Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 519/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 2. mgr. 44. gr.  

Sérstök fyrirframfyrning — Verðbreytingarfærsla — Hús í smíðum — Beinn fjármagnskostnaður — Varanlegir rekstrarfjármunir — Lögskýring

Í ársreikningi kæranda 1979 er hús í byggingu fyrnt sérstakri fyrirframfyrningu að fjárhæð 13 332 585 kr. Skattstjóri tilkynnti kæranda að þessi fyrning væri óheimil og strikaði hana út. í kæru til skattstjóra segir m. a:

„Þegar ég á sínum tíma var að reikna út fyrningar félagsins fyrir árið 1979, taldi ég að heimilt væri að fyrna varanlega rekstrarfjármuni, sem ætlaðir eru til tekjuöflunar, en ekki hafa verið teknir í notkun, sérstakri fyrirframfyrningu. Gerði ég þetta í góðri trú. Nú hefi ég hinsvegar lesið 44. gr. gildandi laga um tekju og eignaskatt betur en ég hafði þá gert, og samkvæmt því, tel ég að einungis hafi verið heimilt að fyrna umrædda eign þessari fyrirframfyrningu, um upphæð er vantaði á að tekjufærsla skv. 53. gr. væri jöfnuð. Tekjufærslan nam 12 530 596 kr. — en bifreiðar félagsins hafði ég fyrnt um helming þeirrar upphæðar sérstaklega eða 6 265 298 kr., — eftir stendur því 6 265 298 kr., — sem ég tel nú að heimilt hefði verið að fyrna D-götu 6 um sem sérstakri fyrirframfyrningu. Samkvæmt þessu áliti mínu nú, hef ég því ofreiknað fyrningar um 7 067 287 kr., — en ekki 13 332 585 kr., — sem þér í umræddu bréfi yðar talið um.“

Með vísan til þessa var þess krafist að umrædd húseign yrði fyrnd sérstakri fyrningu að upphæð 6 265 298 kr. með stoð í 441. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum.

Skattstjóri féllst ekki á kröfu kæranda og í forsendum fyrir úrskurði hans segir: „í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 40/1978 m/áorðnum breytingum, kemur skýrt fram að því aðeins sé heimilt að nota þá sérstöku fyrningu sem þessi mgr. fjallar um, að beinn fjármagnskostnaður á byggingartíma hafi verið eignfærður.

Af ársreikningum kæranda virðist ljóst að skilyrði þetta hefur ekki verið uppfyllt af hans hálfu og því ekki unnt að taka kröfu hans til greina.“

Í kæru til ríkisskattanefndar er þessum úrskurði skattstjóra mótmælt á þeirri forsendu, að sá lági fjármagnskostnaður, sem til féll, hafi verið eignfærður.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi dags. 12. júní 1981 gerð svofelld krafa: „Kærandi hefur ekki lagt fram sundurliðun og gögn varðandi gjaldfærða vexti í ársreikningum.

Meðan við svo búið stendur er sú krafa gerð að kærunni verði vísað frá í ríkisskattanefnd fyrir sakir vanreifunar af kæranda hálfu.“

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 22. gr. laga nr. 7/1980 um breyting á þeim lögum, þykir bera að skýra svo að heimild til sérstakrar fyrirframfyrningar taki til þeirra varanlegu rekstrarfjármuna, sem voru fyrir hendi í ársbyrjun og þá höfðu ekki verið teknir í notkun. Hina sérstöku fyrirframfyrningu þykir bera að reikna af fjárhæð jafn hárri fjárfestingu í nefndum rekstrarfjármunum í lok næstliðins árs. Samkvæmt þessu ákvarðast sérstök fyrirframfyrning af húseign í smíðum að D-götu 6 91 020 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja