrætti samkvæmt E-lið 12. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. C-lið 35. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi hefur eigi lagt fram gögn um áhaldakaup sín. Með því að tilgreind fjárhæð er innan hóflegra marka þykir eftir atvikum mega fallast á hana.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja