Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 869/1981

Gjaldár 1980

Reglugerð nr. 623/1980   Reglugerð nr. 94/1979   Reglugerð nr. 119/1965   Lög nr. 67/1971, 25. og 36. gr.   Lög nr. 14/1965, 1. og 2. gr.  

Launaskattur — Verkfærapeningar — Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar — Launaskattsstofn — Lífeyristryggingargjald — Slysatryggingariðgjald — Sönnun — Sönnunarbyrði

Í kæru til skattstjóra dags. 29. september 1980 krafðist kærandi þess, að álagning launaskatts og gjalda af greiddum launum yrði miðuð við 5 333 472 kr. sem stofn, er væri fjárhæð greiddra launa samkvæmt ársreikningi. Skattstjóri hafði lagt til grundvallar sem stofn til álagningar gjalda þessara 8 000 000 kr.

Í úrskurði sínum dags. 15. janúar 1981 féllst skattstjóri á að launaskattur og tryggingagjöld yrðu álögð samkvæmt innsendum launamiðum. Var stofn til gjaldanna ákveðinn 5 683 472 kr.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 21. janúar 1981, og er þess krafist að stofninn verði miðaður við 5 333 472 kr.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 4. nóvember 1981;

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Af fyrirliggjandi upplýsingum virðist ráðið að stofn til launatengdra gjalda hafi verið 350 000 kr. hærri en laun færð í reit nr. 2 á launamiða. Mismunurinn stafar af því að skattstjóri hefur réttilega lagt við stofninn 350 000 kr. sem tilgreint er sem „endurgr. v/ verkfæra“, þ. e. verkfærapeningar.“

Eigi liggur annað fyrir í máli þessu en hinar umdeildu greiðslur séu endurgreiddur kostnaður kæranda til starfsmanna vegna verkfæra er þeir leggja sér til. Eigi hefur verið leitt í ljós að laun séu innifalin í þessum greiðslum. Að svo vöxnu verður eigi talið að greiðslur þessar myndi stofn til hinna kærðu gjalda, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, og ákvæði reglugerðar nr. 119/1965, um launaskatt, svo og ákvæði 25. og 36. gr. laga nr. 67/ 1971, um almannatryggingar, eins og greinum þessum var breytt með 3. og 5. gr. laga nr. 59/ 1978, sbr. og reglugerðir nr. 94/1979 og nr. 623/1980. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja