Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 241/1992

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981 — 95. gr. 2. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Síðbúin framtalsskil, ítrekuð — Áætlun — Áætlun skattstofna — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Sönnun — Sönnunarbyrði — Frávísun — Frávísun vegna vanreifunar — Sjónarmið, sem stjórnvaldsákvörðun er byggð á — Lögmæt sjónarmið

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1990. Kæruefnið er álagsbeiting skattstjóra vegna síðbúinna framtalsskila.

Málavextir eru þeir, að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1990. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990 áætlaði skattstjóri því kærendum skattstofna til álagningar gjaldanna. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kærenda árið 1990 barst skattstjóra hinn 28. ágúst 1990. Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru og kvað upp kæruúrskurð hinn 21. september 1990, þar sem hann féllst á að byggja álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990 á framtalinu að leiðréttri hlutabréfaeign og að viðbættu 25% álagi á skattstofna samkvæmt framtalinu vegna hinna síðbúnu framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Til stuðnings álagsbeitingunni vísaði skattstjóri til þess, að skattframtöl tveggja síðustu ára hefðu verið síðbúin. Skattframtal árið 1988 hefði borist 29. september 1988 og skattframtal árið 1989 hefði borist 5. september 1989.

Í bréfi, dags. 11. október 1990, til skattstjóra mótmæltu kærendur álagsbeitingunni. Kom þar fram það sjónarmið, að skattframtöl fyrri ára væru afgreidd mál og framtal árið 1990 væri fyrr fram komið en venjulega eða í kærufresti til skattstjóra. Á þeim forsendum var farið fram á niðurfellingu álagsins að þessu sinni. Bréf þetta framsendi skattstjóri ríkisskattanefnd með bréfi, dags 25. október 1990, sem kæru til nefndarinnar.

Með bréfi, dags. 17. september 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Skattframtal kærenda árið 1990 barst ekki fyrr en í kærufresti til skattstjóra. Bætti skattstjóri 25% álagi við skattstofna samkvæmt framtalinu vegna síðbúinna framtalsskila eftir heimildarákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þessa ákvörðun sína studdi skattstjóri við það, að framtalsskil fyrri ára hefðu verið síðbúin, sbr. hinn kærða úrskurð, dags. 21. september 1990, og er enginn ágreiningur um þau tímamörk framtalsskila, sem þar koma fram. Var rétt af skattstjóra að líta til þessara atriða við ákvörðun um álagsbeitingu. Að þessu athuguðu og þar sem kærendur hafa enga grein gert fyrir ástæðum fyrir því, að framtalsskil þeirra árið 1990 drógust úr hömlu, verður hin kærða álagsbeiting látin óhögguð standa að svo stöddu. Rétt þykir að vísa kærunni frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja