Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 84/1981

Gjaldár 1979

Reglugerð nr. 245/1963, 1. mgr. 23. gr.   Lög nr. 68/1971, 3. mgr. 18. gr.  

Landbúnaður — Bústofn — Málamyndaeign — Tekjur barna — Skyldulið framteljanda — Tekjudreifing

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979. Kæruefni er sem hér greinir: Samkvæmt landbúnaðarskýrslu fyrir árið 1978, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1979, námu hreinar tekjur af búrekstri 10 301 624 kr. Kærandi rekur fjárbú og nam sauðfjáreign í árslok 1978 554 gripum. Gjaldfærð vinnulaun við búreksturinn voru samkvæmt landbúnaðarskýrslu 369 254 kr. Hreinum tekjum búsins skipti kærandi svo í landbúnaðarskýrslu: Eigin hlutdeild í hreinum tekjum 6 835 239 kr., hlutdeild sonar kæranda B f. 10.10. 1958 1 296 086 kr., hlutdeild dóttur kæranda R f. 02.11. 1959 961 435 kr. og hlutdeild annarra barna kæranda 1 208 864 kr. Á landbúnaðarskýrslu eru af heildarsauðfjáreign tilgreindar sem eign B 60 ær, R 55 ær og annarra barna 65 ær.

Skattstjóri hækkaði tekjur kæranda um 1 182 522 kr. á þeim forsendum að greiðslur til þeirra barna kæranda, er voru orðin 16 ára, teldust óhæfilega háar miðað við þann tíma er þau hefðu getað unnið við búið. Var hér um að ræða B og R. Samkvæmt framkomnum upplýsingum kæranda hefði B unnið að bústörfum í tæpa tvo mánuði, en annan tíma ársins verið í skóla og við vinnu fjarri heimili. Skattstjóra þótti hæfilegt að meta laun hans við búreksturinn á 725 000 kr. R væri talin vinna að bústörfum í 45 daga, en annan tíma ársins hefði hún verið í skóla og við vinnu hjá V. Taldi skattstjóri hæfilegt að telja laun R 350 000 kr.

Í úrskurði sínum tekur skattstjóri fram, að hvort sem litið væri á framangreindar greiðslur til nefndra barna kæranda sem ágóðahlut af sameignarbúi eða sem launagreiðslur, væri óhjákvæmilegt að gera þessar breytingar. Vitnaði skattstjóri ákvörðun sinni til stuðnings til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, varðandi óvenjuleg skipti í fjármálum svo og 1. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem tekið sé fram um reiknað kaup til skylduliðs framteljanda, að það skuli vera sannanlegt, að hið reiknaða kaup sé ekki hærra en nauðsynlegt hefði verið að greiða öðrum fyrir jafnmikla vinnu.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 12. nóvember 1979, og krefst þess að breytingum skattstjóra verði hrundið. Kærandi mótmælir því áliti skattstjóra, að hlutur barna hans, B og R, í tekjum búsins sé of hár, hvort sem litið sé á hann sem kaup eða ágóðahlut. Ef líta bæri á hluti þessa sem kaup, sem kærandi telur að ekki eigi að gera, álítur kærandi að mat skattstjóra sé alltof lágt. Horfa beri m. a. til þess að störfin séu leyst af hendi á mestu álagstímum, þ. e. a. s. um sauðburð, heyannir og göngur. Þá bendir kærandi á, máli sínu til stuðnings, að hann hafi þurft að greiða 36 000 kr. á dag vegna aðkeyptrar vinnu eins manns við sauðburð. Sé því mat skattstjóra á kaupi B 13 000 kr. á dag afar hæpið.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu með bréfi dags. 12. desember 1980 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Svo sem fram kemur hér að framan eru umrædd börn kæranda eigendur að allnokkrum hluta bústofnsins og hafa fært þessa bústofnseign til eignar á skattframtölum sínum árið 1979, er fyrir liggja í málinu, svo og hinar umþrættu fjárhæðir til tekna sem hreinar tekjur af atvinnurekstri skv. landbúnaðarskýrslu. Eigi hefur því verið haldið fram að hér sé um málamyndaeign að ræða eða brigður bornar á hana að öðru leyti. Þegar litið er til skiptingar hreinna tekna af búrekstrinum og virt eru gögn málsins, þ. m. t. landbúnaðarskýrsla kæranda fyrir árið 1978, þykja þau eigi geta gefið tilefni til að ætla að kærandi í máli þessu hafi vanreiknað hlutdeild sína í hreinum tekjum af búrekstrinum. Einnig þykir bera að líta til þess að nefnd börn kæranda hafa ekki verið krafin skýringa og eftir atvikum gagna um vinnuframlag sitt og önnur þau atriði sem varða búrekstur þann sem í máli þessu greinir. Af framangreindum ástæðum er fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja