Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 298/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 32. gr.  

Fyrnanleg eign — Bifreið — Einkanot

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts á réttum tíma árið 1980. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda. Með bréfi dags. 28. ágúst 1980 sendi umboðsmaður kæranda skattframtal hans árið 1980 með kröfu um að það yrði lagt til grundvallar í stað áætlunar skattstjóra. Með úrskurði dags. 7. nóvember 1980 féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu í stað áætlunar áður með svofelldri breytingu:

„Fólksbifreið, sem notuð er í rekstri og er einkabifreið telst ekki samkv. skattalögum og fyrirmælum ríkisskattstjóra til fyrnanlegs lausafjár samkv. 32. gr. Verður því bifreiðin færð til eigna á kaupverði í reit E 2 en felld niður á efnahagsreikningi ásamt endurmati og rekstursreikningur leiðréttur um fyrningu bifreiðarinnar.“

Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 13. nóvember 1980 og krefst þess að ákvörðun skattstjóra varðandi ofannefnda bifreið verði hrundið. Kærandi stundi sjálfstæðan atvinnurekstur, er sé smásöluverslun. Bifreiðina noti hann í mörgum tilvikum til innkaupa á vörum fyrir verslunina. Vörum sé og ekið til viðskiptavina og sé bifreiðin notuð til þeirra þarfa. Þá sé bifreiðin notuð til þess að aka sorpi á hauga. Auk aksturs í þágu verslunarinnar noti kærandi bifreiðina til einkaþarfa. Verði því að telja að bifreiðin sé notuð í atvinnurekstri og falli undir 32. gr. gildandi skattalaga. Er þess því krafist að skattframtal kæranda verði tekið til álagningar óbreytt og breyting skattstjóra felld niður.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 18. mars 1981:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Röksemdir:

Bifreið kæranda er Saab-fólksbifreið, árgerð 1978. Kæranda bar að skila sérstakri greinargerð um notkun bifreiðarinnar með framtali. Það hefur hann ekki gert.

Á eyðublaði til sérstakrar greinargerðar útbúnu af ríkisskattstjóra og útgefnu í apríl 1980 „Rekstraryfirlit fólksbifreiðar sem eigi er heimilt að endurmeta og notuð er bæði til einkaafnota og við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi manns. Fylgiskjal með skattframtali 1980“ eru fyrirmæli og leiðbeiningar, sem snerta kæruefnið, þessar:

„Á eyðublað þetta skal færa rekstrarkostnað fólksbifreiða sem eigi er heimilt að endurmeta og fyrna, þar eð fólksbifreiðin telst ekki vera atvinnurekstrartæki manns en þó notuð að hluta við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi hans. Til fólksbifreiða í þessu sambandi teljast skutbifreiðar (station), sendiferðabifreiðar fyrir fleiri farþega en tvo auk ökumanns svo og jeppar“

Um skilyrði þess að endurmeta megi fólksbifreið eins og þá sem kærandi rekur, segir svo í áður tilvitnuðum fyrirmælum ríkisskattstjóra:

„Færi maður rök að því að fólksbifreið, sem annars væri eigi heimilt að endurmeta, sé eingöngu notuð við atvinnurekstur hans, t. d. bifreiðin sé talin nauðsynleg til flutnings á starfsmönnum og vinnuáhöldum milli vinnustaða, má fallast á að bifreiðin verði endurmetin, enda sé ekki um önnur einkaafnot að ræða en akstur milli heimilis og vinnustaðar eiganda eða ökumanns.“

Umboðsmaður kæranda lýsir notkun bifreiðar þannig:

„Bifreið sína notar hann í mörgum tilvikum til innkaupa á vörum fyrir verslun sína. Hann keyrir út vörur til sinna viðskiptavina, og notar til þess umrædda bifreið. Allar umbúðir og annan úrgang keyrir hann á haugana og notar til þess bifreið sína. Auk þess er bifreiðin notuð til hans einkaþarfa.“

Ljóst er af framantöldu að skilyrðum til að færa bifreið kæranda á framtal 1980 með sama hætti og atvinnurekstrartæki voru ekki fyrir hendi.

Með vísan til ofanritaðs er gerð krafa um staðfestingu á hinum kærða úrskurði.“

Þegar litið er til atvinnurekstrar kæranda og þarfar slíks rekstrar almennt fyrir slíka bifreið er hér um ræðir, verður að ætla að bifreiðin sé að verulegu leyti notuð til einkaþarfa kæranda. Er því á það fallist með skattstjóra að eigi geti hér verið um fyrnanlega eign að ræða eftir 32. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Í ljósi þessarar niðurstöðu og með tilliti til þess að framtalsgerð kæranda var hagað að því er varðar bifreið þessa svo sem um fyrnanlega eign væri að ræða og skipting heildaraksturs í þarfir verslunar og einkaþágu liggur því eigi fyrir, verður eigi tekin afstaða til þess, hversu mikill hluti heildarbifreiðarkostnaðar kæranda komi til frádráttar á rekstrarreikningi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja