Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 434/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 2. mgr. 1. tl. A-liðs7. gr., 1. mgr. 95. gr., 1. og 3. mgr. 96. gr., 1. mgr. 100. gr.  

Kærufrestur — Komudagur kæru — Póstlagningardagur kæru — Kæra — Reiknað endurgjald — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan — Breytingarheimild skattstjóra

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1980 að hækka reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur úr 4 800 000 kr. í 6 400 000 kr.

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði skattstjóra undirrituðu og staðfestu skattframtali í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda á árinu 1980. Með bréfi dags. 25. júlí 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda, að hann hefði ákvarðað honum laun við eigin atvinnurekstur, 6 400 000 kr., og vísaði hann í því sambandi til 1. mgr. 59. gr. laga nr. 40/ 1978, um tekju- og eignarskatt. Kvað skattstjóri fjárhæð þessa styðjast við þær viðmiðunarreglur, sem ríkisskattstjóri hefði sett skattstjórum um lágmarksendurgjald, sem mönnum er ynnu við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi bæri að telja sér til tekna samkvæmt 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laganr. 40/1978, sbr. 1. mgr. 59. gr. sömu laga. Jafnframt tilkynnti skattstjóri að eftir þessa breytingu á skattframtalinu, sem gerð væri með heimild í 95. gr. laga nr. 40/1978, reiknaðist tap af atvinnurekstri kæranda 2 986 094 kr., er færðist yfir til næsta reikningsárs. í niðurlagi tilkynningarinnar gat skattstjóri þess, að hygðist kærandi gera athugasemdir við þessar breytingar á skattframtali 1980, þyrftu þær að hafa borist innan lögskilins kærufrests og yrðu athugasemdir þá teknar sem skattkæra. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1980 var nefnt skattframtal að gerðum þessum breytingum lagt til grundvallar álagningu.

Með kæru dags. 27. ágúst 1980 mótmælti umboðsmaður kæranda þeim breytingum er skattstjóri hafði gert og taldi að með tilliti til aldurs og starfsgetu væri reiknað endurgjald tilfært í skattframtali hæfilegt. Vísaði umboðsmaðurinn til 59. gr. laga nr. 40/1978, þar sem m. a. væri kveðið á um, að gætt skyldi aðstöðu aðila, aldurs, heilsu, starfstíma o. s. frv. Óeðlilegt væri að byggja á fullri starfsorku í tilviki kæranda.

Skattstjóri kvað upp úrskurð um kæru þessa, sem dagsettur er 17. nóvember 1980. Hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. í forsendum úrskurðarins segir svo:

„Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt skal ríkisskattstjóri árlega setja skattstjórum viðmiðunarreglur til ákvörðunar á reiknuðum launum vegna vinnuframlags manna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Þær reglur taka mið af venjulegum vinnutíma, þ. e. 40 tíma á viku allt árið að frádregnu lögbundnu sumarfríi.

Þegar vinnutími manna er sá, sem að ofan greinir og starfsgetan er óskert lítur skattstjóri svo á, að honum beri að ákvarða hin reiknuðu laun samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra. Það er t. d. eigi á valdsviði skattstjóra að meta, hvort viðmiðunarreglurnar séu í einhverju tilviki of háar eða of lágar.

Hins vegar ber skattstjóra að víkja frá nefndum viðmiðunarreglum í ákveðnum tilvikum. Um þetta segir orðrétt í 59. gr. laga nr. 40/1978: „Skattstjóri ákvarðar síðan tekjur þessar með hliðsjón af viðmiðunarreglunum og skal þá gætt aðstöðu viðkomandi aðila, aldurs hans, heilsu, starfstíma, umfangs starfsins og annarra atriða er máli skipta“. Skilja verður hinn tilvitnaða texta svo, að einungis þegar atvik þau, sem í honum er höfðað til, hafa í för með sér skerta starfsorku eða venjulegur vinnutími náist ekki, skuli víkja frá viðmiðunarreglunum. Aldur og einhver heilsubrestur valda því ekki sjálfkrafa að víkja beri frá þeim. Það gerist einungis þegar aldurinn og heilsubresturinn hafa áhrif á vinnutímann eða vinnugetuna.

Manni með óskerta starfsorku, sem vinnur venjulegan vinnutíma, þ. e. 40 stunda vinnuviku allt árið að frádregnu lögboðnu sumarleyfi, ber því að reikna laun skv. viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra. Skiptir engu máli í því sambandi þó að tekjur hans séu litlar sem engar, t. d. vegna verðfalls vöru, skemmda á framleiðslu, ills árferðis, sölutregðu, vinna fáist ekki greidd, verið sé að vinna upp nýhafna starfsemi eða verðbólga leikur atvinnurekstur grátt. Þó gætir að þessu leyti sérstöðu þegar ákvarða skal reiknuð laun bænda.

Þá skiptir það heldur ekki máli þó að tekjur séu sannanlega ekki meiri en framtal sýnir. Hér er ekki verið að reikna mönnum tekjur vegna dulinna skattsvika. í því efni er rétt að benda á, að hinar reiknuðu tekjur teljast til rekstrarkostnaðar skv. 2. mgr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 40/1978, og tap sem af þeim myndast færist framreiknað til næsta reikningsárs. Tilgangur löggjafans með lagaákvæðunum um reiknuð laun er hins vegar sá, að óháð allri afkomu manna af atvinnurekstri eða sjálfstæðri atvinnustarfsemi, skuli reikna vinnu þeirra til verðs og greiða af því skatta til hinna sameiginlegu þarfa í þjóðfélaginu.

Kæranda voru ákvörðuð laun að fjárhæð 6 400 000 kr. Sú fjárhæð miðaðist við áðurnefndar launaviðmiðunarreglur ríkisskattstjóra. Kærandi reiknaði laun sín hins vegar 4 800 000 kr.

Í kæru er höfðað til aldurs kæranda og starfsgetu og talið óeðlilegt að reikna laun hans miðað við fulla starfsorku.

Ekkert liggur fyrir um skerta starfsorku kæranda og eigi verður annað ráðið af framtalsgögnum en hann vinni fullan vinnudag. Verður því að miða reiknuð laun hans við 6 400 000 kr. Hins vegar var við hækkun reiknaðra launa eigi tekið tillit til bakfærðs bifreiðarkostnaðar, sem færður er til tekna í reit 29 á skattframtali. Skattskyldar tekjur lækka því um 387 863 kr. og yfirfæranlegt tap lækkar í 2 598 231. kr.“

Með kæru dags. 12. desember 1980 hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst þess að hækkun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi verði niður felld. Um rökstuðning er vísað til kæru til skattstjóra, dags. 27. ágúst 1980.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 27. apríl 1981 að kærunni verði vísað frá þar sem svo virðist sem hún sé of seint fram komin.

Í 2. ml. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 40/1978 segir að kærufrestur skattaðila til ríkisskattanefndar skuli vera 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra. Hinn kærði úrskurður er dagsettur 17. nóvember 1980 og liggur ekki annað fyrir en hann hafi verið póstlagður þann sama dag. Kæran, sem dagsett er 12. desember 1980, er póststimpluð 18. desember 1980. Ekki liggur fyrir hvenær kærubréfið var afhent til póstsendingar, en rétt þykir að miða komudag kærunnar til ríkisskattanefndar við þá afhendingu. Þar eð afhendingardagurinn liggur þannig ekki fyrir, þykir rétt að miða við það að hann hafi verið 17. desember 1980. Lokadagur kærufrests var 17. desember 1980. Samkvæmt framansögðu hefur kæran borist fyrir lok kærufrests og er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hrundið.

Skattstjóri fór með hina kærðu breytingu efir ákvæðum 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, en eigi eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. s. 1. Af þessum ástæðum þykir bera að fella hina kærðu breytingu úr gildi. Yfirfæranlegt rekstrartap til næsta árs verður 1 386 094 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja