Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 56/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 112/1978, 5. gr.  

Sérstakur eignarskattur — Sendiráð — Stjórnsýsla — Notkun fasteignar

Kærð er álagning sérstaks skatts skv. lögum nr. 112/1978, um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.

Á kæranda var lagður í skattskrá árið 1979 sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði að fjárhæð 690 000 kr. Var byggt á stofni að fjárhæð 49 356 000 kr., en skattframtali kæranda árið 1979 fylgdi ekki skrá sú er um getur í 5. gr. laga nr. 112/1978.

Stofn sá, er skattstjóri ákvað, var annars vegar fasteignamatsverð verslunarhúsnæðis að B í Reykjavík, 12 376 000 kr., og hins vegar skrifstofuhúsnæðis að A í Reykjavík, 36 980 000 kr.

Af hálfu kæranda var álagning þessi kærð til skattstjóra með kæru dags. 8. ágúst 1979. Með úrskurði dags. 10. október 1979 synjaði skattstjóri kærunni með því að rökstuðningur væri ekki tilgreindur. Úrskurði skattstjóra skaut umboðsmaður kæranda til ríkisskattanefndar með kæru dags. 25. október 1979, og tók þar fram að ekki hefði verið framkvæmd skipting á húseigninni að B milli verslunarhúsnæðis og íbúðarhúsnæðis. Slík skipting væri væntanleg og þess farið á leit að álagður sérstakur eignarskattur yrði umreiknaður á grundvelli hennar. Með bréfi dags. 1. nóvember 1979 gerði umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir skiptingu þessari:

„B er bæði leigður til verslunar, skrifstofu og íbúðar.

Á I. og II. hæð eru eingöngu verslun og skrifstofa ásamt geymslu tilh. versluninni. Fasteignamat þessa eignarhluta er:

Hús 16 295 000 kr., lóð 10 309 000 kr., samtals 26 604 000 kr.

Á III. og IV. hæð eru eingöngu íbúðir og þær eru leigðar út sem slíkar.

Fasteignamat þessa eignarhluta er:

Hús 16 290 000 kr., lóð 10 289 000 kr., samtals 26 579 000 kr. Hjálagt fylgir skipting þessa, gerð af Fasteignamati ríkisins.

Þess er óskað, að álagður sérstakur skattur á verslunarhúsnæði verði lækkaður á grundvelli framangreindrar skiptingar.“

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 18. nóvember 1980:

„Boðuð „Skipting“ er enn ókomin skv. bókum ríkisskattstjóra. Með vísan til þess er gerð krafa um frávísun kærunnar.“

Umrædd skipting kæranda liggur fyrir í bréfi hans til ríkisskattanefndar, dags. 1. nóvember 1979, ásamt fylgiskjali. Er bréf þetta ásamt kæru, dags. 25. október. 1979, móttekið af ríkisskattstjóra 19. febrúar 1980 svo sem staðfest er í ofangreindri umsögn hans. Eigi eru því efni til frávísunar kærunnar.

Í bréfi dags. 1. nóvember 1979 og tilkynningu um fasteignamat 1. 12.1978, er því fylgdi, er gerð grein fyrir skiptingu fasteignarinnar B í verslunar- og skrifstofuhúsnæði annars vegar og íbúðarhúsnæði hins vegar. Eftir upplýsingum þessum er húsnæði það sem nýtt var til skrifstofu- og verslunarrekstrar í árslok 1978 samtals að fasteignamatsverði ásamt tilheyrandi lóð 26 604 000 kr. í bréfi til ríkisskattanefndar, dags. 22. desember 1980, tekur umboðsmaður kæranda fram, að eignarhluti kæranda í húseignunum nr. 49 og 51 við A, sem leigðar eru sendiráði, sé nýttur þannig, að húseignin nr. 49 sé að öllu leyti skrifstofuhúsnæði en húseignin nr. 51 alfarið íbúðarhúsnæði. Eignarhluti kæranda í húseignum þessum er 50% skv. framtalsgögnum. Fasteignamatsverð húss og lóðar húseignarinnar nr. 49 við A nemur 36 980 000 kr. eða að hlut kæranda 18 490 000 kr. Eftir 'öllu framangreindu þykir bera að ákveða kæranda sem stofn til hins sérstaka skatts skv. lögum nr. 112/1978 45 094 000 kr., þ. e. a. s. 50% fasteignarinnar nr. 49 við A 18 490 000 kr. og hinn skattskylda hluta fasteignarinnar nr. 84 við B 26 604 000 kr. skv. framlagðri skiptingu kæranda. Verður hinn sérstaki skattur samkvæmt þessu 631 000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja