Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 331/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 63. gr., 81. gr.  

Óvígð sambúð — Lögheimili — Sönnun — Sönnunargögn — Sambýlisfólk — Sératkvæði

Kærð er álagning opinberra gjalda 1980.

Á skattframtali kæranda 1980 er svohljóðandi athugasemd: „Hefur alfarið á framfæri sínu, unnustu H og barn þeirra E, um sambúð getur ekki verið að ræða v/vöntunar á húsnæði. Ónýttur pers. afsl. H óskast færður á framteljanda, sjá framtal H.“

Skattstjóri tók þessa beiðni ekki til greina. Var álagning opinberra gjalda því kærð og ítrekuð krafa um skattlagningu sem hjón. Er sérstaklega tekið fram í kærunni, að þrátt fyrir að hvort hafi sína heimilisfesti, kærandi og H, í opinberri skráningu, þá hafi um raunverulega sambúð verið að ræða og hafi þau haldið heimili hjá föður H að X-bæ. í kæru til skattstjóra liggur fyrir staðfesting föður konunnar, J, um þetta efni. Síðan segir, að kærandi og H hyggi á sjálfstætt heimilishald á næstunni og hafi þau fest kaup á íbúð í því skyni, sbr. ljósrit af kaupsamningi sem fylgi með kærunni.

Skattstjóri synjaði kærunni með þeim rökstuðningi, að til þess að samsköttun geti átt sér stað, þurfi viðkomandi aðilar að eiga sama lögheimili.

Kærandi skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 29. október 1980. Eru þar ítrekaðar fyrri kröfur. Telur kærandi að meira beri að leggja upp úr hinni raunverulegu sambúð, heldur en hinni formlegu skráningu aðilanna, þar sem sambúðarform, sem hér um ræðir, hljóti að teljast í hæsta máta eðlilegir sambúðarhættir hjónaefna og hrein forsenda þess, að unnt kunni að vera að koma sér upp frambúðarheimili, af hreinum fjárhagslegum ástæðum. Kærandi áréttar síðan sérstaklega, að unnusta hans hafi engar atvinnutekjur haft á umræddu skattári og hafi því alfarið verið á hans framfæri ásamt barni þeirra, þótt þau hafi í þessum efnum notið aðstoðar væntanlegra tengdaforeldra hans svo sem altítt sé á þessum stigum málsins.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi dags. 29. desember 1980 gerðar svofelldar kröfur:

„Skv. 63. gr., 3. mgr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt geta karl og kona sem búa saman í óvígðri sambúð óskað skriflega eftir því að vera skattlögð sem hjón. Skilyrði er þó að aðilar eigi sameiginlegt lögheimili. Af gögnum málsins má sjá, að kærandi og sambýliskona hans hafa ekki átt sameiginlegt lögheimili og verður því að staðfesta úrskurð skattstjóra með vísan til forsendna hans.“

Atkvœði meirihluta.

Eigi er vefengt í máli þessu, að kærendur búi saman í óvígðri sambúð og uppfylli þau skilyrði, sem sett eru í 63. gr. og 81. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, fyrir því, að sambýlisfólk geti hlotið skattmeðferð sem hjón, utan sameiginlegt skráð lögheimilisfang, er einvörðungu sýnist deilt um. Eigi verður litið á skilyrði laganna um sama lögheimili á annan hátt en þann, að því sé ætlað ásamt Öðru að tryggja sem öruggastar sönnur fyrir því að um óvígða sambúð sé að ræða. í þessu máli þykja þær sönnur liggja fyrir með framlögðum gögnum og yfirlýsingum kæranda, er eigi hafa verið vefengdar, að kröfur kæranda þykir mega taka til greina.

Atkvœði minnihluta.

Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til 5. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1978.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja