Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 146/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 3. mgr. 18. gr.  

Lán — Lánskjör — Afbrigðileg viðskipti — Félagsslit — Sönnun — Skattskyldar tekjur — Sönnunarbyrði

Kærð eru álögð gjöld gjaldárið 1979.

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 5. júní 1979 tilkynnti skattstjóri kæranda að með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 68/1971 þyrfti að ákvarða félaginu tekjur þar eð nokkrir aðilar nytu vaxtalausra lána hjá því. Slík lánakjör væru verulega frábrugðin því sem almennt gerðist.

Í svarbréfi kæranda kemur fram að verið sé að ganga frá slitum á félaginu og skuldir þær sem málið snýst um séu greiðslur til eigenda upp í eignarhlut þeirra í félaginu en félagið er sameignarfélag.

Skattstjóri taldi þessa skýringu kæranda ófullnægjandi og tilkynnti honum að tekjur hans hefðu verið hækkaðar um 4 000 000 kr. Þessa ákvörðun staðfesti hann síðar með úrskurði uppkveðnum þann 28. desember 1979.

Í kæru til ríkisskattanefndar er þess krafist að teknahækkun verði felld úr gildi og vísað í gefnar skýringar. Jafnframt leggur umboðsmaður kæranda fram skiptareikning um slit á félaginu árið 1979.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi dags. 17. nóvember 1980 gerð svofelld krafa: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“ Eins og málið liggur fyrir er ekki sýnt að heimild hafi verið til teknahækkunar þeirrar er skattstjóri gerði kæranda.

Krafa kæranda er því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja