Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 113/1980

Gjaldár 1978

Lög nr. 40/1978, 99. og 100. gr.   Lög nr. 68/1971, 40. og 41. gr.  

Kæruheimild — Úrskurðarvald — Gildistaka skattalagabreytinga — Rekstrartap

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi fram til skatts í framtalsfresti fyrir útkomu skattskrár gjaldárið 1978. Skilaði hann undirrituðu skattframtali og fylgdi því staðfestur ársreikningur áritaður af löggiltum endurskoðanda. Samkvæmt rekstrarreikningnum voru gjöld umfram tekjur á árinu 1977. Skattframtalið var óbreytt lagt til grundvallar við ákvörðun gjalda með skattskrá 1978. Með bréfi skattstjóra, dags. 8. janúar 1979, var skorað á kæranda að gefa sundurliðanir og greinargerðir varðandi nokkra liði í rekstrarreikningi hans árið 1977. Var bréfi þessu svarað með ítarlegu svarbréfi og er það dags. 22. janúar 1979. Af gögnum málsins verður ráðið, að skattstjóri hafi síðan tilkynnt kæranda um tekjuhækkun, en ódagsett og óundirritað afrit af tilkynningu þessari er meðal gagna málsins. Ekki leiddi tekjuhækkun þessi til þess, að kæranda væri gert að greiða tekjuskatt vegna gjaldársins 1978. Með bréfi sínu dags. 14. apríl 1979 kærði kærandi teknahækkunina til skattstjóra, sem hinn 23. maí 1979 kvað upp kæruúrskurð í málinu. Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar og þess krafist, að úrskurðinum verði hrundið. Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist, að „úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Litið var svo á, að kæruheimild samkvæmt upphafsákvæði 40. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sem hér á við, hafi aðeins náð til álagðs skatts, en ekki annarra atriða, sem skattframtal hefur að geyma, sbr. orðin „Nú telur einhver skatt sinn eigi rétt ákveðinn“ í nefndu ákvæði. Ákvörðun skattstjóra leiddi ekki til þess að kærandi bæri tekjuskatt vegna gjaldársins 1978 og brast skattstjóra því heimild til þess að kveða upp kæruúrskurð í málinu er lúta skyldi reglum 40. gr. og 41. gr. nefndra laga. Ber því að ómerkja kæruúrskurð skattstjóra dags. 23. maí 1979 og vísa málinu að svo stöddu af kærustigi skattstjóra og frá ríkisskattanefnd.

Þess er að geta, að ákvæði 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. a-lið 45. gr. laga nr. 7/1980 um breyting á þeim lögum, koma til framkvæmda við álagningu skatta á árinu 1980 vegna tekna ársins 1979 og eigna í lok þess árs, sbr. 118. gr. laga nr. 40/1978, nú 123. gr. sömu laga, ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 119/1978 og 58. gr. laga nr. 7/1980.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja