Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 577/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978   Lög nr. 22/1956  

Heimilisfesti — Brottför — Brottflutningur — Gjaldársgjöld — Skattlagningarreglur — Lagabeiting — Álagning — Gildistaka skattalagabreytinga

Málavextir eru þeir að á árinu 1979 brugðu kærandi og eiginkona hans ásamt börnum heimilisfesti sinni hér á landi og fluttust til Svíþjóðar. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hvenær á því ári breyting þessi varð á högum þeirra, en samkvæmt upplýsingum fengnum frá Hagstofu Íslands mun það hafa orðið 15. júlí 1979.

Fyrir álagningu gjalda á árinu 1980 barst skattstjóra skattframtal frá kæranda og eiginkonu hans og er það dagsett í Svíþjóð 9. maí 1980. í því framtali gera þau grein fyrir tekjum sínum hér á landi á árinu 1979 svo og eignum sínum þann 31/12 sama ár. Með framtalinu fylgdu landbúnaðarskýrsla vegna búrekstrar kæranda svo og endurmatsskýrsla, fyrningarskýrsla, verðbreytingarfærslublað, rekstraryfirlit fólksbifreiðar og óútfyllt en undirrituð greinargerð um aðstöðugjaldsstofn. Með framtalinu fylgdi og bréf með athugasemdum og skýringum kæranda. Fór kærandi m. a. þar fram á að skattstjóri gerði nokkrar þar greindar leiðréttingar á framtalinu, þar sem hann hafði þá ekki til þess upplýsingar og gögn.

Samkvæmt framtalsgögnum kæranda stundaði hann á árinu 1979 landbúnaðarstarfsemi, en auk þess gegndu hann og eiginkona hans launuðum störfum hjá öðrum. Við brottflutning sinn af landinu brá kærandi búi og seldi bústofnseign sína utan sauðfjáreignar sem hann seldi á leigu og hluta af véla- og verkfæraeign sinni. Bújörðina keypti eiginkona kæranda með kaupsamningi dags. 1. júní 1979, en þar er tekið fram að kaupandi hafi búið á jörðinni frá fardögum 1972 og hirt arð hennar frá þeim tíma og greiðir alla skatta og skyldur af jörðinni frá dagsetningu kaupsamningsins. Þá er tekið fram í samningnum að „um sólu jarðarinnar er farið að óðalslögum, en þar segir m. a. að óðalseiganda (í þessu tilviki seljandinn) sé heimil búseta á jörðinni meðan hún kýs. Kaupverð alls hins selda er samkvæmt lögum þessum Vz fasteignamatsverð 1. jan. 1979 eða 8 075 000 kr.“ Kaupverðið skyldi greitt með þeim hætti að 1 000 000 kr. skyldi greiða við undirritun kaupsamningsins, 7 033 000 kr. þann 20, desember 1979, og eftirstöðvar með yfirtöku áhvílandi veðskulda. Auk nefndra kvaða er fram tekið í samningnum að seljandi hafi leigt börnum sínum 20 ha. land undir sumarbústaði og sé það leigt til 50 ára með fullu samþykki kaupanda. Jörð þessa leigði kærandi eftir að hann brá búi og fór af landi brott. Eru tilfærðar í landbúnaðarskýrslunni tekjur af jarðarleigu.

Með bréfi dags. 18. nóvember 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda „um álagningu gjaldársgjalda á yður fyrir áríð 1980“. Gat skattstjóri þess að gjöldin væru lögð á samkvæmt skattframtali kæranda 1980 með eftirfarandi breytingum:

„Söluhagnaður véla lækkar í 1 043 269 kr.

Reksturskostnaður bifreiðar 297 500 kr., til frádráttar.

Tekjufærsla v/verðbreytinga 2 339 659 kr.

Fyrning útihúsa til frádráttar 390 560 kr.

Fyrning ræktunar til frádráttar 117 660 kr.

Fyrning véla og tækja til frádráttar 88 432 kr.

Fyrning á móti söluhagnaði 1 043 269 kr. til frádráttar.

Fyrning á móti verðbreytingarfærslu 1 169.829 kr. til frádráttar.

Tvær síðastnefndu upphæðirnar færðar til lækkunar á bókfærðu verði fjárhúss.

Reiknuð laun af landbúnaði 1 328 476 kr.

Reiknuð laun eiginkonu af landbúnaði 2 220 000 kr.

Hreinar tekjur 0 kr.“

Með bréfi dags. 10. desember 1980 kærði kærandi álagninguna til skattstjóra og krafðist þess að hún yrði lækkuð. Með kæruúrskurði uppkveðnum 16. desember 1980 hafnaði skattstjóri kröfum kæranda að öðru leyti en því að álagður eignarskattur var lækkaður. í forsendum úrskurðarins segir:

„1. Fyrri hluta ársins 1979 stundaði kærandi búrekstur. Mismunur heildartekna og gjalda samkvæmt landbúnaðarframtali að teknu tilliti til tekna v/verðbreytinga er 3 528 476 kr. Af hálfu skattstjóra voru reiknuð laun kæranda og maka hans ákvörðuð jöfn þessari upphæð, þó þannig að hluti eiginkonu var látinn vega meira, samkvæmt beiðni kæranda í greinargerð með skattframtali. Þar sem í kærunni kemur ekki fram krafa um aðra skiptingu reiknaðra launa er kröfu kæranda samkvæmt þessum lið hafnað. 2. Tekjuskattsstofn kæranda og maka var ákvarðaður samkvæmt logum nr. 40/1978 samtals 5 595 924 kr. Samkvæmt leiðbeiningarreglum ríkisskattstjóra voru notaðir skattstigar, svo og skattprósenta og persónuafsláttur er notaðir voru við álagningu 1979. Þá var álagningin miðuð við dvalartíma á Íslandi á árinu 1979 sbr. ákvæði 4. gr. laga nr. 22/1956. Eignarskattsstofn kæranda og maka var ákvarðaður kr. 29 721 379, eða jafn hreinni eign en samkvæmt 59. gr. reglugerðar um tekju- og eignarskatt njóta þeir aðilar „er fellt hafa niður heimilisfesti sitt hér á landi ekki frádráttar á hreina eign, áður en skattur er lagður á. Komið hefur í ljós að við álagningu eignarskatts var notuð röng álagningarprósenta, 1,6% í stað 1,2%, og hefur það verið leiðrétt. Að öðru leyti er kröfum kæranda samkvæmt þessum lið hafnað.“

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 9. janúar 1981. í henni er svofelld kröfugerð kæranda: „1) Álagður tekjuskattur.

Ég álít tekjuskattsstofn alltof hátt reiknaðan. Fram kemur í bréfi skattstjóra að tekjur af landbúnaði séu 3 528 476. Það er greinilegt að megnið af þeim tekjum er fengið sem tekjur v/verðbreytinga. Er hægt að skattleggja tekjur sem aldrei koma í vasa launþegans? Mundi ég geta framfleytt fjölskyldunni með því einu að sitja á rassinum og horfa á verðbólguna hækka fasteignamat jarðarinnar?

Það kemur ekki fram í bréfi skattstjóra hvernig tekjuskattur er reiknaður út hjá fólki sem flytur til útlanda á miðju ári. Fáum við ekki persónufrádrátt fyrir þann tíma sem við búum á landinu? Ef svo er, hvaða reglur og prósenta álagningar eru það sem valda 150 þús. kr. skatti á mánuði af tekjum sem nema ca. 450 þús. á mánuði? Það væri sök sér ef að maður hefði haft þessar tekjur. En þar sem þær eru að hluta bara tölur á blaði mótmæli ég þessari álagningu.

2) Eignarskattsstofn er sagður 29 721 379 eða jafn hreinni eign. Hvað er hrein eign? Ég álít það vera nettó eign, þ. e. eign að frádregnum skuldum. Skuldir vegna eignarinnar námu um áramót 1979/1980 ca. 11—12 milljónum. Fasteignamat, það nýjasta sem ég hef séð var um áramót 1978/79 ca. 20 milljónir á A. Aðrar eignir voru 100 kindur og sjóður í banka. Hefur fasteignamat jarðarinnar hækkað á einu ári í 35 milljónir? Ég álít að maður eigi aldrei meira en það sem skuldlaust er, og mótmæli allri annarri álagningu. Mér er ljóst að það er ýmsum erfiðleikum háð að vera í öðru landi og reka öll sín erindi við Ísland með bréfaskriftum. Tel ég einnig að skattframtal mitt beri þess glögg merki að það er unnið án aðstoðar eða upplýsinga sem kynnu að hafa fyrirlegið hefði framtalið verið unnið á Íslandi. Að síðustu höfða ég til mannúðar ykkar og spyr: Hvernig á fjögurra barna faðir með eiginkonu í námi að borga þessa skatta? Einkum og sér í lagi þegar hann vinnur sem ríkisstarfsmaður í Svíþjóð og skattast þar samkvæmt þarlendum sið“.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi dags. 12. júní 1981 krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni tii breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Frumúrlausnarefni kærumáls þessa þykir vera það samkvæmt hvaða lögum beri að ákvarða kæranda skattstofna og skatta vegna tekna þeirra sem hann aflaði hér á landi á árinu 1979 og vegna eigna hans hér á landi þann 31. desember 1979. Þar sem kærandi var eigi við brottför sína af landinu á árinu 1979 skattlagður samkvæmt lögum nr. 22/1956, um skatt- og útsvarsgreiðslur gjaldenda sem eru á förum úr landi o. fl., þykir rétt að ákvarða skatta hans vegna nefnds árs samkvæmt þeim skattalögum, sem í gildi voru við álagningu opinberra gjalda á árinu 1980. Yfirfæranlegt tap til næsta árs vegna eignaleigu ákveðst kr. 160 324.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja