Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 863/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 119/1978   Lög nr. 7/1980, 58. gr., 53. gr.   Lög nr. 40/1978, 4. tl. 1. mgr. 51. gr., 123. gr., ákvæði til bráðabirgða VII   Lög nr. 68/1971, 2. mgr. B-liðs og C-liður 15. gr.  

Gildistaka skattalagabreytinga — Gengistap — Gjaldfærsla gengistaps — Eignfærsla gengistaps — Fyrning gengistaps — Útgerð — Skip — Erlend lán

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 18. apríl 1980 boðaði skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að taka skattframtal hans árið 1979 til nýrrar meðferðar og lækka gjaldfærslu gengismunar á rekstrarreikningi X sf. fyrir árið 1978, en kærandi var eigandi að þriðjungi sameignarfélagsins. Gengismunur erlendra lána að fjárhæð 20 830 523 kr. hefði verið færður til gjalda á rekstrarreikningi, en gengismunur þessi stafaði að mestu af lánum sem tekin hefðu verið vegna yfirbyggingar á skipi félagsins í Noregi á árunum 1976 og 1977. Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. B-liðs 15. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, mætti eignfæra gengistap á skuldum, sem stofnað væri til vegna Öflunar fyrnanlegra eigna skv. C-lið greinarinnar sérstaklega á því rekstrarári sem gengisbreyting ætti sér stað. Gengistap mætti fyrna að fullu á fyrningartíma hlutaðeigandi eignar eða á 5 árum eftir vali skattþegns. Var kæranda gefinn 10 daga frestur til þess að koma að athugasemdum sínum og ákveða hvora aðferðina hann vildi hafa á meðferð gengistapsins.

Kærandi mótmælti hinni fyrirhuguðu breytingu með bréfi dags. 22. maí 1980 og vísaði til ákvæða 4. tl. 1. mgr, 51. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, um gjaldfærslu gengistaps.

Skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi dags. 1. október 1980 að álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1979 hefðu verið endurákvörðuð vegna fyrrnefndrar lækkunar á gjaldfærslu gengistaps í rekstrarreikningi X sf. og þeirra breytinga á skattframtali hans sem af því leiddi. Vísaði skattstjóri til þess, að skv. 123, gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, öðluðust þau lög gildi 1. janúar 1979 og kæmu til framkvæmda við álagningu skatta á árinu 1980 vegna tekna á árinu 1979 og eigna í lok þess árs. Ljóst væri því, að ákvæði nefndra laga giltu ekkí um skattframtal árið 1979 og ársreikning fyrir árið 1978. Þá gat skattstjóri þess, að byggt hefði verið á 5 ára reglunni með því að ekki hefði komið fram af hálfu kæranda hvora aðferðina hann vildi nota.

Endurákvörðun skattstjóra var kærð af hálfu kæranda en með úrskurði dags. 11. nóvember 1980 synjaði skattstjóri kærunni.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 18. nóvember 1980, og krefst þess að gjaldfærður gengismunur verið látinn óbreyttur standa svo sem hann var tilfærður í rekstrarreikningi X sf., enda komi þar fram í lögum nr. 40/1978, að gengismun skuli telja til gjalda sem hluta vaxtabyrði. Getur kærandi þess, að gengismunurinn sé nær allur vegna láns frá tilteknum banka í Noregi er fengið hefði verið vegna yfirbyggingar skipsins 1976 og 1977.

Með bréfi dags. 18. september 1981 hefur ríkisskattstjóri krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Gengistap það sem hér um ræðir féll á skuldir fyrir gildistöku laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. 123. gr. laganna og ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 119/1978 svo og 58. gr. laga nr, 7/1980. Um meðferð slíks gengistaps eftir gildistöku nefndra laga eru sérstök ákvæði í ákvæði til bráðabirgða VII í lögum nr. 40/ 1978, sbr. 53. gr. laga nr. 7/1980. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja