Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 244/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 95. 1. mgr. 3. ml.  

Rekstrarkostnaður — Vinnufatakostnaður — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Hljómlistarmaður — Hljómsveitarfatnaður — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Eigin atvinnurekstur — Frádráttarheimild

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 26. júlí 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans 1990, að gjaldaliðurinn „fatnaður“ að fjárhæð 67.486 kr. á rekstrarreikningi, sem fylgdi framtalinu, hefði verið felldur niður, þar eð hann teldist eigi vera til öflunar tekna í atvinnurekstri samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981 og væri því ófrádráttarbær. Í kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1990, var breytingu þessari mótmælt, en skattstjóri synjaði kærunni með úrskurði, uppkveðnum 17. desember 1990, og var það mat skattstjóra, að kærandi hefði ekki gert þá grein fyrir umræddum gjaldalið að unnt væri að fallast á, að hann væri frádráttarbær rekstrargjöld í skilningi 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Umboðsmaður kæranda skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 15. janúar 1991, og segir þar m.a.:

„Umbjóðandi minn spilar í hljómsveitum og verður að kosta sinn hljómsveitafatnað sjálfur. Fatnaður þessi er stór hluti við öflun teknanna og nýtist alls ekki nema við öflun þeirra.

Þar sem hljómsveitir eru sífellt að koma og fara, þá verður þetta töluverður útgjaldaliður á hverju ári.

Ég fer því fram á það að gjaldaliður þessi verði óbreyttur látinn standa í rekstrarreikningi umbjóðanda míns fyrir árið 1989.“

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 22. maí 1991, gerð sú krafa, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta, enda þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á, að hinn umdeildi kostnaðarliður sé frádráttarbær í skilningi 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja