Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 393/1992

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Afturköllun — Afturköllun stjórnvaldsákvörðunar — Breytingarheimild á stjórnvaldsákvörðun — Málsmeðferð áfátt

I.

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988. Við álagningu opinberra gjalda það ár sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu kæranda var álagningin kærð með kæru, dags. 2. ágúst 1988, og boðað, að skattframtal árið 1988 yrði sent fyrir lok mánaðarins, þegar gerð ársreiknings fyrir árið 1987 væri lokið. Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 26. ágúst 1988, fylgdi skattframtal kæranda árið 1988 og var farið fram á, að skattframtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 í stað áætlunar. Móttók skattstjóri gögn þessi hinn 31. ágúst 1988. Með bréfi, dags. 24. júlí 1989, krafði skattstjóri kæranda skýringa varðandi tilgreinda gjaldaliði. Með bréfum, dags. 3. ágúst og 17. ágúst 1989, svaraði umboðsmaður kæranda hinum umspurðu atriðum. Hinn 21. maí 1990 tók skattstjóri kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði og féllst á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Segir svo í þessum úrskurði skattstjóra:

„Fallist er á að leggja innsent skattframtal án álags til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins 1988.

Það athugast að ekki er tekin afstaða til rekstrartapa v/eldri ára, því að úrskurðir v/skattframtala viðkomandi ára liggja ekki fyrir.

Skattstjóri hefur ákveðið að nýta sér heimild sína skv. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 til beitingar 25% álags á gjaldstofna. Ekki hefur verið sýnt fram á að þær ástæður hafi legið fyrir er leiði til þess að fella beri niður álag samkvæmt ákvæðum 3. mgr. greinarinnar.“

II.

Með kæru, dags. 18. júní 1990, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst niðurfellingar þess 25% álags á skattstofna, sem skattstjóri beitti vegna síðbúinna framtalsskila. Segir svo í kærunni:

„Í ofangreindum úrskurði skattstjórans er fallist á að leggja innsent framtal ársins 1988 til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Einnig er fallist á í inngangsorðum úrskurðarins að ekki verði beitt viðurlögum á skattstofna vegna síðbúinna skila. Í niðurlagi bréfsins er hins vegar ákveðið að beita 25% álagi á skattstofna og virðist það ráða við ákvörðun þeirra.

Ástæðu síðbúinna framtalsskila 1988 vegna ársins 1987 má rekja til þess að þegar verið var að ganga frá því framtali, kom í ljós að skattframtali 1987 hafði ekki verið skilað inn til skattyfirvalda. Kom það stjórnendum félagsins mjög á óvart þar sem stjórn og endurskoðandi árituðu ársreikning félagsins fyrir árið 1986 þann 25. september 1987. Vegna þessa þurfti eðlilega að standa skil á skattframtali 1987 áður en mögulegt var að skila inn skattframtali 1988 og reyndist af þeim sökum ekki unnt að skila skattframtali 1988 fyrr en eftir að framtalsfrestur 1988 rann út.

Í bréfi til skattstjórans dags. 26. ágúst 1988, sem fylgdi skattframtali félagsins 1988, var farið fram á að álagning opinberra gjalda 1988 væri byggð á innsendu skattframtali félagsins og að ekki væri beitt viðurlögum vegna síðbúinna skila. Með áðurnefndu bréfi sínu frá 21. maí 1990 fellst skattstjóri á að byggja álagningu á innsendu framtali. Samkvæmt álagningarseðli hafa gjaldstofnar jafnframt verið hækkaðir vegna 25% álags. Er því úrskurði skattstjórans í Reykjavík hér með mótmælt og farið fram á að ekki verði beitt álögum á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila gjaldárið 1988.“

III.

Með bréfi, dags. 14. janúar 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, geti átt við.“

IV.

Svo sem fram kemur í kæruúrskurði skattstjóra og umboðsmaður kæranda víkur að í kæru sinni til ríkisskattanefndar ákveður skattstjóri bæði að fella álag niður og beita því. Í reynd hefur skattstjóri bætt 25% álagi við skattstofna skv. innsendu framtali vegna hinna síðbúnu framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fyrrgreindar brotalamir á úrskurði skattstjóra þykja einar sér leiða til niðurfellingar hins kærða álags. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja