Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 580/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 35/1960, 10. gr.   Lög nr. 70/1978, 2. mgr. 1. gr. 3. tl. C-liðs 30. gr., 2. mgr. 70. gr.  

Námsfrádráttur — Lögheimili — Dvalartími — Skattaleg heimilisfesti — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Valdsvið ríkisskattanefndar

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980. í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir umboðsmaður kæranda svofellda kröfugerð: „Geri ég eftirtaldar kröfur:

1) Að gjöld ársins 1980 verði lögð á X miðað við heimilisfesti allt árið þ. e. án skerðingar persónuafsláttar, barnabóta o. s. frv. og að viðurkenndur verði fullur námsfrádráttur skv. 3. tl. C liður 30. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt.

2.) Að X verði veittur fullur námsfrádráttur sbr. áður tilvitnað ákvæði ef lagt verður á hana skv. 70. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Kröfur þessar eru rökstuddar með því, að X dvaldi við nám í Noregi fyrri hluta árs 1979 og var námstíminn meira en 6 mánuðir. Á hún því tvímælalaust rétt á fullum námsfrádrætti. Gildir þar einu hvort opinber gjöld eru lögð á miðað við 70. gr. skattalaga eða ekki. Er ekki að sjá af lögunum að námsfrádrátturinn sé takmarkaður við þá sem dvelja hér á landi allt áríð. Hér kemur einnig til að X á sem námsmaður rétt á að telja lögheimili sitt í Reykjavík allt árið 1979 skv. 10. gr. laga nr. 35/1960 um lögheimili. Þennan rétt hefur hún hagnýtt sér og ber því að miða skattálagninguna við það að hún hafi haft heimilisfesti hér á landi allt árið 1979.

Loks eru framanritaðar kröfur rökstuddar með því að X var ekki gefinn kostur á að tjá sig um breytingar er gerðar voru á skattframtali hennar árið 1980, áður en þær voru gerðar. Er því þegar af þeirri ástæðu rétt að fella breytingarnar niður og leggja á framtalið óbreytt en þó með fullri fjárhæð námsfrádráttar.“

Ríkisskattstjóri gerir svofellda kröfu í bréfi dags. 24. júlí 1981:

Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærandi átti eigi skattalega heimilisfesti á Íslandi allt árið 1979, og ber því að ákvarða honum gjöld í samræmi við fyrirmæli í 2. mgr., 70. gr. laga nr. 40/1978. Kærandi bar takmarkaða skattskyldu það tímabil er hann stundaði nám á árinu 1979 og á því eigi rétt á námsfrádrætti.“

Skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, hefur ríkisskattstjóri úrskurðarvald um það hverjir skuli heimilisfastir hér á landi samkvæmt þeirri grein. Úrskurðar hans um það hefur eigi verið leitað og kemur því aðalkrafa kæranda eigi til skoðunar.

Telja verður að skattstjóri hafi farið rétt að er hann ákvað kæranda tekjuskattsstofn skv. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt að öðru leyti en því að eigi var við þá ákvörðun tekið tillit til námsfrádráttar skv. 3. tl. C-liðs 30. gr. sömu laga, sbr. E- og F-lið 14. gr. laga nr. 7/1980 og 1. gr. laga nr. 20/1980. Kærandi þykir eiga rétt á nefndum námsfrádrætti miðað við að nám hafi verið stundað erlendis í fulla sex mánuði á árinu 1979.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja