Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 323/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 96. gr.   Lög nr. 14/1980   Lög nr. 62/1979  

Landflutningasjóðsgjald — Vöruflutningar — Landflutningasjóður — Málsmeðferð áfátt

Kærð er álagning gjalds samkvæmt lögum nr. 62, 31. maí 1979, um Landflutningasjóð, sbr. lög nr. 14, 14. apríl 1980, um breytingu á þeim lögum.

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 16. október 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda, að samkvæmt 4. gr. ofannefndra laga bæri skattstjóra að leggja á félagsmenn í Landvara 1% gjald til Landflutningasjóðs á sama stofn og aðstöðugjald væri á lagt. Aðstöðugjaldsstofn væri samkvæmt skattframtali árið 1980 6 692 000 kr. og yrði gjald til Landflutningasjóðs því 66 416 kr. (sic). Kærufrestur var veittur 30 dagar frá dagsetningu bréfsins. Með kæru dags. 10. nóvember 1980, er barst skattstjóra 12. s. m., fór kærandi þess á leit að álagningin yrði endurskoðuð. Taldi kærandi sig ekkí eiga að greiða gjald þetta, þar sem hann hafði ekki hafið rekstur flutningabifreiðar á leiðinni Akureyri — Reykjavík fyrr en um áramótin 1979/1980 og eigi gerst félagsmaður í Landvara fyrr en um mitt ár 1980. Tekjur á árinu 1979 væru vegna rekstrar vörubifreiðar á Akureyri. Boðað var að staðfesting um félagsaðild að Landvara yrði send síðar.

Með úrskurði dags. 15, janúar 1981 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að kærandi væri tilgreindur sem félagsmaður í Landvara á lista yfir félagsmenn í umdæminu í árslok 1979 frá ríkisskattstjóra, samkvæmt svari samgönguráðuneytisins. Væri álagningin byggð á þessum upplýsingum, enda hefði boðuð staðfesting ekki borist.

Úrskurði skattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 11. febrúar 1981, og krefst þess að álagning gjalds þessa verði felld niður. Með kærunni fylgdi vottorð Landvara, dags. 22. janúar 1981, þess efnis að kærandi hefði gengið í Landvara í apríl 1980, en hafið skipulagsbundna vöruflutninga um áramótin 1979/1980. Þau mistök hefðu orðið að þegar félagatal Landvara var sent skattyfirvöldum sumarið 1980, hefði þess ekki verið getið, að kærandi stundaði ekki vöruflutninga á árinu 1979, og því ekki gjaldskyldur til sjóðsins vegna starfsemi þess árs. Þá fylgdi kærunni staðfesting V hf., ódagsett, um að kærandi hefði hafið vöruflutninga á leiðinni Reykjavík — Akureyri 1. janúar 1980.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 30. mars 1981:

„Fallist er á kröfur kæranda með vísan til nú framkomins vottorðs frá Landvara, dagsetts 22. 01. 1981, og ódagsetts vottorðs V hf.“

Það er að athuga við málsmeðferð skattstjóra, að þess var eigi gætt að veita kæranda kost á að gæta hagsmuna sinna og koma að athugasemdum sínum, skýringum og gögnum, áður en honum var ákvarðað hið umdeilda gjald til Landflutningasjóðs, en breyting þessi vár gerð eftir að álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1980 á kæranda var lokið. Að virtum framlögðum gögnum þykir sýnt, að kærandi hafi ekki verið gjaldskyldur samkvæmt lögum nr. 62/1979, sbr. lög nr. 14/1980, á árinu 1980. Með tilvísun til framanritaðs er fallist á kröfur kæranda og hið kærða gjald niður fellt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja