Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 3/1980

Gjaldár 1978

Lög nr. 40/1978, 100. gr.   Lög nr. 68/1971, 38. gr. sbr. 37. gr.  

Sönnun — Sönnunarbyrði — Verksvið ríkisskattanefndar — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Launamiði

Kærð eru álögð gjöld gjaldárið 1978. Málavextir eru þeir, að skattstjóri sendi kæranda fyrirspurnarbréf og óskaði eftir, að kærandi gæfi skýringu á því hvers vegna framtalin laun frá X væru lægri en fram kæmi á launamiða. Samkvæmt framtali kæranda voru laun þessi talin 340 000 kr. en samkvæmt útgefnum launamiða 840 000 kr. í svarbréfi umboðsmanns kæranda kemur fram, að launamiði þessi sé rangur. Kærandi og félagi hans, sem er nafngreindur, hafi unnið hjá X á árinu 1977 og muni laun þeirra beggja hafa verið talin fram á kæranda.

Skattstjóri taldi svar þetta ekki fullnægjandi og hækkaði tekjur kæranda um 500 000 kr. auk 25% viðurlaga.

Umboðsmaður kæranda mótmælti þessum úrskurði. Þær skýringar, er hann hafi gefið skattstjóra í svarbréfi sínu, séu réttar og hafi hann fengið það staðfest, að félagi kæranda hafi fengið greiddar 500 000 kr. frá X.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur:

„Staðreyni ríkisskattanefnd upplýsingar þær er fram koma í kæru og leiðrétti skattskýrslur þar greinds aðila til samræmingar er að svo stöddu fallist á fram komnar kröfur. Að öðrum kosti er krafist frávísunar á kærunni fyrir sakir vanreifunar.“

Umboðsmaður kæranda staðhæfir, að launamiði sá, er í málinu greinir, sé rangur frá hendi launagreiðanda. Hvorki skattstjóri né ríkisskattstjóri hafa hrakið þá staðhæfingu og ber því að taka kröfu kæranda til greina og fella niður tekjuviðbót skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja