Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 611/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., 59. gr., 63., 95. gr., 96. gr., 100. gr.   Lög nr. 33/1944, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 67. gr.  

Reiknað endurgjald — Lögmenn — Hjón — Samrekstur — Persónubundin rekstrarleyfi — Rekstrartap — Sköttun hjóna — Stjórnskipulegt gildi laga — Sérstakur málflutningur — Stjórnarskrá — Úrskurðarvald ríkisskattanefndar — Ríkisskattanefnd — Valdsvið ríkisskattanefndar — Breytingarheimild skattstjóra — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt — Jafnræðisreglan — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra

I

Málavextir eru þeir, að kærendur skiluðu staðfestu og undirrituðu skattframtali í framtalsfresti árið 1980. Kærendur ráku málflutningsstofu samkvæmt málflutningsleyfum beggja. í skattframtali færði kærandi X sér til tekna sem reiknað endurgjald vegna starfa við eigin atvinnurekstur 3 000 000 kr. og kærandi Y 1 500 000. Að gjaldfærðum reiknuðum launum varð rekstrarhalli af málflutningsstarfseminni samkvæmt rekstrarreikningi fyrir árið 1979, sem fylgdi skattframtalinu. Nam rekstrarhallinn 107 019 kr.

Með bréfum dags. 21. og 22. júlí 1980 tilkynnti skattstjóri kærendum um hækkanir á tilfærðu reiknuðu endurgjaldi. Var reiknað endurgjald X hækkað úr 3 000 000 í 5 170 000 kr. eða um 2 170 000 kr. og jafnframt tilkynnt, að yfirfæranlegt rekstrartap til næsta árs yrði 2 277 019 kr. Reiknað endurgjald Y var hækkað úr 1 500 000 í 2 789 640 kr. eða um 1 289 640 kr. og henni jafnframt tilkynnt, að yfirfæranlegt rekstrartap til næsta árs væri ákveðið 1 289 640 kr. Voru breytingar þessar sagðar gerðar í samræmi við ákvæði 59. gr. skattalaga og viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra, dags. 5. og 13. maí 1980.

Eigi vildu kærendur una þessum breytingum og andmæltu þeim með bréfi, dags. 28. júlí

1980, til skattstjóra. Kærendur greindu frá því að málflutningsstarfsemin hefði legið niðri um alllangt skeið vegna starfa X erlendis. Eftir heimkomu hefði málflutningsstofan verið opnuð að nýju um mánaðamótin mars/apríl 1979. Bæri skattframtal árið 1979 þetta með sér. Það ár hefðu tekjur af málflutningsstörfum numið 293 046 kr. Vísuðu kærendur til ákvæða 59. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem fram kæmi að skattstjóra bæri að gæta aðstöðu víðkomandi aðila, aldurs hans, heilsu, starfstíma, umfangs starfs og annarra atriða, er máli skiptu. Töldu kærendur að í þeirra tilfelli bæri að líta til aðstöðu, starfstíma, umfangs starfs og annarra atriða.

Skattstjóri tók bréf kærenda sem kæru. Með úrskurðum dags. 12. desember 1980 hafnaði skattstjóri kröfum kærenda. Vísaði skattstjóri til 59. gr. skattalaga, þar sem svo væri mælt fyrir, að skattstjóri skyldi ákvarða þeim aðilum tekjur af starfi við eigin atvinnurekstur, sem teldu sér til tekna samkvæmt 2. mgr. 2. tl. A-liðs 7. gr. laganna lægri fjárhæð en ætla mætti að launatekjur þeirra hefðu orðið, ef starfið hefði verið unnið í þágu óskylds aðila. Engar upplýsingar eða skýringar kæmu fram í framtali varðandi skert vinnuframlag þannig að ráða mæti að kærendur hefðu ekki skilað fullu starfi við starfsemi sína, aðrar en launatekjur. Bæri því að ákvarða kærendum tekjur í samræmi við viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra. Vísaði skattstjóri til viðmiðunartekna „sérmenntaðra manna, sem vinna við sjálfstæða starfsemi í sérgrein sinni 8 100 000 kr.“ Þá er vikið að lækkun stofns vegna vinnu að hluta til í annarra þjónustu.

II

Úrskurðum skattstjóra skutu kærendur til ríkisskattanefndar með kæru dags. 27. desember 1980. í kæru er því haldið fram að ákvæði 2. mgr. 1. tl. 7. gr. laga nr. 40/1978 fái eigi staðist gagnvart 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og að það sé brot á jafnræðisreglum að sumum sé gert að greiða skatt af ímynduðum tekjum en öðrum ekki. Þá er af hálfu kærenda talið að formlega hafi eigi verið réttilega að hinum kærðu breytingum staðið. Til viðbótar áður framkomnum röksemdum og skýringum í bréfi til skattstjóra, dags. 28. júlí 1980, benda kærendur á að skattstjóri hafi eigi tekið tillit til starfstíma og aðstöðu þeirra. Ekki sé til b ess litið að starfsemin hafi eftir langt hlé byrjað að nýju um mánaðamótin mars/apríl 1979. Sé hér um skerðingu á vinnuframlagi að ræða við eigin rekstur úr 12 í 9 mánuði. Þá sé ekki tekið tillit til þess að rekstur hafi byrjað á árinu og í þeim efnum vísað til eðlis málflutningsstarfa og hversu greiðslum sé hagað fyrir þau. í kærunni fóru kærendur þess á leit að þeim yrði heimilað að flytja mál sitt fyrir ríkisskattanefnd.

Með bréfum dags. 15. júní 1981 krafðist ríkisskattstjóri þess að úrskurðir skattstjóra yrðu staðfestir.

Í tilefni beiðni kærenda um flutning kærumálsins fyrir ríkisskattanefnd tók nefndin þá ákvörðun á fundi sínum 14. júlí 1981, að fram skyldi fara í málinu skriflegur málflutningur og var kærendum veittur frestur til 15. ágúst 1981 til þess að skila sókn. Sókn kærenda, dags. 14. ágúst 1981, hefur borist. Er þar ítrekuð sú krafa að skattframtal árið 1980 verði látið óhaggað standa og opinber gjöld ákveðin á grundvelli þess. ítrekuð eru áður fram komin rök um að gætt skuli aðstæðna, starfstíma og umfangs starfs. Þá er á það bent að með aðgerðum skattstjóra hafi myndast tap á starfseminni samtals að fjárhæð 3 566, 659 kr. Telja kærendur þetta andstætt tilgangi 59. gr. skattalaga. Með 19. gr. laga nr. 25,21. maí 1981 hafi 59. gr. skattalaga verið breytt á þann veg að allur vafi sé nú úr sögunni um þetta.

Sókn kærenda var send ríkisskattstjóra þann 18, ágúst 1981. í bréfi dags. 25. ágúst 1981 tekur ríkisskattstjóri fram að ekki geti talist efni til breytinga á ákvörðunum skattstjóra þegar litíð sé til gagna málsins, þ. á m. bréfs kærenda.

III

Ríkisskattanefnd á eigi úrskurðarvald um það hvort umrædd lagaákvæði brjóti í bága við einstök ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og er því eigi bær til umfjöllunar um þá málsástæðu kærenda er á þessu er byggð.

Skattstjóri fór með hinar kærðu breytingar eftir ákvæðum 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, en eigi eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. s. 1. Með tilliti til þessa og þegar litið er til gagna málsins og framkominna skýringa kærenda eru kröfur þeirra teknar til greina.

Samkvæmt rekstrarreikningi fyrir árið 1979 nam tap af rekstrinum 107 019 kr.Í 2. ml. 2. mgr. 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, er svo fyrir mælt, að starfi hjón sameiginlega að atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi og hafi bæði þá sérþekkingu og leyfi, sem krafist er, eða sé slíkrar sérþekkingar eða leyfa ekki krafist, skuli skipta hreinum tekjum af rekstrinum í hlutfalli við vinnuframlag hvors um sig og telja til tekna hjá hvoru hjóna. Samkvæmt 3. mgr. 3. tl. 1. mgr. nefndrar lagagreinar skal um meðferð á tapi fara eftir sömu reglum og gilda um meðferð hreinna tekna.

Skipting kærenda á vinnuframlagi, sem fram kemur í gögnum málsins, er á þann veg háttað að vinnuframlag eiginkonu er helmingur vinnuframlags eiginmanns. Rekstrartapi þykir bera að skipta á grundvelli þessarar skiptingar vinnuframlags, er eigi sýnist nein ástæða til að vefengja. Samkvæmt þessu verður yfirfæranlegt rekstrartap eiginmanns 71 346 kr. og eiginkonu 35 673 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja