Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 722/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 48/1975, 1. gr.   Lög nr. 68/1967, 3. mgr. 5. gr.   Lög nr. 73/1980, 1. mgr. 37. gr.   Lög nr. 40/1978, 1. og 2. U. 1. mgr. 31. gr.  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn— Iðnlánasjóðsgjald — Iðnaðarmálagjald — Rekstrarkostnaður — Opinber gjöld — Iðnlánasjóður

Kærð er álagning aðstöðugjalds, iðnlánasjóðsgjalds og iðnaðarmálagjalds gjaldárið 1980, í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfum sínum:

„Málavextir eru þeir að skattstjóri telur til aðstöðugjaldsstofns reiknað iðnlánasjóðsgjald og iðnaðarmálagjald, vegna rekstrar 1979 sem gjaldfært er í rekstrarreikningi félagsins. Er hér um að ræða þau gjöld sem leggja átti á 1980. Þar sem iðnlánasjóðsgjald og iðnaðarmálagjald er reiknað af sama stofni og aðstöðugjald mynda þessi gjöld hluta þess gjaldstofns sem gjöldin eru sjálf reiknuð af. Til nánari skýringar skal sýnt dæmi:

A. Rekstrargjöld, aðstöðugjaldsskyld ............................................................. ........................ 1000
B. Iðnlánasjóðsgjald og iðnaðarmálagjald reiknað og gjaldfært í rekstrarreikningi................................................................................ ............ ...................... 6
C. Stofn sem skattstjóri reiknar af ................................................................... ...................... 1 006
D. Aðstöðugjald 1% ........................................................................................... ....................... 10,06
E. Iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald, 0,6% ....................................................... .................... 6,04

Samkvæmt 1. tl. 5. gr. laga nr. 68/1967 um Iðnlánasjóð og 1. gr. laga nr. 48/1975 um iðnaðarmálagjald ber að leggja þessi gjöld á sama gjaldstofn og aðstöðugjald eins og nánar er lýst í lögunum. Gjöld þessi eru hliðsett aðstöðugjaldi. Engin heimild er í lögum til að gjöld þessi myndi stofn til álagningar þeirra sjálfra enda órökrétt og óþekkt í íslenskum skattalögum eða skattaframkvæmd. Með aðferð skattstjóra eru gjöld þessi ekki lengur 0,6% heldur 0.604%.

Með vísan til framanritaðs er gerð sú krafa að umrædd opinber gjöld verði reiknuð að nýju og gjaldstofninn lækkaður um 3 163 814 kr."

Með bréfi dags. 9. apríl 1981 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur þar eð eigi er fyrir hendi heimild í lögum til að draga umrædd gjöld frá stofni til álagningar iðnaðarmála- og iðnlánasjóðsgjalds.

Hin kærða álagning er í fullu samræmi við langa framkvæmd við álagningu áðurnefndra gjalda."

Þegar borin eru saman ákvæði 1. og2. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, 1. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, 3. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1967, um Iðnlánasjóð, lokamálsgreinar 1. gr. laga nr. 48/1975, um iðnaðarmálagjald og að virtri forsögu hinna tveggja síðastnefndu lagaákvæða þykir eigi hafa verið fyrir hendi nægilega örugg lagaheimild til álagningar hinna kærðu gjalda með þeim hætti er skattstjóri ákvað. Er því fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja