Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 243/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., 96. gr., 99. gr., 100. gr.  

Tortryggilegt skattframtal — Meðalálagning — Reiknað endurgjald — Áætlun — Kæra — Kærufrestur — Síðbúin kæra

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980 og þess krafist, að skattframtal það, er sent var skattstjóra, verði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar áður með þeirri breytingu, að eiginmanni verði áætlað endurgjald vegna vinnuframlags hans á árinu 1979, en ekki meira en 1 200 000 - 1 500 000 kr. fyrir tímabilið janúar — júní þess árs vegna lélegrar heilsu hans þá, sbr. bréf umboðsmanns kæranda dags. 19. mars 1981.

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts í framtalsfresti gjaldárið 1980 og voru því gjöld áætluð. Skattframtöl bárust skattstjóra þann 18. júlí 1980 og voru þau tekin sem skattkærur.

Þann 28. nóvember 1980 kvað skattstjóri upp kæruúrskurði í tilefni af kærunum. Var framtali eiginmanns hafnað á þeim forsendum m. a. að hann hefði ekki reiknað sér endurgjald vegna starfa sinna við eigin atvinnurekstur og meðalálagning á seldum vörum í verslun hans hefði numið um 14,27% samkvæmt rekstrarreikningi ársins 1979. Af sömu ástæðum var framtali eiginkonu hafnað.

Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur úrskurðum skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 29. desember 1980, og fylgdi henni frekari rökstuðningur með bréfum dags. 21. janúar og 19. mars 1981, í bréfi sínu frá 29. desember 1980 bendir umboðsmaður kærenda á að þótt kærufrestur til ríkisskattanefndar hafi runnið „út í gær, þann 28. desember en þar sem sá dagur var sunnudagur“ þá vænti hann þess að kæran verði tekin til greina. Til stuðnings kröfum sínum bendir umboðsmaður kærenda m. a. á eftirfarandi í bréfi sínu dags. 21. janúar 1981:

„Í bréfi Skattstofunnar er á það bent að einu tekjur A á árinu 1979 hafi verið kr. 2023 000,- kr. frá B h. f. Hér hafi átt sér stað mistök við framtalningu þar sem A var atvinnulaus fram til 1. júlí 1979. Á þeim tíma vann hann töluvert í söluturninum og hefði að sjálfsögðu átt að reikna honum endurgjald vegna starfa þar. Einnig er á það bent að meðalálagning seldrar vöru hafi ekki veríð nema ca. 14,27%. Í útreikningi á vörubirgðum í árslok 1979, sbr. fylgirit nr. 5 með skattframtali 1980, er reiknað með 17% álagningu. Áætlun meðalálagningar ákveður umbjóðandi minn samkvæmt því sem hann taldi vera. Álagning þessi er að sjálfsögðu mjög lág. í raun það lág að eitthvað hlaut að hafa verið að í rekstrinum. Enda gafst umbjóðandi minn upp á rekstri söluturnsins þann 30. júní 1980, vegna þess að rekstur hans gaf ekkert af sér. Hver ástæðan er fyrir þessari lélegu útkomu og álagningu, getur umbjóðandi minn ekki gert sér grein fyrir, þó að hann hafi á sínum tíma látið sér detta ýmislegt í hug og reynt að laga það. Tilraunir til að laga þennan lélega rekstur mistókust algjörlega svo hann gafst endanlega upp eins og fyrr segir.

Ein skýring liggur þó fyrir hvað varðar lága álagningu. Hún er hið ótrúlega háa hlutfall tóbakskaupa í heildar vörukaupum. Tóbakskaup voru rúmlega 47% af heildarvöruinnkaupum ársins 1979.“

Af hálfu ríkisskattstjóra er í bréfi dags. 2. mars 1981 þess krafist að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún virðist of seint fram komin.

Eftir atvikum er kæra umboðsmanns kærenda tekin til efnismeðferðar.

Á það þykir verða að fallast með skattstjóra að meðalálagning á seldum vörum í verslun kæranda á árinu 1979 samkvæmt rekstursreikningi þess árs sé óeðlilega lág. Þykja eigi hafa komið fram viðhlítandi skýringar á því af hverju hin lága meðalálagning stafar, en kærandi taldi ekki fram til skatts árið 1979. Sú fullyrðing að seldar tóbaksvörur hafi verið hátt hlutfall í heildarvörukaupum á árinu 1979, er eigi einhlít skýring á álagningu þessari. Að þessu virtu svo og því að eiginmaður hefur eigi reiknað sér eigin laun á viðhlítandi hátt, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir eigi fært að verða við kröfum hans. Á hitt er að líta að þegar gögn málsins eru virt þykja áætlanir skattstjóra hafa verið úr hófi. Þykja gjaldstofnar hæfilega áætlaðir sem hér greinir......................

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja