Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 695/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 30/1970, 12. gr.   Lög nr. 40/1978, 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr.  

Skyldusparnaðarfrádráttur — Skyldusparnaður — Nám — Námsmaður

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 25. júlí 1980, um niðurfellingu skyldusparnaðarfrádráttar vegna náms að fjárhæð 540 912 kr. Með bréfi dags. 19. ágúst 1980 til skattstjóra kærði umboðsmaður kæranda niðurfellingu skyldusparnaðarfrádráttarins, enda hafi hún ekki nýtt undanþágu frá sparnaðarskyldu og eigi því kröfu á þessum frádrætti. Með úrskurði dags. 8. október 1980 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Með því að hún hefði stundað nám í sex mánuði á árinu 1979 hafi hún átt rétt á undanþágu frá skyldusparnaði, sbr. 12. gr. laga nr. 30/1970 um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sbr. og úrskurð ríkisskattanefndar nr. 255 frá 20/2 1973.

Þessum úrskurði hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kærubréfi dags. 3. nóvember 1980 og ítrekar fyrri kröfu um að nefndur skyldusparnaður verði heimilaður frádráttarbær frá tekjum kæranda og álögð gjöld á hann lækkuð samkvæmt því.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi dags. 28. ágúst 1981 gerð svofelld krafa í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Samkvæmt 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt er heimilt að draga frá tekjum manna skv. II. kafla laganna skyldusparnað manna á aldrinum 16—25 ára sem þeim er skylt að spara samkvæmt lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi nemandi í A-skóla tímabilið 1/1 — 31/5 1979 og S-skóla Íslands frá 3/9 til 31/12 1979. Hún var því á árinu 1979 undanþegin sparnaðarskyldu skv. ákvæði 12. gr. laga nr. 30/1970 um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Þykir eigi skipta máli varðandi frádráttarheimildina þótt kærandi hafi ekki nýtt sér undanþáguheimildina frá sparnaðarskyldu, enda heimild til frádráttar skyldusparnaðar bundin við það fé sem mönnum er skylt að spara.

Með hliðsjón af framanrituðu þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja